Fréttir - 

17. nóvember 2016

Verkefni nýrrar ríkisstjórnar

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Verkefni nýrrar ríkisstjórnar

Stjórnvöld verða að taka upp viðræður við Seðlabankann og fá hann til að lækka vexti. Gengi krónunnar er allt of hátt og fer að óbreyttu hækkandi á næstu mánuðum og misserum þar til komið er í óefni, tekjur af ferðamönnum taka að minnka og gengið að falla. Afgangur af þjónustuviðskiptum hverfur, halli á vöruviðskiptum verður mikill og sívaxandi og mikill viðskiptahalli mun einnig grafa undan krónunni. Koma verður í veg fyrir þessa þróun og mikilvægur liður í því er að Seðlabankinn lækki vexti verulega.

Stjórnvöld verða að taka upp viðræður við Seðlabankann og fá hann til að lækka vexti. Gengi krónunnar er allt of hátt og fer að óbreyttu hækkandi á næstu mánuðum og misserum þar til komið er í óefni, tekjur af ferðamönnum taka að minnka og gengið að falla. Afgangur af þjónustuviðskiptum hverfur, halli á vöruviðskiptum verður mikill og sívaxandi og mikill viðskiptahalli mun einnig grafa undan krónunni. Koma verður í veg fyrir þessa þróun og mikilvægur liður í því er að Seðlabankinn lækki vexti verulega.

Ný ríkisstjórn verður að taka mið af þenslunni í efnahagslífinu, hagvöxtur er mikill, atvinnuleysi í lágmarki og hætta er á að efnahagslegur stöðugleiki raskist. Í lögum um opinber fjármál er kveðið skýrt á um að stefna í opinberum fjármálum skuli stuðla að jafnvægi í efnahagsmálum. Undan þeirri skyldu getur ný ríkisstjórn ekki vikist. Því verða fjármál hins opinbera að hamla á móti efnahagsþenslunni sem nú stendur yfir.

Stjórnvöldum ber einnig að efna fyrirheit sem SA voru gefin um lækkun tryggingagjaldsins 1. júlí 2017 og 1. júlí 2018 sem gefin voru í tengslum við gildandi kjarasamninga.

Hafna verður úrskurðum kjararáðs
Alþingi verður að hafna nýlegum ákvörðunum kjararáðs. Með því er bæði átt við úrskurði um þingfararkaup og laun ráðherra og nýlega úrskurði um ríflegar hækkanir launa embættismanna. Annars er borin von að aðilar vinnumarkaðarins geti haldið áfram vegferð sinni um bætt vinnubrögð við kjarasamningagerð, ferli sem kennt hefur verið við Salek.

Jafna verður lífeyrisréttindi
Forsenda friðar á vinnumarkaði er að Alþingi lögfesti stjórnarfrumvarp um breyt­ingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins sem jafnar  lífeyrisréttindi á almennum og opinberum vinnumarkaði. Verði frumvarpið ekki lögfest fyrir áramót mun mótframlag ríkis og sveitarfélaga í lífeyrissjóði starfsmanna þeirra sem réttindi eiga í A-deildum LSR og Brúar (sveitarfélögin) og að óbreyttu hækka  um næstu áramót um 3,6% hjá ríkinu, úr 11,5% í 15,1%, og um 4,8%, úr 12,0% í 16,8%, hjá sveitarfélögunum. Hækkun mótframlags jafngildir launahækkunum samkvæmt rammasamkomulagi helstu aðila vinnumarkaðarins frá 27. október 2015 um launastefnu til ársloka 2018.

Í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði sem gerðir voru á árinu 2015 og gilda til ársloka 2018 eru ákvæði um endurskoðun á forsendum þeirra í febrúar 2017.  Þá skal meta hvort launahækkanir í samningunum hafi verið stefnumarkandi. Verði ASÍ og SA ekki sammála um matið fyrir 28. febrúar gætu samningar orðið lausir í maí. Það kann að koma til ágreinings um það milli aðila hvort forsendur samninganna hafi brugðist og hvort tilefni verði fyrir uppsögn þeirra.

Þá ber stjórnvöldum að efna ákvæði í rammasamkomulagi þeirra og aðila vinnumarkaðarins um sameiginlega skilning á stöðu, stjórnun og fjármögnun lykilstofnana vinnumarkaðarins og virkara samráð milli aðila.

Óháð því hvort forsendur kjarasamninga á almennum markaði hafi staðist eða ekki er engum greiði gerður með kjarasamningum um enn frekari hækkun launakostnaðar auk hækkana síðustu  missera og þær sem verða á næsta ári. Enginn heldur því fram að hækkanirnar séu í samræmi við efnahagslegt svigrúm eða framleiðniþróun. Við þær bætist síðan stórfelld hækkun gengis krónunnar sem kreppir að fyrirtækjum í alþjóðlegri samkeppni.

Hannes G. Sigurðsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Leiðari fréttabréfsins Af vettvangi í nóvember 2016.

Samtök atvinnulífsins