Er hagkerfið að kólna hraðar en spáð var?

Frá 2014 hefur hagkerfið vaxið um 17%, laun hafa hækkað um 40% og verðlag um 7%. Uppsöfnuð kaupmáttaraukning heimila er án allra fordæma og margföld á við það sem mælist í þeim ríkjum sem við viljum bera okkur saman við.

Samfara miklum uppgangi í íslensku hagkerfi hefur gjaldeyrissköpun þjóðarbúsins vaxið ár frá ári. Frá 2014 hefur uppsafnaður viðskiptaafgangur verið 520 milljarða króna. Útflutningstekjur samsvara um helmingi allrar verðmætasköpunar í hagkerfinu.  Íslensk heimili, fyrirtæki og hið opinbera hafa nýtt uppsveifluna til að greiða niður skuldir. Íslendingar eru nú orðnir hreinir lánveitendur til útlanda. Hrein erlend skuldastaða þjóðarbúsins er loksins orðin jákvæð. Þetta er undarverður árangur, ekki síst þegar horft er til þess að fyrir örfáum árum glímdi Ísland við alvarlegan skuldavanda.

Þó núverandi uppsveifla sé fyrir margar sakir einstök þá vitum við að einn daginn tekur hún enda. Þær gera það allar. Tölur Hagstofunnar bera þess merki að sú aðlögun sé nú þegar hafin. Á fyrstu níu mánuðum síðasta árs mældist ríflega 4% hagvöxtur en til samanburðar mældist 7,4% hagvöxtur á árinu 2016. Þá hafa hagvaxtarspár verið lækkaðar hjá Seðlabankanum, Hagstofunni og öðrum greiningaraðilum samfara því sem vísbendingar benda til hraðari kólnunar hagkerfisins en áður var gert ráð fyrir. Ljóst er að viðsnúningur er hafinn en nú er að bíða og sjá hvernig lendingin verður.
 

Fjórar vísbendingar um kólnun
Þó enn sé þokkalegur gangur á hagkerfinu má greina nokkur merki þess að tekið sé að hægja á.

Eina vísbendingu má finna í atvinnuleysistölum sem Hagstofan birtir mánaðarlega. Þrátt fyrir að enn mælist hagvöxtur þá þokast atvinnuleysi hægt og bítandi upp. Samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar var atvinnuleysi 4% í janúar síðastliðnum og fjölgaði atvinnulausum um 1.600 manns frá áætluðum fjölda í desember, árstíðarleiðrétt. Það vekur athygli að leitnin hefur verið upp undanfarin misseri. Frá því í mars á síðasta ári hefur árstíðarleiðrétt atvinnuleysi hækkað um 29%. 

Aðra vísbendingu má lesa úr mati Seðlabanka Íslands á framleiðsluspennu í hagkerfinu.  Seðlabankinn gerir ráð fyrir að framleiðsluspennan hafi náð hámarki á árinu 2016 og fari minnkandi á næstu árum. Gerir hann nú ráð fyrir hraðari samdrætti en í fyrri spám.

Þá má bersýnilega greina áhyggjur hjá nefndarmönnum peningastefnunefndar af hraðri kólnun hagkerfisins  í nýjustu fundargerð nefndarinnar sem birtist í síðustu viku. 

„Nefndarmenn tóku í því sambandi mið af uppfærðri þjóðhagsspá Seðlabankans sem birtist í Peningamálum 7. febrúar en samkvæmt henni verður hagvöxtur áranna 2017 og 2018 heldur minni en spáð var í nóvember.“

„Voru nefndarmenn sammála um að horfur væru á að spenna í þjóðarbúskapnum myndi minnka á næstu misserum. Eins og nefndin hafði gert ráð fyrir hafði hátt raungengi hægt á vexti útflutnings undanfarið. Nokkur umræða var hins vegar um óvissuþætti spárinnar. Fram kom að aðlögun þjóðarbúskaparins að jafnvægi virtist jafnvel hraðari en gert var ráð fyrir í nóvemberspánni. Bent var á að aðlögunin gæti orðið enn hraðari ef draga myndi hraðar úr komu ferðamanna en gert væri ráð fyrir í spánni eða ef viðskiptakjör tækju að rýrna að marki.“

