Vinnumarkaður - 

22. október 2014

Vinnutíminn hefur styst

Vinnu- og hvíldartími

Vinnu- og hvíldartími

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Vinnutíminn hefur styst

Á undanförnum tveimur áratugum hefur meðalvinnutími á íslenskum vinnumarkaði styst um 4 klukkustundir vegna minni yfirvinnu, samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar. Sé litið enn lengra aftur kemur í ljós að meðalvinnutími verkafólks og iðnaðarmanna er nú 12-14 klukkustundum styttri en hann var fyrir fjórum áratugum síðan. Þetta er mikil breyting og er til marks um bætt lífskjör þar sem svigrúm hefur skapast fyrir mun styttri vinnutíma en áður.

Á undanförnum tveimur áratugum hefur meðalvinnutími á íslenskum vinnumarkaði styst um 4 klukkustundir vegna minni yfirvinnu, samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar. Sé litið enn lengra aftur kemur í ljós að meðalvinnutími verkafólks og iðnaðarmanna er nú 12-14 klukkustundum styttri en hann var fyrir fjórum áratugum síðan. Þetta er mikil breyting og er til marks um bætt lífskjör þar sem svigrúm hefur skapast fyrir mun styttri vinnutíma en áður.

Aukin framleiðni í atvinnulífinu hefur knúið þessa þróun áfram. Frá 1991 hefur verðmætasköpun (landsframleiðsla) á hvern landsmann, sem er einn mælikvarði á framleiðniþróun atvinnulífsins, aukist um 45%. Á sama tíma hefur kaupmáttur launa aukist um 37%. Þar sem framleiðniaukning ræður svigrúmi til kaupmáttaraukningar mætti ætla að kaupmáttarþróun hafi verið lakari en tilefni stóð til. Það er þó ekki tilfellið heldur skýrir styttri vinnutími það sem upp á vantar. Vinnutími er að jafnaði 7% styttri en hann var fyrir tveimur áratugum síðan og kaupmáttaraukningin er 6% minni en aukin framleiðni gaf tilefni til. Kaupmáttur launa og verðmætasköpun á vinnustund hafa  með öðrum orðum haldist í hendur á þessu tímabili.

Samband þessara þátta má sjá á meðfylgjandi mynd:

undefined

Þetta samhengi þarf að hafa í huga í umræðum um  styttingu vinnutíma hér á landi. Fyrir Alþingi liggur frumvarp um 5 klukkustunda styttingu lögboðinnar vinnuviku, úr 40 stundum í 35. Það er sambærileg stytting og átt hefur sér stað á undanförnum tveimur áratugum. Rétt er að hafa í huga að virkur vinnutími er 37 klukkustundir á viku að teknu tilliti til kaffi- og matarhléa, og jafnvel enn styttri hjá einstökum stéttum. Lögboðin stytting vinnuviku knýr hins vegar ekki fram aukna framleiðni í einni svipan. Framleiðniaukning í hagkerfinu á sér stað í hægum skrefum og er samspil óteljandi aðgerða sem fyrirtæki og stofnanir grípa til í þeirri viðleitni að auka samkeppnishæfni sína og hagkvæmni. Þar sem talsmenn hugmynda um lögboðna styttingu vinnuviku ganga jafnan að því sem gefnu að launafólk haldi sömu tekjum eftir styttinguna felur tillaga um fækkun greiddra vikulegra vinnustunda úr 40 í 35 í sér að laun fyrir greidda vinnustund hækki um 14%. Slík aðgerð yrði öllum til tjóns vegna þeirrar verðbólgu og gengislækkunar sem fyilgdi í kjölfarið. Sambærileg aðgerð var framkvæmd árið 1972 þegar Alþingi stytti vinnuvikuna um 4 stundir og hækkaði launakostnað um 10%, samanber 8. gr. þeirra laga „Vinnutímastytting sú, sem felst í lögum þessum, hefur ekki í för með sér skerðingu á viku- og mánaðarlaunum“. Sú aðgerð markaði upphaf óðaverðbólgunnar sem ríkti næstu 10-15 árin.

Eftir stendur sú spurning hvort lög- og samningsbundin vinnuvika hér á landi sé almennt lengri en gengur og gerist hjá nágrannaþjóðum okkar, líkt og gjarnan er haldið fram. Eins og meðfylgjandi tafla sýnir er svo ekki. Þegar tekið hefur verið tillit til fjölda vinnustunda á viku, að teknu tilliti til neysluhléa, og fjölda orlofsdaga og annarra frídaga sem ber upp á virkum dögum, er vinnustundafjöldi okkar með því lægsta sem þekkist.

undefined

Annað og óskylt mál er að  yfirvinnugreiðslur eru algengari en í nágrannalöndum okkar. Stytting lögbundinnar vinnuviku mun ekki breyta neinu þar um. Með aukinni framleiðni mun áfram hluti þess svigrúms sem skapast verða varið til að bæta lífskjörin og draga úr yfirvinnu, líkt og raunin hefur verið til þessa.  Mikilvægar forsendur fyrir aukinni framleiðni er stöðugt rekstrarumhverfi og lágt vaxtastig. Það sýnir samanburður við nágrannalönd okkar ótvírætt. Að því þurfum við að stefna, en ekki valda efnahagslegu umróti og verðbólgu með lagaboði.

Það er mikilvægt að atvinnu- og fjölskyldulíf sé í góðu jafnvægi en það er í höndum einstakara vinnustaða og starfsfólks að sjá til þess að svo sé. Alþingi getur ekki með lagabreytingu á einni nóttu aukið frítíma fólks, framleiðni í atvinnulífinu og hækkað laun fyrir hverja unna vinnustund. Það verður að gerast á vettvangi atvinnulífsins og í kjarasamningum ef aðstæður eru fyrir hendi. Það virðist raunar ekki vera forgangsmál hjá Íslendingum að stytta vinnutíma því í skoðanakönnun Capacent Gallup sem gerð var í aðdraganda síðustu kjarasamninga sagðist aðeins einn af hverjum tíu vilja að lögð yrði mest áhersla á að stytta vinnutíma. Flestir (45%) settu í fyrsta sæti að mikilvægast væri að stuðla að lágri verðbólgu með hófsömum launahækkunum. Könnunin var gerð í október 2013 fyrir SA, úrtakið var 2.950 manns á landinu öllu og var fjöldi svarenda 1.771.

Samtök atvinnulífsins