Það er nú liðið um það bil eitt ár síðan undirritaðir voru kjarasamningar Samtaka atvinnulífsins við helstu verkalýðsfélög á almenna vinnumarkaðnum. Stöðugleikasamningurinn sem svo er nefndur er til fjögurra ára og gildir til janúarloka 2028.
Öll helstu markmið samningsins hafa gengið eftir. Verðbólga hefur lækkað úr tæpum 7% við undirritun samninganna í 4,2% nú í apríl. Meginvextir hafa lækkað úr 9,25% í 7,75% á sama tíma og líkur á að þeir geti haldið áfram að lækka. Kaupmáttur launa hefur styrkst. Í september n.k. munu samningsaðilar meta hvort forsendur samninganna hafa haldið og engar líkur er á öðru en svo muni reynast.
Almennt hafa aðrir kjarasamningar á vinnumarkaði verið innan þess svigrúms sem stöðugleikasamningurinn markaði þótt nýir samningar við kennarasamtökin virðist reyna á þanþol þeirra. Mikilvægt er að hið opinbera bregðist við með hagræðingu og kostnaðaraðhaldi í stað þess að hækka skatta og gjaldskrár. Að öðrum kosti er hætta á verðlagshækkunum og að markmiðum um lækkun vaxta og verðbólgu verði stefnt í hættu.
Aukin verðmætasköpun í atvinnulífinu er lykilþáttur til að unnt sé að viðhalda efnahagslegum stöðugleika og á sama tíma tryggja betri hag fjölskyldna í landinu. Fyrirtækin verða að búa við sambærileg rekstrarskilyrði og í samkeppnislöndunum og hafa svigrúm til að stunda rannsóknir, nýsköpun, markaðssókn og að fjárfesta í nýjungum og endurnýja tæki og tól. Skattahækkanir hafa neikvæð áhrif á rekstur fyrirtækjanna, leiða til verðhækkana og takmarka getu þeirra til uppbyggingar.
Það er ánægjulegt að mikil samstaða hefur myndast um fjárfestingar í nýrri orkuframleiðslu og uppbyggingar á flutningskerfi raforku. Um allt of langa hríð hefur ríkt stöðnun á þessu sviði sem dregur úr verðmætasköpun og almennum framförum í landinu.
Hafið er tollastríð milli helstu viðskiptaríkja heims. Ekki er ólíklegt að það bitni á íslenskum útflutningsgreinum og ef svo verður getur það haft neikvæð áhrif á afkomu fjölmargra fyrirtækja sem eru mikilvæg fyrir verðmætasköpun í landinu. Á sama tíma hafa stjórnvöld lýst áformum um að þyngja enn skattbyrði þessara greina. Ástæða er til að staldra við og íhuga þessi áform betur í ljósi þeirrar stöðu sem uppi er.
Höfundur þessa ávarps var fyrst kjörinn formaður Samtaka atvinnulífsins á vormánuðum 2017 og síðan eru liðin átta ár. Það er nú kominn tími til að láta gott heita. Á þessum tíma hef ég kynnst og átt samstarf við mjög margt fólk í fyrirtækjum landsins, starfsfólk í Húsi atvinnulífsins, stjórnmálamenn og starfsmenn sem gegna mikilvægu hlutverki hjá ríki og sveitarfélögum. Öllu þessu fólki kann ég bestu þakkir fyrir gott samstarf og óska þeim góðs gengis við að efla atvinnulífið í landinu og að tryggja fyrirtækjunum hagfellt starfsumhverfi. Mikil samstaða og einhugur hefur ríkt í stjórn og framkvæmdastjórn SA og það sama á við um aðildarsamtökin þótt að sjálfsögðu kunni öðru hvoru að vera skiptar skoðanir um einstök mál.
Þá eru ótaldir forystumenn og starfsfólk verkalýðsfélaganna og samtaka þeirra. Það ríkir almennt gott traust milli fulltrúa samningsaðila. Kjarasamningar eru sameiginlegt verkefni og hafa að markmiði að tryggja að lífskjör almennings geti haldið áfram að batna um leið og rekstarumhverfi fyrirtækja er tryggt. Kjarasamningar sem nú gilda byggja ennfremur á sameiginlegri sýn um aukna verðmætasköpun og stöðugleika í hagkerfinu með lágri verðbólgu og vöxtum.
Sérstakar þakkir fá framkvæmdastjórar Samtaka atvinnulífsins á þessum 8 árum þau Sigríður Margrét Oddsdóttir sem tók í september 2023 við af Halldóri Benjamín Þorbergssyni sem gengt hafði starfinu í tæp sjö ár. Þau hafa veitt fyrirtækjum í landinu mikilvæga þjónustu og verið leiðtogar mikilhæfs starfsfólks samtakanna. Allar tillögur samtakanna og málflutningur samtakanna byggir á rökum og greiningarvinnu og hefur skapað gott traust í þeirra garð sem nauðsynlegt er að haldist.
Það hafa verið forréttindi að taka þátt í starfi samtakanna undanfarin 11 ár en ég var fyrst kjörinn til setu í stjórn Samtaka iðnaðarins og Samtaka atvinnulífsins árið 2014. Fyrir það traust sem mér hefur verið sýnt er ég fullur þakklætis.
Ég óska samtökunum og stjórnum þeirra og starfsfólki góðs gengis til langrar framtíðar við að tryggja viðgang og vöxt atvinnulífsins.
Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífins
Samtök atvinnulífsins eru málsvari íslensks atvinnulífs gagnvart stjórnvöldum, stéttarfélögum, almenningi og öðrum hagaðilum. Við erum í forystu um samkeppnishæft rekstrarumhverfi og eigum því lykilþátt í að skapa hagsæld á Íslandi. Að vera málsvari atvinnulífsins þýðir ekki að við hugsum eingöngu um fyrirtækin. Hagaðilar okkar eru margir og þarfir þeirra geta skarast. En það er mikilvægt að við vinnum öll saman að sameiginlegum markmiðum.
Við lítum á alla okkar hagaðila sem samstarfsaðila, og vinnum framsækið að samstarfi og samskiptum við þá. Við erum millistykki milli fyrirtækja og starfsfólks þeirra. Við erum samverkamenn stéttarfélaganna. Við erum samstarfsaðili stjórnvalda og fjölmiðla. Við störfum með lykilhagsmunasamtökum um heim allan.
Mikil ábyrgð fylgir því að vera málsvari íslensks atvinnulífs. Við erum leiðandi í því að fræða almenning og að móta kjarasamninga sem þjóna heildarhagsmunum Íslands. Við erum stöðugt að safna saman, greina og deila mikilvægum upplýsingum á mannamáli. Við notum fagþekkingu okkar á hlutlægan máta og komum á dagskrá í umræðu stjórnvalda og efnahags- og félagsmála.
Í gegnum burðarhlutverk okkar og víðtæka þjónustu til fyrirtækja, höfum við bein og óbein áhrif á ólík svið íslensks samfélags. Frá því að hafa bein áhrif á kjarasamninga, löggjöf og lífeyrissjóði yfir í að hafa óbein áhrif á kaupmátt, störf og verðbólgu. Í öllu sem við gerum er leiðarljós okkar alltaf að gera íslensku atvinnulífi kleift að skapa virði og hafa jákvæð áhrif á samfélagið.
Á árunum 2024 til 2028 mun SA leggja áherslu á fimm atriði sem hafa veruleg áhrif á verðmætasköpun í íslensku atvinnulífi - auka hagsæld og tækifæri.
Samtök atvinnulífsins (SA) eru heildarsamtök íslensks atvinnulífs með sex aðildarsamtökum sem byggja á ólíkum atvinnugreinum:
Yfir 2.000 fyrirtæki í fjölbreyttum atvinnugreinum eiga aðild að SA, allt frá sjálfstætt starfandi frumkvöðlum til stærstu fyrirtækja landsins. Hjá aðildarfyrirtækjum SA starfa um 70% launafólks á almennum vinnumarkaði.
Samtök atvinnulífsins lögðu mikið kapp á það með viðsemjendum sínum að gera langtímakjarasamning sem gæti byggt undir efnahagslegan stöðugleika. Það er hins vegar ekki þannig að stöðugleiki komi af sjálfu sér. Hann krefst mikillar festu og samstöðu. Horfa þarf fram á veginn og tryggja að kjarasamningarnir verði til þess að draga úr verðbólguþrýstingi. Atvinnulíf og stjórnvöld þurfa að rísa undir sinni ábyrgð. Þannig náum við tökum á verðbólgunni og sköpum aðstæður fyrir lækkun vaxta.
Á þessum grunni hófu SA eftirfylgni við kjarasamninga undir yfirskriftinni Stöðugleikarnir sumarið 2024 . Stöðugleikarnir fóru fram með hækkandi sól og samanstóðu af opnum fundum fyrir atvinnulíf, stjórnvöld og almenning og fjölbreyttu miðlunarefni og samtali. Þá var bætt í upplýsingagjöf til aðildarfyrirtækja SA um tæknileg útfærsluatriði kjarasamninganna.
Stöðugleikarnir hófust í Hofi á Akureyri.
Stöðugleikarnir hófust með vel sóttum fundi í Hofi norður á Akureyri. Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA, opnaði fundinn og fjallaði síðar um stöðuna á vinnumarkaði. Stefanía Ásbjörnsdóttir, hagfræðingur á efnahagssviði, fór yfir stöðuna og horfur í efnhagsmálum.
Gunnar Egill Sigurðsson, forstjóri Samkaupa, flutti hugvekju á fundinum þar sem hann áréttaði að allir þyrftu að axla ábyrgð svo hægt væri að ná verðstöðugleika. Allir hlekkir aðfangakeðjunnar þurfi að horfa til hagræðingar og aukinnar skilvirkni.
„Dæmi um þetta eru að verðið á mjólk hefur hækkað um 24,5% síðan haustið 2022 og verð á lambalæri hefur hækkað um 41% - þá er ég að tala um í innkaupum, ekki útsöluverð. Við sjáum alveg að svona prósentuhækkanir ganga ekki upp til lengdar. Þær ganga í rauninni ekki upp punktur“ sagði Sigurður um stöðu mála.
