Vinnumarkaður - 

16. janúar 2015

Ýtt undir óróleika á vinnumarkaði

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Ýtt undir óróleika á vinnumarkaði

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Þorsteinn Víglundsson, furðar sig á því að Eygló Harðardóttir, félagsmálaráðherra segi svigrúm vera til meiri launahækkana en samræmist verðstöðugleika. Þannig ýti ráðherrann undir óróleika á vinnumarkaði. Félagsmálaráðherra sagði í samtali við RÚV í gær að verkalýðshreyfingin hljóti að krefjast meiri hækkana en t.d. Seðlabanki Íslands og fjármálaráðherra hafa talið samræmast stöðugleika í efnahagslífinu, lágri verðbólgu og auknum kaupmætti.

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Þorsteinn Víglundsson, furðar sig á því að Eygló Harðardóttir, félagsmálaráðherra segi svigrúm vera til meiri launahækkana en samræmist verðstöðugleika.  Þannig ýti ráðherrann undir óróleika á vinnumarkaði. Félagsmálaráðherra sagði í samtali við RÚV í gær að verkalýðshreyfingin hljóti að krefjast meiri hækkana en t.d. Seðlabanki  Íslands og fjármálaráðherra hafa talið samræmast stöðugleika í efnahagslífinu, lágri verðbólgu og auknum kaupmætti.

„Ég furða mig mjög á þessum ummælum það er ekki hægt að líta á þau öðru vísi en svo að þarna sé verið að reyna að auka óróleika á vinnumarkaði sem er ærinn fyrir. Við gerum þá kröfu til stjórnvalda sem tala um mikilvægi stöðugleikans og mikilvægi þess að ganga inn í komandi kjarasamninga af ábyrgð að það sé þá samkvæmni í því hvernig ráðherrar tjá sig,“ segir Þorsteinn Víglundsson.

„Þarna var ráðherra í raun og veru að tala algjörlega þvert á þvert á t.d. það sem fjármálaráðherra hefur látið hafa eftir sér um mikilvægi þess að menn fari af ábyrgð inn í næstu kjarasamninga.“

Meiri launahækkanir en í nágrannalöndunum
Þorsteinn bendir á að launahækkanir á Íslandi á síðasta ári hafi verið miklar og mikilvægt sé að festa í sessi þann aukna kaupmátt sem hefur náðst. Hann hafnar því að hægt sé að hækka laun enn frekar vegna þess að hagur fyrirtækja hafi batnað eftir erfiða tíð.

 „Það er alveg rétt að hagnaður fyrirtækja hefur sem betur fer tekið við sér á undanförnum árum eftir mikinn samdrátt áranna 2008 til 2010. Á sama tíma hefur líka orðið veruleg launahækkun hér á landi og við höfum verið að hækka laun undanfarin fjögur ár langt umfram það sem gengur og gerist í nágrannalöndum okkar og þannig verið að endurreisa kaupmátt í landinu,“ segir Þorsteinn. Það geti ekki verið ávísun á frekari hækkanir.

Skattar á atvinnulífið hafa hækkað
Félagsmálaráðherra telur að skattar á atvinnulífið hafi verið lækkaðir og því hafi svigrúm atvinnulífsins til að hækka laun aukist. Gott ef satt væri en halda skal því til haga að skattar á atvinnulífið eftir hrun voru hækkaðir um 80 milljarða króna á ári og því var verulega þrengt að getu atvinnulífsins til að hækka laun. Þá hefur ítrekað komið fram að undanförnu að stjórnvöld hafa ekki lækkað tryggingagjald á fyrirtæki landsins í samræmi við lækkandi atvinnuleysi eins og þau hefðu átt að gera. Það þýðir í raun að fyrirtæki, bæði stór og smá, greiða árlega 30 milljörðum króna meira í tryggingagjald á ári en nauðsynlegt væri. Það takmarkar getu þeirra til að hækka laun, ráða nýtt fólk í vinnu, minnkar svigrúm til nýsköpunar, rannsókna og þróunar og dregur úr tekjuskattsgreiðslum til ríkisins.

Þá gagnrýnir félagsmálaráðherra bankana fyrir að auka vaxtamun en það er afleiðing þess að skattar og álögur á fjármálafyrirtæki hafa verið aukin verulega. Þær auknu álögur sem lagðar hafa verið á bankastofnanir undanförin tvö ár eru t.d. ígildi um 0,5 prósentustigs vaxtamunar. Þá er skattbyrði viðskiptabanka þyngst allra atvinnugreina á Íslandi en greiddur tekjuskattur og sérstakir skattar á viðskiptabanka nema tæplega þriðjungi hagnaðar þeirra á meðan almennt hlutfall er 20%.

Samtök atvinnulífsins