Fundargerð peningastefnunefndar 21. febrúar 2018

Þriðju vísbendinguna um viðsnúning í hagkerfinu má lesa úr tölum um ferðaþjónustu.  Þó enn mælist fjölgun ferðamanna er hún langtum minni en á sama tíma í fyrra. Í janúar á þessu ári fjölgaði ferðamönnum um 8,5% milli ára en á sama tíma í fyrra mældist vöxturinn ríflega 75%, eða næstum því níu sinnum meiri. Þá hefur jafnframt dregið hratt úr meðalútgjöldum ferðamanna. Það er vissulega óraunhæft að ætla að ferðaþjónusta geti til lengri tíma vaxið um tugi prósenta ár frá ári en viðsnúningurinn virðist hraðari en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Fjórðu vísbendinguna má finna í fréttum. Nær daglega birtast fréttir af íslenskum fyrirtækjum sem kvarta undan versnandi samkeppnisstöðu við útlönd. Það sem helst veldur fyrirtækjum áhyggjum er hátt gengi krónunnar og íþyngjandi launakostnaður og skyldi engan undra. Raungengi íslenskra launa, þ.e. hlutfallslegur kaupmáttur þeirra í erlendri mynt samanborið við laun annarra þjóða, hefur rokið upp á síðustu árum og hefur aldrei verið sterkara. Þó Íslendingar njóti þess erlendis og í innflutningi þá er hin hliðin á peningnum heldur dekkri. Ísland er að verðleggja sig út af vissum mörkuðum. Slík þróun birtist okkur í tölum um þróun ferðaþjónustunnar en einnig gagnvart fyrirtækjum sem starfa á innlendum markaði og eru í erlendri samkeppni.

Kuldaboli í kortunum
Nýlegar hagvaxtarspár eiga það sammerkt að gera ráð fyrir 2-3% hagvexti á næstu árum og því að aðlögunin verði átakalausari en við höfum áður séð. Spámenn eru hins vegar ekki í öfundsverðri stöðu því eitt megineinkenni íslenskra hagsögu eru miklar sveiflur, ýktar uppsveiflur sem leiðréttast að lokum með snöggkólnun hagkerfisins. Eins og sést á neðangreindri mynd þá er Ísland útgildi innan OECD þegar kemur að sveiflum í verðlagi og í hagvexti. Lettland er eina ríkið frá árinu 2001 sem hefur búið við meiri sveiflur í verðlagi. Sveiflur í hagvexti eru einnig miklar en það eru ríki á borð við Singapúr, Grikkland, Írland, Eistland, Litháen og Lettland sem búa við meiri sveiflur.

Það er því vert að gefa því gaum hversu miklum breytingum hagvaxtarspár hafa tekið á undanförnum misserum. Um mitt síðasta ár spáði Seðlabankinn því að hagvöxtur á árinu 2017 yrði ríflega 6%. Eftir því sem leið á árið fór hagvaxtarspáin að taka breytingum og gerir bankinn nú ráð fyrir því að hagvöxtur á árinu 2017 hafi verið 3,4%. Svipaða sögu má segja um mat Hagstofunnar sem hefur að undanförnu lækkað spá sína um hagvöxt við hverja endurskoðun. Ekki er ólíklegt að hagvöxtur fyrir þetta ár verði einnig endurskoðaður samfara því sem fleiri vísbendingar koma fram enda skipast skjótt veður í lofti.

Að lokum
Síðustu ár hafa verið afskaplega góð í efnahagslegu tilliti og ekki er annars að vænta en að árið í ár verði það einnig þrátt fyrir spár um minni hagvöxt. Staða íslenska þjóðarbúsins er einfaldlega óvenju góð um þessar mundir. Eftir sjö ár af samfelldum hagvexti skilar þjóðarbúið enn viðskiptaafgangi, verið er að greiða niður skuldir og kaupmáttaraukning er langtum meiri en mælist í öðrum ríkjum beggja vegna Atlantshafsins. Hvort hagvöxtur verði 2% eða 3% skiptir ekki öllu máli en hins vegar skiptir höfuðmáli að aðgerðir næstu missera verði til þess fallnar að varðveita þá einstöku stöðu sem við höfum komið okkur í. Hagkerfið er að kólna hraðar en spár gerðu ráð fyrir og ekki er ólíklegt að komandi hagvaxtarspár munu taka frekari breytingum. Við vitum öll að uppsveiflur taka enda einn daginn, það er bara spurning hversu hörð lendingin verður.


Til umhugsunar eru reglulegar greinar á vef SA um brýn samfélagsmál.