Við sjáum alveg að svona prósentuhækkanir ganga ekki upp til lengdar. Þær ganga í rauninni ekki upp punktur.
Gunnar Egill Sigurðsson, forstjóri Samkaupa.
Gunnar Egill Sigurðsson, forstjóri Samkaupa.
Til að bregðast við þessari stöðu hafi Samkaup sent erindi á alla sína þjónustuaðila þar sem þeir eru hvattir tli að líta inn á við og hagræða í rekstri. Þá hafi félagið einnig sent erinindi um að það muni fleyta lægri verðum út í verðlagið. Því miður hafi undirtektirnar verið of litlar. Samkaup hafi lækkað verð á þeim vörum sem verslunin flytji inn sjálf, í þeirri viðleitni að sporna gegn verðbólgu, en það megi sér lítils. Í lokin hvatti hann fólk til þess að standa saman til hagsbóta fyrir alla.
Vilborg Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri og kaupmaður í Centro á Akureyri, flutti hugvekju um hvernig tryggja megi stöðugleika frá sínum sjónarhóli. Í tilfelli hennar reksturs séu það tvö lykilatriði sem skipti máli, en þau hafi ekki breyst síðan hún hóf rekstur fyrir þremur áratugum síðan – stöðugt verðlag og samkeppnishæft starfsumhverfi. Í því sambandi sagði Vilborg dæmisögu af buxum sem verslunin hefði verið með í mörg ár. Buxurnar kosti 8.990 krónur og hafi gert það frá því þau byrjuðu að selja þær.
„Þegar verðlagið hækkar sífellt, líkt og undanfarin ár, og skattarnir fara einnig hækkandi þá eykst þrýstingurinn á verðið á þessum buxum, en við munum leitast við að sporna gegn því. Þess vegna þykir mér líka svo afar leitt að heyra í kvöldfréttum að sumir aðilar eru tilbúnir að skella skuldinni af hækkandi verðlagi undanfarinna ára á atvinnurekendur. Græðgisverðbólga er ekki hugtak sem ég tengi við og þessar buxur eru ágætt dæmi um það“ sagði Vilborg.
Græðgisverðbólga er ekki hugtak sem ég tengi við og þessar buxur eru ágætt dæmi um það.
Vilborg Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri og kaupmaður í Centro á Akureyri.
Vilborg Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Bravo og kaupmaður í Centr.
Vilborg lauk hugvekjunni á orðum ömmu sinnar, Ingibjargar Gissurardóttur sem var fædd árið 1888, elst 17 systkina og hörkukona.
„Starfsdagurinn hefur oft verið langur og strangur, en hver dagur hefur verið mér sigurdagur.“
Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrar, Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar stéttarfélags Þingeyinga, og Bjarnheiður Hallsdóttir, framkvæmdastjóri Kötlu DMI og varaformaður SA, tóku þátt í umræðum á fundinum undir stjórn Sigríðar Margrétar Oddsdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins.
Frá pallborðsumræðunum á Akureyri.
Þátttakendur í pallborðinu voru sammála um að sú hugmyndafræði sem unnið var eftir við gerð þessa kjarasamnings hafi verið farsæl. Leiðin í átt að efnahagslegum stöðugleika felist í aðhaldi samstöðu og úthaldi.
„Við teljum okkur vera búin að búa til umhverfi sem geri það að verkum að fjögurra ára langtímasamningar haldi. Við verjum þennan kaupmátt, við búum til aðstæður þar sem verðbólgan fer niður og vöxtur okkar þróttmikla efnahagslífs býr til ný verðmæti inn í næstu ár til að standa undir þessari kaupmáttaraukningu sem verður.“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Þessi fyrirsjáanleiki og lengri tíma áætlanir eru algjör grunnur að því að við náum að halda stöðugleika hérna. Ég held að það sé lykillinn að því að við náum niður verðbólgunni, sem er okkar sameiginlega verkefni í dag.
- Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri.
Samtök atvinnulífsins þurfa að sýna stjórnvöldum aðhald. Það eru mörg fyrirtæki sem kvarta mikið undan öllum þessum álögum sem eru lögð á atvinnulífið í dag af hinu opinbera. Ég skil það vel að mörg minni fyrirtæki séu að kikna undan þessu.
- Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar stéttarfélags Þingeyinga.
Sigurður Ingi Jóhannsson tók þátt í pallborðsumræðum.
Eftir góðan fund fyrir norðan fóru Stöðugleikarnir fram í Hörpu í Reykjavík degi síðar. Sigríður Margrét opnaði fundinn og fjallaði síðar um vinnumarkaðinn. Anna Hrefna Ingimundardóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri SA, fór yfir stöðuna í efnahagsmálum og launaþróun á milli markaða.
Finnur Oddsson, forstjóri Haga, flutti hugvekju um gangverk atvinnulífsins – hvernig rekstrarkostnaður og verðlag hangir saman og hvernig verð á markaði myndast. Hann tók dæmi um verðlagningu á ólífuolíu, sem mætti í grófum dráttum skipta í þrennt. Það er í fyrsta lagi hlutur framleiðenda, í öðru lagi hlutur heildsala og í þriðja lagi hlutur smásala.
„Hérna má gera ráð fyrir vöru sem kostar 100 kall út úr búð. Þá má ætla að hráefnisframleiðendur og framleiðendur endanlegrar neytendavöru, ásamt dreifingaraðilum, standi á bakvið um 50 krónur af þessum 100. Framlegð í heildsölu á Íslandi er svo um það bil 30%, þannig að þar bætast við 30 krónur til viðbótar. Að lokum leggur verslunin á áður en varan er seld. Framlegð í Högum er í kringum 20% í dag, en sambærileg fyrirtæki hérlendis eru að vinna á framlegð í kringum 23 – 25%. Þessi framlegð er svo nýtt til að greiða kostnað við rekstur og það er ekki óalgengt að eftir standi tvær til þrjár krónur, eða 2-3% af afkomu þegar allt er talið og þokkalega vel gengur í smásölunni.“
Sigurður Brynjar Pálsson, forstjóri Byko.
Sigurður Brynjar Pálsson, forstjóri Byko, flutti hugvekju um leiðina að stöðugleika og aðdraganda þess að félagið ákvað að frysta verð í hálft ár.
„Við í Byko gerðum okkur vel grein fyrir því að sökum stærðar okkar og ábyrgðar þyrftum við að taka af skarið. Við viljum miklu frekar vera á holóttum vegi í skamman tíma, heldur en að búa við þetta landslag til lengri tíma. Við framkvæmdastjórnarborðið ræddum við þetta og veltum því á milli okkar hvað skiptir mestu máli. Það skiptir auðvitað mestu máli að ná fram stöðugleika og við eigum að hafa þar áhrif. Við getum beitt okkur í þeirri von að aðrir fylgi í kjölfarið vegna þess að þetta getur aldrei orðið einkamál fárra aðila.“
Við viljum miklu frekar vera á holóttum vegi í skamman tíma, heldur en að búa við þetta landslag til lengri tíma
Sigurður Brynjar Pálsson, forstjóri Byko
Sigurður Ingi Jóhannsson fjármála- og efnahagsráðherra, Einar Þorsteinsson, borgarstjóri Reykjavíkur, Vilhjálmur Birgisson , formaður Starfsgreinasambandsins og Jónína Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Coripharma, tóku þátt í umræðum á fundinum undir stjórn Sigríðar Margrétar.
Þar var mikið rætt um að enn væri ósamið á opinberum vinnumarkaði og lögðu þátttakendur í umræðunum ríka áherslu á að launastefnunni, sem mótuð hefði verið á almennum vinnumarkaði í vetur, yrði fylgt.
Aðgerðum sem tóku ekki bara tillit til þeirra sem voru að semja á almenna markaðnum, heldur líka opinbera markaðarins. Við erum því búin að segja hvað við getum gert. Það er búið að senda út merkið. Þetta er það sem að allir geta samið um og verða að semja um.
- Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Þess vegna tek ég undir að það er gríðarlega mikilvægt að við, sem erum núna í samningum, höldum okkur við merkið. Það er ekkert annað í boði.
- Einar Þorsteinsson, borgarstjóri Reykjavíkur.
Það þarf að horfa á heildarpakkann þegar verið er að tala um að jafna laun á milli almenna og opinbera markaðarins. Því miður hefur það verið þannig í gegnum árin og áratugina að hið opinbera hefur verið leiðandi í kjarastefnu á íslenskum vinnumarkaði, enda eru réttindin hjá hinu opinbera margfalt betri heldur en gengur og gerist á almennum vinnumarkaði.
- Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins.
Á Íslandi renna um 60% allra verðmæta sem við sköpum til launafólks. Laun eru gjarnan einn stærsti útgjaldaliður íslenskra fyrirtækja að aðföngum undanskildum. Launakostnaður er jafnframt stærsti útgjaldaliður íslenska ríkisins eða hátt í helmingur, þegar lagður er saman beinn launakostnaður og fjárframlög til almannatrygginga sem nú stendur til að tengja við launavísitölu.
Það er því mikilvægt að félagsmenn Samtaka atvinnulífsins hafi greinargóðar upplýsingar um stöðu vinnumarkaðarins, gerð kjarasamninga og þróun launa við ákvarðanatöku.
Í því ljósi unnu SA heildstæða greiningu á kjarasamningum, launaþróun, efnahagslegu svigrúmi til launabreytinga, stöðunni á vinnumarkaði, samkeppnisstöðu atvinnulífsins á móti hinu opinbera og því regluverki sem snertir vinnumarkaðinn og vænta má á næstu árum í gegnum EES samninginn.
Von SA með útgáfunni var að gefa fyrirtækjunum betra fóður til ákvarðanatöku þegar kemur að launamálum og styðja við hagsmunagæslu atvinnulífsins fyrir framþróun íslensks vinnumarkaðar.
Dregið hefur úr spennu í hagkerfinu, en þjóðarbúið hefur sýnt seiglu og er útlit fyrir mjúka lendingu eftir þensluskeið undanfarinna ára. Samhliða minnkandi verðbólgu og verðbólguvæntingum myndaðist svigrúm fyrir Seðlabankann að hefja vaxtalækkunarferli eftir nokkuð langt skeið hárra stýrivaxta. Kólnun á húsnæðismarkaði, minnkandi spenna á vinnumarkaði, ásamt alþjóðlegum áhrifaþáttum, hafa stutt við hjöðnun verðbólgu. Opinber fjármál voru áfram í halla og eru áskoranir fram undan við að ná jafnvægi í opinberum rekstri.
Eftir þensluár í kjölfar heimsfaraldurs hefur tekið að hægja á hagkerfinu, sem er nú á ákveðnum vendipunkti. Hagvöxtur dróst saman úr 5,6% árið 2023 niður í 0,5% árið 2024. Þetta má að einhverju leyti rekja til neikvæðra áhrifa birgðabreytinga vegna loðnubrests fyrr á árinu, sem hafði áhrif á útflutning, ásamt óhagstæðum skilyrðum í utanríkisviðskiptum. Auk þess hefur hagvöxtur á mann dregist saman og var neikvæður um 1,5% árið 2024, en fólksfjölgun hefur verið hröð undanfarin ár.
Breyting á milli ára (%)
Einkaneysla var fremur veik á fyrri hluta ársins, og mældist samdráttur á öðrum ársfjórðungi samanborið við árið á undan. Þó mátti sjá viðsnúning á síðasta ársfjórðungi, þar sem greiðslukortavelta jókst og væntingar heimila og fyrirtækja fóru batnandi. Líklega má rekja þessa þróun til upphafs vaxtalækkunarferlis Seðlabankans á þessum tíma, sem jók bjartsýni á meðal markaðsaðila og heimila.
Breyting frá fyrra ári (%, v. ás), vísitala (h. ás)
Hægt hefur á vexti í komum erlendra ferðamanna eftir öflugan bata ferðaþjónustunnar í kjölfar heimsfaraldurs. Árið 2024 fjölgaði erlendum ferðamönnum aðeins um 2%, samanborið við um 30% vöxt árið áður, sem gefur til kynna að neikvæð áhrif heimsfaraldurs á ferðaþjónustu hafi að mestu fjarað út.
Fjöldi ferðamanna (þúsundir, v. ás) og breyting frá fyrra ári (%, h. ás)
Viðskiptajöfnuður hefur að mestu verið neikvæður frá upphafi heimsfaraldurs, einkum vegna aukins halla á vöruskiptum. Þjónustujöfnuður hefur hins vegar verið jákvæður síðasta áratug og vegið að hluta til á móti neikvæðum áhrifum vöruskiptajafnaðar. Hann hefur sýnt skýrar árstíðarbundnar sveiflur, þar sem hann eykst jafnan yfir sumarmánuðina þegar gjaldeyristekjur af ferðaþjónustunni aukast.
Raungengi íslensku krónunnar hefur verið nokkuð hátt, sem hefur haft neikvæð áhrif á vöruskiptajöfnuðinn. Hátt gengi gerir innflutning hagstæðari, en dregur úr samkeppnishæfni útflutnings. Viðskiptajöfnuður var í halla á fyrstu tveimur ársfjórðungum ársins, sem nam rúmum 3% af VLF, en það skýrist m.a. af kröftugum innflutningi fjárfestingarvara. Hann snerist síðan í afgang á þriðja ársfjórðungi þegar ferðaþjónustan tók við sér.
Viðskiptajöfnuður sem hlutfall (%, v. ás) af VLF og helstu undirliðir hans (ma. kr., h. ás)
Þróun á gengi krónunnar gagnvart helstu viðskiptamyntum
M.v. hlutfallslegt verðlag og hlutfallslegan launakostnað
Ársverðbólgan hefur verið á niðurleið síðasta árið og fór úr því að vera 6,7% í byrjun árs niður í 4,8% í desember, en verðbólga án húsnæðis stóð í 2,8% í árslok. Framlag flestra undirliða til verðbólgu minnkaði á árinu en þó dró sérstaklega úr hækkunum á innfluttum vörum og húsnæði, sem hefur verið helsti drifkraftur verðbólgunnar undanfarin misseri.
Framlag til ársverðbólgu (%)
Minnkandi framlag húsnæðisliðarins þegar leið á árið má að hluta skýra með því að áhrif Grindavíkur á fasteignamarkaðinn voru að mestu gengin í gegn samhliða dvínandi eftirspurn vegna þétts taumhalds peningastefnunnar.
12 mánaða verðbólga (%) og meginvextir (%) Seðlabanka Íslands
Með minnkandi verðbólgu og minni verðbólguvæntingum skapaðist svigrúm fyrir Seðlabankann til að lækka vexti eftir rúmt ár af óbreyttum stýrivöxtum í 9,25%. Bankinn hóf vaxtalækkunarferli sitt í október 2024 með 0,25 prósentustiga lækkun og fylgdi því síðan eftir með 0,5 prósentustiga lækkun í nóvember. Undir lok árs stóðu stýrivextir því í 8,5%. Peningastefnan hélt samt sem áður þéttu aðhaldi með háu raunvaxtastigi, þar sem enn var töluverður verðbólguþrýstingur til staðar ásamt því að verðbólguvæntingar til lengri tíma voru yfir verðbólgumarkmiði.
Munur á ávöxtunarkröfu verðtryggðra og óverðtryggðra skuldabréfa (%)
Vöxtur íbúðaverðs tók við sér um mitt ár 2023, en þó ekki af eins miklum krafti og á fyrri árum. Raunverð íbúða gaf eftir framan af, þar sem verðbólga án húsnæðisliðar var umtalsvert meiri en hækkun íbúðaverðs. Raunverðið tók að hækka aftur á árinu 2024 og stóð í tæpum 5% undir lok árs, en þegar mest gekk á í byrjun árs 2022 var hún í tæpum 20%.
12 mánaða breyting (%) og fjöldi íbúða (þús.)
Undir lok heimsfaraldurs myndaðist talsverð spenna á vinnumarkaði. Skráð atvinnuleysi skv. Vinnumálastofnun minnkaði hratt og fór lægst niður í 2,8% árið 2023, sem er meðal lægstu gilda síðari ára.
Á síðustu tveimur árum hefur skráð atvinnuleysi haldist undir meðaltali frá árinu 2011, sem endurspeglar mikinn styrk á vinnumarkaði á þessum tíma. Það sést einnig glögglega þegar litið er á fjölda lausra starfa á hvern atvinnulausan skv. vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar, þar sem hlutfallið fór hæst upp í 1,4 árið 2022. Árið 2024 dró hins vegar úr spennu á vinnumarkaði þar sem atvinnuleysi náði ákveðnu jafnvægi og hlutfall lausra starfa á hvern atvinnulausan fór aftur niður á svipað stig og fyrir heimsfaraldur.
Fjöldi starfandi (v. ás) og hlutfall innflytjenda á vinnumarkaði (%, h. ás)
Á fjórða ársfjórðungi töldu 23% stjórnenda að það væri skortur á starfsfólki hjá sínu fyrirtæki samkvæmt könnun Gallup sem framkvæmd er fyrir SA og Seðlabanka Íslands um stöðu og framtíðarhorfur stærstu fyrirtækja landsins. Skortur á starfsfólki skv. þessari könnun hefur minnkað jafnt og þétt síðan 2022, þegar hann mældist mestur í rúmum 56%. Hann mældist hins vegar enn töluverður í byggingarstarfsemi og veitum eða 50%, sem gefur vísbendingar um talsverðan þrótt í þessum geirum þrátt fyrir þann háa fjármagnskostnað sem þeir hafa þurft að glíma við undanfarin misseri.
Ársbreyting (%)
Í fjármálaáætlun fyrir árin 2025–2029, sem ríkisstjórnin kynnti í mars, var lögð áhersla á aukið aðhald í ríkisfjármálum til að stuðla að minni verðbólgu og lægri vöxtum. Afkoma hins opinbera var samt sem áður neikvæð, og nam hallinn tæpum 4% af landsframleiðslu fyrir árið í heild. Þrátt fyrir að hallinn hafi minnkað verulega eftir heimsfaraldur, hefur vaxtabyrði ríkissjóðs þyngst nokkuð og eru vaxtagjöld nú einn af stærstu útgjaldaliðum ríkisins. Það ætti því að vera kappsmál að greiða niður skuldir ríkissjóðs, svo hægt sé að nýta þá fjármuni sem renna nú í vaxtagjöld til brýnni verkefna.
Sem hlutfall (%) af landsframleiðslu
Í október 2024 sleit Bjarni Benediktsson, þáverandi forsætisráðherra, stjórnarsamstarfinu og boðað var til Alþingiskosninga þann 30. nóvember. Ný ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins var svo mynduð í upphafi árs 2025 undir forystu Kristrúnar Frostadóttur. Hin nýja ríkisstjórn hefur talað um að ná þurfi fram stöðugleika í efnahagsmálum með því að draga úr hallarekstri ríkisins, svo hægt sé að stuðla að minnkun verðbólgu og lækkun stýrivaxta.
Staðan er hins vegar krefjandi, þar sem erfitt hefur reynst að koma jafnvægi á ríkisfjármál í kjölfar efnahagsáfalla og áætlanir fyrri ríkisstjórnar gerðu ráð fyrir áframhaldandi hallarekstri næstu ár. Það verður því áskorun fyrir hina nýju ríkisstjórn að ná fram afgangi í ríkisrekstri, en á sama tíma auka útgjöld til velferðarmála og innviðauppbyggingar líkt og boðað hefur verið. Hvernig stjórnvöld ætla að leysa þá jöfnu mun skipta sköpum fyrir stöðugleika í efnahagsmálum og þar með verðmætasköpun þjóðarbúsins til næstu ára. Hafa verður í huga að Ísland er nú þegar háskattaland með eina hæstu skatta sem hlutfall af landsframleiðslu af ríkjum OECD.
Leiðrétt fyrir greiðslu almannatrygginga, 2022
Á Íslandi er fjöldi stofnana sem annast opinbert eftirlit með fólki og fyrirtækjum. SA hafa lagt áherslu á að eftirlitsmenning einkennist af trausti og gagnkvæmri virðingu fremur en tortryggni. Samtökin telja mikilvægt að draga úr matskenndum þáttum og að niðurstöður eftirlits séu byggðar á fyrirfram skilgreindum matsþáttum frekar en geðþóttaákvörðunum.
Samtökin hafa lagt til að opinbert eftirlit taki breytingum samhliða framþróun á ýmsum sviðum og breyttum viðhorfum. Þau leggja áherslu á að greina umfang opinbers eftirlits með kerfisbundnum hætti og endurmeta reglur sem í gildi eru. Mikilvægt er að meta hvort tilteknar reglur eigi enn við og þjóni eðlilegum markmiðum, sem og að vera á varðbergi við innleiðingu nýrra reglna, sérstaklega alþjóðlegra.
Samtökin hafa beitt sér fyrir einföldun eftirlits og bent á margar lausnir í þeim málum. Sem dæmi gáfu samtökin út greinagóðar útfgáfur um áherslur atvinnulífsins fyrir kosningarnar og hagræðingartillögur fyrir ríkisstjórnina.
Samtök atvinnulífsins vinna markvisst að hagsmunagæslu í þágu aðildarfyrirtækja á fjölbreyttum vettvangi með það að markmiði að auka framleiðni og verðmætasköpun. Starfsárið 2024-2025 hefur einkennst af víðtæku málefnastarfi á sviði orkumála, alþjóðamála og lífeyrismála.
Samtökin hafa haft vakandi auga á þróun mála sem snerta rekstrarumhverfi og samkeppnishæfni fyrirtækja. Þau eru ávallt með puttann á púlsinum og fylgjast náið með því sem er að gerast í samfélaginu, jafnt hérlendis sem erlendis. Með ritun umsagna og vöktun nýrra reglna og laga tryggja samtökin að rödd atvinnulífsins heyrist og að hagsmunir fyrirtækja séu hafðir að leiðarljósi við stefnumótun og lagasetningu.
Öflug hagsmunagæsla samtakanna stuðlar að auknum hagvexti, verðmætasköpun og samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Að baki þeirri starfsemi liggur sérfræðiþekking á málefnum atvinnulífsins, gögnum og greiningum sem skipta máli fyrir fyrirtæki í ólíkum atvinnugreinum. Með þessu móti geta Samtök atvinnulífsins veitt stjórnvöldum mikilvægt aðhald og komið sjónarmiðum atvinnulífsins á framfæri á öllum stigum mála.
Á Íslandi er fjöldi stofnana sem annast opinbert eftirlit með fólki og fyrirtækjum. SA hafa lagt áherslu á að eftirlitsmenning einkennist af trausti og gagnkvæmri virðingu fremur en tortryggni. Samtökin telja mikilvægt að draga úr matskenndum þáttum og að niðurstöður eftirlits séu byggðar á fyrirfram skilgreindum matsþáttum frekar en geðþóttaákvörðunum.
Samtökin hafa lagt til að opinbert eftirlit taki breytingum samhliða framþróun á ýmsum sviðum og breyttum viðhorfum. Þau leggja áherslu á að greina umfang opinbers eftirlits með kerfisbundnum hætti og endurmeta reglur sem í gildi eru. Mikilvægt er að meta hvort tilteknar reglur eigi enn við og þjóni eðlilegum markmiðum, sem og að vera á varðbergi við innleiðingu nýrra reglna, sérstaklega alþjóðlegra.
Samtökin hafa beitt sér fyrir einföldun eftirlits og bent á margar lausnir í þeim málum. Sem dæmi gáfu samtökin út greinagóðar útfgáfur um áherslur atvinnulífsins fyrir kosningarnar og hagræðingartillögur fyrir ríkisstjórnina.
Í SOS-kosningaáherslum SA var sérstök áhersla lögð á samkeppnishæfni og einföldun regluverks. Samtökin bentu á að regluverk á Íslandi er töluvert flóknara og meira íþyngjandi en hjá nágrannaþjóðum okkar og að skýrslur sýna að innleiðing EES-regluverks er „blýhúðuð" í þriðjungi tilfella.
Í ítarlegri skýrslu um hagræðingartillögur í ríkisrekstri sem SA gaf út á starfsárinu voru fjölmargar tillögur sem lutu að einföldun og bættri framkvæmd eftirlits. Meðal þeirra tillagna sem síðar skiluðu sér í tillögur hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar var að breyta hlutverki Ríkisendurskoðunar og auka útvistun eftirlits til aðila á almennum markaði.
SA hefur einnig beitt sér fyrir einföldun regluverks á vettvangi Evrópusamstarfsins og tekið virkan þátt í umræðu og umsagnarferli um skilvirkari leyfisveitingar til dæmis á sviði umhverfis- og orkumála. Áframhaldandi vinna SA að einföldun eftirlits og umbótum á regluverki verður áfram eitt af lykilverkefnum samtakanna á komandi starfsári.
Starfsmenn Samtaka atvinnulífsins skrifa reglulega pistla og greinar í fjölmiðla um málefni sem efst eru á baugi hverju sinni. Á starfsárinu gáfu samtökin út ítarlegar greiningar og umsagnir um málefni á borð við orkumál, fjárlögin 2025, áherslur í kosningum 2024, hagræðingartillögur og sérstöðu íslensks vinnumarkaðar.
Áherslur starfsársins hjá Samtökum atvinnulífsins hafa verið græn orka og grænar lausnir. Dropinn holar steininn og hafa samtökin verið dugleg að benda á að orka er undirstaða hagsældar og þau tækifæri sem Ísland hefur til grænnar raforkuvinnslu.
Málefnasvið hefur ekki sofnað á verðinum þegar kemur að umfjöllun um græna orkuöflun og hefur margsinnis bent á þá staðreynd að Ísland stefni í raforkuskort með tilheyrandi skerðingum á atvinnulífið. Málefnasvið hefur staðið vaktina í hagsmunagæslu atvinnulífsins þegar kemur að þessum málum, haldið umræðunni á lofti og finnur fyrir meðbyr. Eftir kosningar er enginn þingflokkur á móti grænni orkuöflun og nú þurfa stjórnvöld að sýna vilja sinn í verki og raunverulega framkvæma. Málefnasvið hefur á starfsárinu skilað fjölda umsagna um málið sem og skrifað greinar í fjölmiðla.
Á ársfundi Samtaka atvinnulífsins gáfu samtökin út skýrslu undir heitinu Orka er undirstaða hagsældar. Í skýrslunni voru orkumál reifuð ítarlega, sem og staða og tækifæri Íslands í þeim málum. Bent var á kyrrstöðu í orkumálum síðastliðna tvo áratugi.
Ísland hefur færst í átt að auknu orkusjálfstæði og endurnýjanlegri orku þökk sé virkjun vatnsorku og jarðvarma. Innlend framleiðsla á endurnýjanlegri orku hefur tryggt aukin lífsgæði en einnig aukið orkusjálfstæði. Árið 1940 var 86% frumorkunotkunar byggð á innfluttri orku. Í dag byggir frumorkunotkun á um 90% innlendri, grænni orkuframleiðslu.
Það er skýrt samhengi milli orkunotkunar og lífsgæða, yfir tíma. Þau lönd sem búa við næga og hagkvæma orku standa fremst meðal þjóða þegar kemur að lífskjörum. Ísland er þar engin undantekning.
Magnbreyting milli ára (%)
Skýrslan bendir þó á að nýlega hafi innflutningur á jarðefnaeldsneyti aukist m.a. vegna skerðinga á raforku, sem er óheillaþróun. Í skýrslunni er sýnt fram á mikinn mun á olíunotkun með og án orkuskipta, sem undirstrikar mikilvægi þess að halda áfram á braut orkuskipta.
Í skýrslunni voru þrjár sviðsmyndir skoðaðar sem hafa verið reifaðar í opinberri umræðu um orkuskipti og loftslagsmál:
Þjóðhagsleg áhrif ólíkra sviðsmynda (uppsafnað til ársins 2060)
Skýrslan fjallar einnig um mikilvægi tímasetningar við innleiðingu grænnar tækni. Ótímabær skattlagning veldur þjóðhagslegu tapi. Sé skattlagningu beitt í því skyni að skapa hvata til umhverfisvænni lausna þarf að tryggja að tæknin sé til staðar til að innleiða slíkar lausnir. Grænir hvatar geta flýtt umbreytingunni og ekki er nóg að treysta á neikvæða hvata á borð við skatta.
Tvíþætt markmið atvinnulífsins er bætt lífsgæði samhliða árangri í loftslagsmálum. Fjögur gildi þurfa að varða veg íslensku þjóðarinnar til kolefnishlutleysis:
Samtökin munu áfram setja orkumál á oddinn enda eru þau grundvöllur þess að Ísland nái markmiðum sínum í loftslagsmálum og tryggi um leið áframhaldandi hagsæld.
Umhverfisdagur atvinnulífsins, sameiginlegt verkefni SA og aðildarsamtaka, var haldinn 22. október 2024 á Hilton Nordica undir yfirskriftinni Atvinnulífið leiðir. Umhverfishópur samtakanna hefur yfirumsjón með viðburðinum, sem er árlegur og hefur fest sig í sessi sem mikilvægur vettvangur fyrir umræðu um umhverfis- og loftslagsmál í íslensku atvinnulífi.
Dagurinn var tileinkaður leiðandi hlutverki atvinnulífsins á sviði grænna lausna og var dagskráin glæsileg. Fyrri hluta dags voru ávörp frá frá Sigríði Margréti Oddsdóttur, framkvæmdastjóra SA, og Guðlaugi Þór Þórðarsyni, þáverandi umhverfis- og orkumálaráðherra og að þeim loknum voru hin árlegu Umhverfisverðlaun atvinnulífsins veitt við hátíðlega athöfn. Í kjölfar verðlaunaafhendingarinnar tóku við átta lifandi málstofur og höfðu gestir færi á að skrá sig í tvær þeirra.
Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA, afhenti Umhverfisverðlaun atvinnulífsins ásamt verðlaunahöfum fyrra árs. Veitt voru verðlaun fyrir umhverfisfyrirtæki ársins og framtak ársins á sviði umhverfismála.
BM Vallá hlaut viðurkenningu sem Umhverfisfyrirtæki ársins. Þorsteinn Víglundsson, forstjóri BM Vallár, þakkaði verðlaunin og þá viðurkenningu sem í þeim fælist „ Við erum þakklát fyrir þennan heiður sem er til marks um að áherslur okkar í umhverfismálum séu eftirtektarverðar og hafi skilað raunverulegum árangri. Þennan árangur eigum við öflugu starfsfólki, viðskiptavinum og samstarfsaðilum að þakka sem deila þeirri sýn að breyta þurfi nálgun við hönnun og byggingu mannvirkja. Samnefnari þeirra áherslna er metnaður, drifkraftur og þor til að leiða fram breytingar þar sem umhverfisvænni lausnir gegna lykilhlutverki. Að vera valin umhverfisfyrirtæki ársins er mikil hvatning til að gera enn betur í þróun lausna sem hafa jákvæðari umhverfisáhrif. Við hlökkum til að halda áfram til að leggja okkar af mörkum til að byggja vistvænni framtíð ,“ sagði Þorsteinn.
KAPP var verðlaunað fyrir Framtak ársins á sviði umhverfismála. OptimICE® krapakerfið kemur í staðinn fyrir hefðbundinn flöguís. Krapaísinn er framleiddur úr sjóvatni eða saltvatni bæði um borð og í landvinnslu. Krapavélin er nýjung sem stuðlar að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda með því að skipta út kælimiðlum með mjög mikinn hlýnunarmátt.
Það er ljóst af þeim fjölda tilnefninga sem bárust til Umhverfisverðlauna atvinnulífsins að umhverfis- og loftslagsmál eru nú órjúfanlegur hluti af daglegum rekstri og ákvarðanatöku fyrirtækja á Íslandi. Fjölmargar umsóknir bárust, sem endurspeglar það ötula starf sem fjöldi fyrirtækja vinnur á þessu sviði.
Í dómnefnd Umhverfisverðlauna atvinnulífsins sitja formaður dómnefndar, Reynir Smári Atlason frá CreditInfo, Elma Sif Einarsdóttir frá Stiku umhverfislausnum og Jóna Bjarnadóttir frá Landsvirkjun.
Í kjölfar verðlaunaafhendingarinnar tóku við átta lifandi málstofur og höfðu gestir færi á að skrá sig í tvær þeirra. Yfir 35 sérfræðingar úr fjölbreyttum greinum atvinnulífsins tóku þátt í undirbúningi og umsjón málstofanna , sem voru afar vel heppnaðar og fróðlegar. Málstofurnar fjölluðu um stöðu atvinnulífsins, áskoranir og horfur til framtíðar á sviði umhverfismála. Þær snertu meðal annars á framtíð grænna fjárfestinga, kolefnisspori og markaðssetningu, reynslusögum frá fyrirtækjum, möguleikum sveigjanlegri orkumarkaða, grænum hvötum, orkuskiptum, hringrásarhagkerfinu og kolefniseiningum.
Samtök atvinnulífsins hafa notið þeirrar gæfu að eiga uppbyggilegt samstarf við stjórnvöld hverju sinni síðustu 90 ár í sögu samtakanna, allt frá lífskjarabyltingunni sem varð í upphafi 20. aldar. Þegar ljóst var að gengið yrði til skyndilegra kosninga í lok ársins 2024 tóku samtökin því alvarlega og sendu skýr skilaboð um hvað raunverulega skipti máli í komandi kosningum.
Samtökin voru með það að leiðarljósi að vekja athygli á aðaláherslum atvinnulífsins sem skila sér í bættum lífskjörum landsmanna.
Kosningaáherslur atvinnulífsins voru settar á dagskrá undir yfirskriftinni „SOS - Höldum okkur við aðalatriðin: Grunnur að næsta vaxtarskeiði Íslands" og var gefin út ítarleg skýrsla um efnið. Ákall atvinnulífsins um aðgerðir á komandi kjörtímabili snýst um þrjár megináherslur: Stöðugleika, Orku og Samkeppnishæfni – SOS – sem eru forsendur þess að hefja megi næsta vaxtarskeið Íslands.
Í opinberri umræðu virðist oft langur vegur milli þess að atvinnulífinu gangi vel og að samfélaginu gangi vel. Kannanir sýna þó að slíkar úrtöluraddir koma úr röðum háværs minnihlutahóps. Skilningur almennings er sem betur fer í samræmi við hagtölur sem sýna glöggt orsakasamhengi verðmætasköpunar íslenskra fyrirtækja og velferðarsamfélagsins sem við stærum okkur af á alþjóðavettvangi.
Stöðugleiki merkir jafnvægi í ríkisfjármálum, á vinnumarkaði og á húsnæðismarkaði. Án stöðugleika í ríkisrekstri getur efnahagslífið ekki náð jafnvægi. Samtök atvinnulífsins leggja áherslu á þrjú meginmarkmið til að tryggja stöðugleika:
Orka er undirstaða hagsældar. Við framleiðum engin verðmæti án orku, enda er sterk fylgni á milli orkunotkunar þjóðar og landsframleiðslu. Þau lönd sem búa við næga og hagkvæma orku standa fremst meðal þjóða þegar kemur að lífskjörum. Ísland er þar engin undantekning.
Til að full orkuskipti geti orðið að veruleika, þá þarf tvöföldun á orkuframleiðslu. Jákvæðir hvatar sem styðja við fjárfestingu í grænum lausnum og innleiðingu á nýrri tækni gætu flýtt þróuninni til muna. Samtök atvinnulífsins leggja áherslu á:
Orkuskiptin munu krefjast um 16 TWst, auk annarrar fyrirséðrar aukningar í eftirspurn um 6 TWst, samtals 22 TWst til 2050. Forsenda græns vaxtarskeiðs er að ríkisstjórnin tryggi aukið orkuframboð um 2,1 TWst.
Markmið í loftslagsmálum þurfa að taka mið af stöðu orkumála og tækniþróun. Ótímabær loftslagsskattlagning getur haft neikvæð þjóðhagsleg áhrif. Græn skattlagning þegar hvorki tækni né orka eru til staðar hefur öfug tilætluð áhrif, hún dregur úr getu til fjárfestinga í umbreytingu og hún hvetur til ótímabærra eða slæmra fjárfestinga.
Samkeppnishæfni atvinnulífsins byggir á samkeppnishæfu skattkerfi og regluverki. Skattar skapa ekki verðmæti. Atvinnulífið er fylgjandi skynsamlegri og skilvirkri skattlagningu. Of háir skattar og íþyngjandi regluverk skerða alþjóðlega samkeppnishæfni útflutningsþjóðar, draga úr fjárfestingu, hægja á fjölgun starfa og verðmætasköpun. Til lengri tíma leiðir mikil skattbyrði til hægari hagvaxtar og minni skatttekna.
Á Íslandi eru 4. hæstu skattarnir innan OECD. Þrátt fyrir það hafa ýmsar hækkanir á sköttum og gjöldum verið boðaðar. Háir skattar:
Hófleg skattheimta leyfir atvinnulífi að dafna og getur þannig skilað meiri skatttekjum en ef skattahlutföll væru hærri. Skattalækkanir og umbætur í regluverki myndu skjóta stoðum undir næsta vaxtarskeið. Uppsöfnuð áhrif á landsframleiðslu á næsta kjörtímabili gætu numið 400 milljörðum ef umbætur yrðu innleiddar strax.
Evrópska efnahagssvæðið (EES) er atvinnulífinu mikilvægt, samræmdar reglur á EES svæðinu jafna samkeppnisstöðu og gæði löggjafar milli landa. Blýhúðun EES regluverks vinnur þannig gegn markmiðum EES samningsins. Skýrslur sýna að innleiðing EES regluverks er blýhúðað í þriðjungi tilfella og í sumum málaflokkum jafnvel yfir 40% tilfella. Óþarflega íþyngjandi regluverk er efnahagslegt sjálfsmark.
Samtök atvinnulífsins gáfu út ítarlega skýrslu með hagræðingartillögum fyrir ríkisreksturinn. Samtökin fögnuðu frumkvæði nýrrar ríkisstjórnar sem kallaði eftir tillögum að tækifærum til hagræðingar í opinberum rekstri. Það er öllum skipulagsheildum nauðsynlegt að endurmeta stöðugt og aðlaga rekstur sinn að síbreytilegu umhverfi. Það eina sem er öruggt í rekstri er að allt breytist.
Rekstur fyrirtækja og rekstur hins opinbera eru verkefni sem lýkur aldrei. Hagsýni á að vera meginstefið í opinberum rekstri, að fara vel með fé skattgreiðenda. Við mat á forgangi verkefna í rekstri hins opinbera þarf að hafa tvennt að leiðarljósi:
Verðmætasköpun og velferð eru tvær hliðar á sama peningnum þegar kemur að rekstri samfélaga. Ísland skipar sér í röð fremstu þjóða þegar kemur að verðmætasköpun mælt í landsframleiðslu á mann og árlegum hagvexti undanfarin ár. Hvort tveggja er grunnurinn að vaxandi lífskjörum. Sé ætlunin að „besta" ríkisreksturinn þarf við forgangsröðun hagræðingarverkefna að meta hvernig hámarka má verðmætasköpun á sama tíma og sóun er lágmörkuð.
Íslenska ríkið hefur verið rekið með halla of lengi. Hallarekstur eykur eftirspurn í hagkerfinu og veldur meiri verðbólgu og hærra vaxtastigi en ella. Ísland er háskattaríki og óvarlegt er að hækka frekar skatta, enda draga hærri skattar úr samkeppnishæfni landsins og verðmætasköpun til lengri tíma.
Hvert prósentustig hagvaxtar skilar um 15 milljörðum í ríkiskassann árlega. Það er því til mikils að vinna að skapa umhverfi sem styður við vöxt og framþróun atvinnulífsins. Fyrirtækjaskattar og skattar á laun og fjármagn eru sérlega skaðlegir þegar kemur að áhrifum á hagvöxt. Flest lönd innan OECD hafa áttað sig á neikvæðum áhrifum slíkra skatta og hafa því skattar á fjármagn og fyrirtæki almennt farið lækkandi á undanförnum áratugum.
Fjöldi tillaga frá Samtökum atvinnulífsins eða sambærilegra tillaga skiluðu sér í hagræðingartillögurnar sem afhentar voru ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur. Samhljómur var um fjölmörg atriði milli tillagna SA og niðurstaðna hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar en dæmi um samhljóm var meðal annars:
1. Útgjaldaendurmat og árangursmælikvarðar
SA lagði áherslu á árangursmiðaða fjárlagagerð með skýrum árangursmælikvörðum og reglulegu endurmati á ríkisútgjöldum. Hagræðingarhópurinn lagði einnig til aukna notkun árangursmælikvarða og innleiðingu útgjaldaendurmats sem hluta af hagræðingarverkefnum.
2. Sameining ríkisstofnana
SA benti á að sameining stofnana væri lykill að hagræðingu og nefndi sérstaklega stofnanir sem sinna skyldum verkefnum eða gætu nýtt samrekstur. Hagræðingarhópurinn lagði fram ítarlegar tillögur um sameiningu fjölmargra stofnana, t.d. Tryggingastofnunar og Sjúkratrygginga Íslands, lögregluembætta, héraðsdómstóla, og háskóla.
3. Betri nýting fasteigna ríkisins
SA lagði áherslu á bætta nýtingu fasteigna í ríkiseigu og sölu eigna sem eru ónauðsynlegar. Hagræðingarhópurinn lagði fram sérstaka tillögu um bætta fermetranýtingu ríkisstofnana og betri nýtingu fasteigna á vegum ríkisins.
4. Umbætur í opinberum innkaupum
SA nefndi sérstaklega möguleika á hagræðingu í opinberum innkaupum með aukinni miðlægni, útvistun, og notkun upplýsingatækni. Hagræðingarhópurinn setti einnig fram tillögur um betri undirbúning opinberra innkaupa, samræmingu og notkun upplýsingakerfa til að ná fram sparnaði.
5. Hagræðing með stafrænni þjónustu
SA lagði áherslu á aukna notkun upplýsingatækni og stafrænna lausna til að bæta skilvirkni og gagnasöfnun ríkisins. Hagræðingarhópurinn setti fram sérstakar tillögur um aukna fjárfestingu í upplýsingatækni, stafræna ferla í stað pappírs, aukið vægi Ísland.is, og rafrænar kosningar.
6. Breytt hlutverk Ríkisendurskoðunar og útvistun eftirlits
SA lagði almennt til að eftirlitsstarfsemi yrði skilvirkari og mögulega útvistað í meira mæli til einkaaðila. Hagræðingarhópurinn lagði fram skýrar tillögur um að Ríkisendurskoðun hætti endurskoðun á stofnunum ríkisins og færi verkefnin út á almennan markað, auk aukinnar útvistunar eftirlits.
7. Lagagrundvöllur ríkissáttasemjara styrktur
SA lagði til að lög um ríkissáttasemjara yrðu styrkt til að auka skilvirkni við gerð kjarasamninga. Hagræðingarhópurinn tók undir þessar áherslur með því að leggja til að lagagrundvöllur ríkissáttasemjara yrði endurskoðaður.
8. Réttindi og skyldur milli markaða
SA lagði til að réttindi og skyldur opinberra starfsmanna samræmdust betur því sem tíðkast á almennum vinnumarkaði. Hagræðingarhópurinn tók undir þetta sjónarmið í tillögum sínum.
9. Létt á jafnlaunavottun og stærðarmörk hækkuð
SA hefur lengi bent á galla við jafnlaunavottun. Hagræðingarhópur lagði til að kröfur um jafnlaunavottun yrðu endurskoðaðar, þannig að kröfur yrðu einfaldari og stærðarmörk fyrirtækja sem þurfa að uppfylla jafnlaunavottun yrðu hækkuð.
Menntadagur atvinnulífsins fór fram á Hilton Nordica þann 11. febrúar undir yfirskriftinni Störf á tímamótum. Á deginum var 25 ára afmæli starfsmenntasjóðanna fagnað, menntaverðlaun atvinnulífsins afhent og staða menntunar rædd í arinspjalli við forseta Íslands, Höllu Tómasdóttur. Forsetinn ræddi meðal annars um mikilvægi skapandi greina og skoraði á ólíkar kynslóðir að miðla þekkingu sín á milli. Eftir formlega athöfn stóð gestum til boða að taka þátt í tveimur lotum af áhugaverðum málstofum og kynna sér árangur fjölbreyttra fyrirtækja í fræðslu- og menntamálum á sérstöku menntatorgi dagsins.
Á fundinum voru glænýjar niðurstöður Gallup um færniþörf á vinnumarkaði kynntar. Niðurstöðurnar sýndu, líkt og undanfarin ár, skort á iðn-, verk- og tæknimenntuðum.
Þá afhenti forseti Íslands Halla Tómasdóttir hin árlegu menntaverðlaun atvinnulífsins í tveimur flokkum. Menntaverðlaunin eru veitt fyrirtækjum sem skara fram úr í fræðslu- og menntamálum. Arion banki er Menntafyrirtæki ársins og Alda hlaut Menntasprotann 2025.
Í umfjöllun dómnefndar kom fram að Arion banki reki öflugt og metnaðarfullt fræðslukerfi sem nýti fjölbreyttar og nýjar leiðir til að virkja kraftinn í stórum og fjölbreyttum hópi starfsfólks. Starfsfólk þrói námsefni sjálft á frumlegan hátt, fræðsluvísitala er innbyggð í fræðslustarfið og vel er haldið utan um starfsþróun innan fyrirtækisins, svo fátt eitt sé nefnt. Með verkefni eins og „Konur fjárfestum!“ tengi bankinn að auki fræðslustarfið við samfélagslega ábyrgð.
Alda hlaut Menntastprotann en fyrirtækið býður upp á hugbúnaðarlausn með leikjavæddum örnámskeiðum sem efla vinnustaði í aðgerðum er varða fjölbreytileika og inngildingu, og stuðlar þannig að betra starfsumhverfi. Kjarninn í starfsemi Öldu er nýsköpun í fræðslu og menntun og með stuðningi gervigreindar er örfræðsluáætlun sérsniðin fyrir hvern vinnustað.
Á haustdögum tóku SA og ASÍ höndum saman gegn vinnumansali á Íslandi og héldu ráðstefnu í Hörpu. Þar var sett fram sameiginleg yfirlýsing þar sem skorað var á stjórnvöld til aðgerða gegn vinnumansali og til frekari samvinnu við aðila vinnumarkaðarins. Ráðstefnan vakti mikla athygli og var gríðarlega vel sótt.
Á árinu 2024 átti SA fulltrúa á stórum alþjóðlegum viðburðum á sviði jafnréttismála. Maj-Britt Hjördís Briem, lögmaður á vinnumarkaðssviði SA, var fulltrúi Samtaka atvinnulífsins á árlegum Kvennanefndarfundi Sameinuðu þjóðanna (CSW68) sem stóð yfir dagana 11.-22. mars 2024 og tók meðal annars sæti í pallborði, skipuðu sérfræðingum, á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar: „ The Nordic Blueprint: Overcoming Barriers and Paving the Way for a Gender-Equal Economy.“
Á haustdögum voru haldnir tveir norrænir viðburðir um launajafnrétti. Fulltrúi Samtaka atvinnulífsins á viðburðunum var Maj-Britt Hjördís Briem, lögmaður á vinnumarkaðssviði. Fyrri fundurinn var á vegum UN Women, haldinn í UN City í Kaupmannahöfn, þar sem hagaðilar á almennum vinnumarkaði komu saman til að ræða hlutverk UN Women í því að stuðla að kynjajafnrétti m.a. með hliðsjón af Beijing +30. Síðari fundurinn var hliðarviðburður á þingi Norðurlandaráðs sem fór fram á Íslandi dagana 28. til 31. október. Viðburðurinn: Víðara sjónarhorn á launamun kynjanna: Hvernig tökum við skref í átt að launajafnrétti? var haldinn á vegum NIKK sem er norræn samstarfsstofnun um kynjajafnrétti og heyrir undir Norrænu ráðherranefndina. Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi forsætisráðherra Íslands, stýrði fundinum og Eberhard Stüber, lögmaður og höfundur skýrslunnar Stefnt að launajafnrétti: löggjöf, skýrslugerð og framkvæmd á Norðurlöndum , hélt erindi. Maj-Britt tók þátt í pallborðsumræðu ásamt fulltrúum stéttarfélaga og stjórnvalda hinna Norðurlandanna.
SA tók á árinu þátt í vinnu í norrænu samstarfsneti um fullorðinsfræðslu (NLL) við að meta áhrif gervigreindar á vinnumarkaðinn með hliðsjón af færni á vinnumarkaði og hvernig hægt sé að nýta sé gervigreind t.d. í fullorðinsfræðslu á komandi árum. Verkefni hópsins var að búa til stutt myndbönd og voru myndböndin sýnd á fundi í Osló í lok árs.
Á vinnumarkaði sem tekur örum breytingum er mikilvægt að færni til starfa sé sýnileg og staðfest. Fagbréf atvinnulífsins gera þetta kleift og með Stöðugleikasamningnum var samið um heimild fyrirtækja til að meta hæfni til launa í hæfnilaunakerfi þar sem m.a. er horft til íslenska hæfnirammans. Þegar öllum hæfnikröfum starfs er náð er færnin staðfest með fagbréfi viðkomandi starfs. Með þessu er lagður grunnur að launasetningu út frá inntaki og eðli starfsins og hæfni starfsfólks óháð starfsheitum. Ennfremur var á árinu gerður tímamótakjarasamningur við Rafiðnaðarsamband Íslands vegna Félags tæknifólks þar sem laun byggja á hæfniþrepum og aðilar voru sammála um að fjölga tæknistörfum sem metin verði til fagbréfa.
Sögu íslenska lífeyriskerfisins má rekja til ársins 1943 þegar Alþingi setti lög um lífeyrisréttindi ríkisstarfsmanna. Árið 1955 gerðu VR og samtök atvinnurekenda kjarasamning um stofnun Lífeyrissjóðs verslunarmanna.
Lífeyrissjóðir fyrir starfsmenn á almennum vinnumarkaði voru almennt stofnaðir með kjarasamningi samtaka fyrirtækja og launafólks árið 1969. Þá skuldbundu samtök atvinnurekenda og launafólks sig sameiginlega til gæslu og ábyrgðar á rekstri sjóðanna, enda sameiginlegur hagur atvinnurekenda og launafólks. Skylduaðild að lífeyrissjóðum var síðar lögfest árið 1974 og gerð almenn árið 1980.
Árið 1995 var gerður heilsteyptur kjarasamningur milli ASÍ og VSÍ á grunni kjarasamningsins frá 1969 um lífeyrissjóði og byggir kerfið eins og við þekkjum það í dag á þeim samningi. Meginefni samningsins var síðan fært í lög árið 1997.
Í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði á árinu 2016 milli SA og ASÍ var mótframlag launagreiðenda hækkað í 11,5%. Jafnframt var heimilað að hækkuninni yrði varið til séreignarsparnaðar með tilteknum skilyrðum (þ.e. svokölluð tilgreind séreign) til að auðvelda starfslok og sveigjanleika í lífeyristöku. Þær breytingar hlutu lagastoð árið 2022 og tóku lögin gildi 1. janúar 2023.
Lífeyrissjóðir á Íslandi eru hluti af kjarasamningum og eru viðfangsefni þeirra gríðarlega mikilvæg fyrir framtíðarvelferð þjóðarinnar. Sjóðirnir eru meginuppspretta sparnaðar í landinu. Aðild að lífeyrissjóðum hefur alla tíð fyrst og fremst verið á vinnumarkaðslegum forsendum og tengd við tekjur af atvinnu.
Alls eru 21 lífeyrissjóður starfandi í dag en þeir voru 96 talsins árið 1980. Sjóðunum sem heyra undir samningssvið SA og ASÍ hefur fækkað verulega á undanförnum árum með sameiningum og eru nú sjö talsins:
Í janúar 2025 námu eignir lífeyrissjóða 8.464,7 milljörðum króna og höfðu hækkað um 222,5 milljarða króna á milli mánaða. Þar af voru eignir samtryggingadeilda 7.518,2 milljarðar króna og séreignadeilda 946,5 milljarðar króna (Seðlabanki Íslands, 2025).
SA tilnefnir stjórnarmenn í sjö lífeyrisssjóði. Samtökin tilnefna fulltrúa samkvæmt sérstökum reglum SA. Fulltrúar SA í stjórnum lífeyrissjóða geta setið að hámarki í átta ár samfellt sem aðalmenn í stjórn sama sjóðs. Samtök atvinnulífsins hafa jafnrétti kynja í heiðri við skipan í stjórnir lífeyrissjóða.
Lífeyrissjóður Verzlunarmanna
Birta lífeyrissjóður
Festa lífeyrissjóður
Gildi lífeyrissjóður
Stapi lífeyrissjóður
Lífeyrissjóður Vestmannaeyja
Lífeyrissjóður Rangæinga
Ráðgjafaráð um lífeyrismál
Fulltrúar SA í stjórnum lífeyrissjóða mynda ásamt framkvæmdastjórn og framkvæmdastjóra SA ráðgjafarráð í lífeyrismálum. Ráðið hittist að jafnaði tvisvar á ári og fjallar um mikilvæg málefni er varða lífeyriskerfið.
Samráðsfundir með ASÍ
Samtökin héldu tvo samráðsfundi með ASÍ á starfsárinu þar sem m.a. var fjallað um endurskoðun á örorkulífeyriskerfinu og tilgreinda séreign. Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA, lagði áherslu á að lífeyriskerfið sé eitt það mikilvægasta sem samið hefur verið um í kjarasamningum.
Grænbók um lífeyriskerfið
Unnið er að grænbók um lífeyriskerfið sem lýsir stöðu þess og helstu áskorunum. Meginmarkmið grænbókarinnar er að skapa traustan grundvöll fyrir umræðu, stefnumörkun og ákvarðanatöku um málefni sem varða fyrirkomulag lífeyrismála og þróun þess. Horft er til áframhaldandi samráðs milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins.
Stór hluti lagaumhverfis atvinnulífsins kemur frá Evrópusambandinu. Undanfarin ár hefur áhersla SA í erlendum samskiptum snúist fyrst og fremst um að gæta hagsmuna íslenskra fyrirtækja gagnvart þeirri löggjöf. Það er gert með aðild að ráðgjafanefnd EFTA, Business Europe og norrænu samstarfi auk þess sem SA er aðili að Business at OECD.
Síðastliðið haust samþykkti stjórn SA stefnu í hagsmunagæslu í Evrópu 2024-2029 með áherslu á hagsmuni íslensks atvinnulífs í EES-samstarfi. Samhliða var gengið frá samstarfssamningi við ráðgjafafyrirtæki í Brussel sem verður augu, eyru og rödd fyrir samtökin í Brussel. Jafnframt var gengið frá ráðningu alþjóðafulltrúa sem fylgir málum eftir frá Brussel til Alþingis. Áhersla SA á þessi mál hefur því aukist verulega undanfarið í því skyni að reyna að hafa áhrif fyrr í lagasetningarferlinu hjá ESB með hagsmuni íslensks atvinnulífs að leiðarljósi. Þá ber sérstaklega að hafa í huga sérkenni Íslands m.a. vegna landfræðilegrar legu og smæðar.
Norrænt samstarf er áberandi í starfi SA. Samtökin eru í nánum samskiptum við systursamtök sín á Norðurlöndunum sem er ómetanlegt þegar kemur að því að bera saman bækur og fá innsýn í störf þeirra. SA á sæti í norrænum samstarfshópum, t.a.m. um umhverfismál og viðbúnaðarmál, en það síðarnefnda hefur reynst sérstaklega vel síðustu mánuði þegar það málefni hefur komist rækilega á dagskrá.
Á hverju ári eru haldnir samnorrænir formannafundir en í október 2024 buðu SA og SI sameiginlega til fundar í Reykjavík þar sem ýmis mál voru rædd, t.a.m. orka og orkuöryggi og viðbúnaðarmál auk þess sem hádegisverður var snæddur með forsætisráðherra og utanríkisráðherra áttu spjall við fundarmenn. Í lok fundar var samþykkt svokölluð Reykjavíkuryfirlýsing. Á hverju ári eru jafnframt haldnir norrænir fundir um ákveðin málefni, svo sem skatta, kjaratölfræði og vinnuvernd. Loks hittast lögfræðingar samtakanna árlega til að bera saman bækur sínar.
Evrópusamtök atvinnulífsins, BusinessEurope, eru leiðandi hagsmunasamtök í Evrópu sem leggja áherslu á samkeppnishæfni, hagsæld og tækifæri. Samtök atvinnulífsins eru aðilar fyrir hönd íslenskra atvinnurekenda, en innan Evrópusamtakanna má finna hagsmunasamtök sem eru í forsvari fyrir meira en 20 milljón fyrirtæki í 36 evrópskum löndum. Tvisvar á ári taka SA þátt í formannafundi Business Europe sem haldinn er hverju sinni í því Evrópuríki sem taka mun við forystu í Evrópuráðinu næstu sex mánuði. Fundir fastafulltrúa (DP) aðildarsamtaka Business Europe eru haldnir 1-2 sinnum í mánuði. Loks eru virkir vinnuhópar og nefndir á vegum Business Europe sem SA eiga sæti í, t.a.m. um málefni vinnumarkaðarins.
Fulltrúar SA eiga sæti í Ráðgjafarnefnd EFTA sem er samstarfsvettvangur aðila vinnumarkaðarins í EFTA-löndunum og fjallar um þróun EES-samningsins með hliðsjón af hagsmunum sem aðilar vinnumarkaðarins gæta. Nefndin fundar að jafnaði fjórum sinnum á ári. Í tengslum við fundi nefndarinnar er árlega haldinn fundur með stjórnarnefnd EFTA (e. Standing Committee), ráðherrum EFTA-ríkjanna, þingmannanefnd EFTA og þeim ráðherra EFTA-EES ríkjanna sem hefur forystu fyrir EFTA hverju sinni. Nefndin vinnur annars vegar að gerð sameiginlegra álitsgerða með hliðstæðri ráðgjafarnefnd Evrópusambandsins og hins vegar að sjálfstæðum álitsgerðum sem kynntar eru fyrir fastanefnd EFTA í Brussel og ráðherrum EFTA-ríkjanna.
Norræn systrasamtök Samtaka atvinnulífsins funduðu með forsætisráðherra í október 2024.
Fulltrúar samtakanna hafa ekki látið lítið fyrir sér fara þegar kemur að hagsmunagæslu í alþjóðamálum. Á starfsárinu 2024-2025 áttu fulltrúar SA fundi með fulltrúum framkvæmdastjóra viðskipta- og efnahagsöryggis í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins til að undirstrika mikilvægi þess að Ísland yrði undanskilið í verndaraðgerðum ESB vegna tolla sem Bandaríkin hafa lagt á innflutning. Einnig var fundað með sendiherra Íslands í Brussel og starfsmönnum í sendiráðinu auk viðskiptafulltrúa hjá fastanefndum nokkurra Norðurlanda.
Eins og Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA, benti á: „Alþjóðaviðskipti eru lífæð Íslands og á meðan þessar aðgerðir Trump kalla á mótvægisaðgerðir af hálfu ESB þá hefur sambandið þegar tilkynnt um gagnkvæma tolla sem beinast gegn Bandaríkjunum. Við eigum allt eins von á því að það verði gripið til verndarráðstafanna og þá er svo mikilvægt að Ísland sé undanskilið þeim aðgerðum."
Heiðrún Björk Gísladóttir, alþjóðafulltrúi SA, lagði áherslu á sérstöðu íslenskra fyrirtækja: „Fyrir íslenskar vörur er Evrópa mikilvægasti markaðurinn en það er einna helst af tveimur ástæðum. Annars vegar er íslenskur vinnumarkaður mjög Evrópumiðaður, fimmti hver vinnandi maður á Íslandi kemur frá Evrópska efnahagssvæðinu. Hins vegar er ál, kísill og aðrir málmar stærsti hluti vöruútflutnings Íslands til ESB en 25% af álþörf Evrópu kemur frá íslenskum fyrirtækjum. Síðast en ekki síst hefur Ísland einstaka stöðu þegar kemur að sjávarútvegi en þrátt fyrir að íbúafjöldi Íslands sé einungis 0,005% af íbúum heims veiðum við 1,3% af fiski í heiminum en fiskur er sú próteinvara sem er með minnst kolefnisspor á heimsvísu."
Fundur forsvarsmanna hagsmunasamtaka á vegum Evrópusamtakanna fór fram í Varsjá dagana 28. og 29. nóvember.
SA hefur haft „augun á boltanum" þegar kemur að reglugerðum frá Evrópusambandinu. Í úttekt starfshóps utanríkisráðuneytisins um framkvæmd EES samningsins árið 2019 kom fram að 16% íslenskrar löggjafar frá því að samningurinn var fyrst innleiddur hérlendis væru innleiðingar EES gerða. Þá eru ótaldar gerðir sem ekki krefjast lagabreytinga sérstaklega.
Atvinnulífið í Evrópu hefur undanfarið verið að vakna til vitundar um vaxandi reglubyrði og framkvæmdastjórn ESB hefur brugðist við því með ýmsum hætti. Meðal annars hafa verið lagðar fram svokallaðar Omnibus tillögur sem er ætlað að draga verulega úr óþarfa skýrslugerðum og regluverksbyrði. Business Europe fagnaði frumvarpinu sem mun gera fyrirtækjum kleift að vinna markvissar að sjálfbærnimarkmiðum ESB á sama tíma og samkeppnishæfni evrópska hagkerfisins er varin.
Í nýlegri starfsáætlun framkvæmdastjórnar ESB fyrir árið 2025 er gríðarleg áhersla lögð á einföldun regluverks, einkum til að auka samkeppnishæfni og létta reglubyrði þvert á atvinnulífið. Ekki verður dregið úr markmiðum um kolefnishlutleysi en þess í stað lögð áhersla á loftslagsvæna iðnvæðingu.
Athygli vekja tillögur um að gildissvið CSRD tilskipunarinnar nái eingöngu til fyrirtækja þar sem starfa 1000 manns eða fleiri. Magn þeirra gagna sem þarf að safna, votta og birta árlega minnkar einnig verulega. Ef tillagan nær fram að ganga er ljóst að áhrifin verða mikil á fyrirtæki í Evrópu.
Ef fram fer sem horfir má sjá fram á verulega einföldun á evrópsku regluverki á þessu kjörtímabili framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Í ljósi breyttrar heimsmyndar er Evrópa að vakna til vitundar um nauðsyn þess að hlúa að atvinnulífi álfunnar til að tryggja samkeppnishæfni hennar.
SA telur mikilvægt að íslensk stjórnvöld nýti tækifærið og gangi á eftir góðu fordæmi og „afhúði" regluverkið til að skapa áframhaldandi verðmæti og bæta lífskjör.
Samtökum atvinnulífsins berst mikill fjöldi þingmála til umsagnar. Samtökin vinna markvisst að hagsmunagæslu í þágu aðildarfyrirtækja þannig að framleiðni og verðmætasköpun geti aukist. Með ritun umsagna og vöktun nýrra reglna sem varða atvinnulífið gæta samtökin að því að rödd atvinnulífsins heyrist.
Mál berast frá Alþingi, ráðuneytum, stofnunum og fyrirtækjum. Þegar nýjar reglur eru settar er varða rekstrarskilyrði fyrirtækja og atvinnulífið í heild standa samtökin vaktina og gæta hagsmuna atvinnulífsins. Auk þess taka SA oft upp mál að eigin frumkvæði og vekja athygli stjórnvalda eða almennings á þeim.
Mikilvægt er að atvinnulífið búi við skýrar og góðar leikreglur og að almenningur, hið opinbera og önnur fyrirtæki séu vel varin gagnvart ólögmætri háttsemi í atvinnurekstri.
Á starfsárinu skiluðu Samtök atvinnulífsins fjölda umsagna um mikilvæg þingmál. Hér að neðan má sjá yfirlit yfir helstu umsagnir á starfsárinu, flokkaðar eftir löggjafarþingum.
Starfsárið 2024-25 var tileinkað grænni orku og grænum lausnum sem voru mikið til umræðu en ársfundur samtakanna var t.a.m. tileinkaður málefninu.
Eftir sem áður fór mest fyrir kjaramálum en stærsta verkefni nýrrar stjórnar var að styðja við framfylgd þeirrar launastefnu sem mörkuð var í Stöðugleikasamningunum sem undirritaðir voru í mars 2024 við stærstu viðsemjendur Samtaka atvinnulífsins og höfðu það markmið að ná niður verðbólgu og vöxtum. Í lok starfsársins var búið að ganga frá nær öllum þeim kjarasamningum sem samtökin gera á grundvelli merkisins. Þá voru viðræður hafnar vegna kjarasamninga með annan gildistíma svo sem í flugi og stóriðju.
Stjórn rýndi í upphafi starfsárs í niðurstöður þjónustukönnunar og mótaði lykiláherslur samtakanna starfsárið 2024-25, m.a. hvað varðar kjarasamninga, lífeyrissjóði, Evrópusamstarf, orkumál, starfsumhverfi atvinnulífsins og innra starf. Að sama skapi var lagður grunnur að því hverjar lykiláherslur atvinnulífsins ættu að vera í alþingiskosningum 2025. Samtökin voru því vel undirbúin þegar ákveðið var að rjúfa þing og boða til Alþingiskosninga 30. nóvember 2024 en umræður á stjórnarfundum næstu vikna lituðust nokkuð að því.
Mikill óróleiki í alþjóðamálum litaði töluvert starfsárið, en miklar umræður voru um varnarmál og stöðu Íslands í efnahagslegu og varnarlegu tilliti, t.d. í tengslum við tolla Bandaríkjamanna á Evrópskar vörur. Aukin áhersla varð því á alþjóðamál og hagsmunagæslu íslensks atvinnulífs í alþjóðlegu tilliti m.a. á grundvelli EES samningsins.
Stjórn SA, sem skipuð er tuttugu fulltrúum auk formanns, kom 9 sinnum saman á starfsárinu.
Stjórn Samtaka atvinnulífsins á starfsárinu var skipuð Eyjólfi Árna Rafnssyni, formanni stjórnar, Árna Sigurjónssyni, varaformanni stjórnar, Árna Stefánssyni, Benedikt Gíslasyni, Boga Nils Bogasyni, Eddu Rut Björnsdóttur, Guðmundi Kristjánssyni, Guðrúnu Aðalsteinsdóttir, Guðrúnu Jóhannesdóttur, Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur, Hjörleifi Stefánssyni, Jóni Ólafi Halldórssyni, Jónínu Þorbjörgu Guðmundsdóttur, Lilju Björk Einarsdóttur, Ólafi Marteinssyni, Páli Erland, Pétri Óskarssyni, Rannveigu Grétarsdóttur, Rannveigu Rist, Sigurjóni Rúnar Rafssyni og Þorsteini Víglundssyni.
Á starfsárinu sátu eftirfarandi í framkvæmdastjórn, sem skipuð er sjö fulltrúum auk Eyjólfs Árna Rafnssonar, formanns SA: Árni Sigurjónsson, Benedikt Gíslason, Edda Rut Björnsdóttir, Guðmundur Kristjánsson, Jón Ólafur Halldórsson, Jónína Guðmundsdóttir og Pétur Óskarsson.
Framkvæmdastjórn kom saman 10 sinnum á starfsárinu og ræddi, auk mála sem rædd voru í stjórn, efnahagsumhverfið, stöðu kjaraviðræðna, stefnumótun og málefnavinnu starfsársins, rekstur og stjórnskipulag samtakanna, málefni lífeyrissjóða og ársfund. Þá fór framkvæmdastjórn SA á haustmánuðum í vinnuferð til Brussel þar sem helstu hagaðilar voru heimsóttir og afgreiddur var forgangslisti atvinnulífsins í hagsmunagæslu gagnvart Evrópu og skipulag hagsmunagæslunnar.
Stjórn SA fyrir starfsárið 2024-2025. Efsta röð frá vinstri: Benedikt Gíslason, Sigurjón Rúnar Rafnsson, Anna Hrefna Ingimundardóttir, Guðmundur Heiðar Guðmundsson. Miðjuröð frá vinstri: Rannveig Grétarsdóttir, Pétur Óskarsson, Rannveig Rist, Þorsteinn Víglundsson, Jónína Þorbjörg Guðmundsdóttir. Neðsta röð frá vinstri: Guðmundur Kristjánsson, Guðrún Jóhannesdóttir, Jón Ólafur Halldórsson, Sigríður Margrét Oddsdóttir, Eyjólfur Árni Rafnsson, Heiðrún Lind Marteinsdóttir, Páll Erland. Á myndina vantar Árna Sigurjónsson, Boga Nils Bogason, Eddu Rut Björnsdóttur, Guðrúnu Aðalsteinsdóttur, Hjörleif Stefánsson, Lilju Björk Einarsdóttur og Ólaf Marteinsson.
Páll Ásgeir Guðmundsson lét af störfum sem forstöðumaður málefnasviðs SA í ágúst 2024 eftir rúmlega tveggja ára starf hjá samtökunum. Nýr forstöðumaður, Ísak Einar Rúnarsson, tók formlega til starfa 1. september 2024.
Samtök atvinnulífsins (SA) eru heildarsamtök íslenskra atvinnurekenda og málsvari þeirra í almennum hagsmunamálum atvinnulífsins.
Heildarvelta samtakanna 2024 nam 1.043,5 millj. kr., þar af voru tekjur þjónustudeildar vegna innheimtu og umsýslu árgjalda um 68,9 millj. kr. Hagnaður ársins nam 159 millj. kr. samanborið við 77,6 millj. kr. tap árið 2023. Ársverk voru 29.
Það er álit framkvæmdastjórnar samtakanna að allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að glöggva sig á stöðu samtakanna í árslok, rekstrarárangri ársins og fjárhagslegri þróun samtakanna, komi fram í ársreikningnum.