Fréttir - 

19. maí 2015

Uppsagnir í öðru hverju fyrirtæki verði kröfur SGS knúnar fram

Vinnumarkaðsmál

Vinnumarkaðsmál

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Uppsagnir í öðru hverju fyrirtæki verði kröfur SGS knúnar fram

Afleiðingarnar yrðu alvarlegar fyrir fyrirtæki og heimili landsins ef kröfur Starfsgreinasambands Íslands (SGS) um 50-70% almennar launahækkanir næstu þrjú árin næðu fram að ganga. Ný könnun meðal aðildarfyrirtækja SA sýnir að meira en annað hvert fyrirtæki, eða 55,4% myndu neyðast til að bregðast við miklum launahækkunum með fækkun starfsfólks og verulegri hækkun á verði fyrir vörur og þjónustu.

Afleiðingarnar yrðu alvarlegar fyrir fyrirtæki og heimili landsins ef kröfur Starfsgreinasambands Íslands (SGS) um 50-70% almennar launahækkanir næstu þrjú árin næðu fram að ganga. Ný könnun meðal aðildarfyrirtækja SA sýnir að meira en annað hvert fyrirtæki, eða 55,4% myndu neyðast til að bregðast við miklum launahækkunum með fækkun starfsfólks og verulegri hækkun á verði fyrir vörur og þjónustu.

Flestir stjórnendur eða 43,5%, gera ráð fyrir að fækkun starfsfólks verði á bilinu 5-15%, 31% gera ráð fyrir að fækkun starfsfólks verði á bilinu 16-30%, 10% stjórnenda gera ráð fyrir að fækka fólki um 31-50% og 4,8% fyrirtækja gera ráð fyrir að hætta starfsemi verði kröfur SGS að veruleika. Aðeins 10% stjórnenda telja að fækkunin verði innan við 5%.

Störfum gæti fækkað um 16.000

Hjá fyrirtækjunum í könnuninni starfa 24 þúsund starfsmenn. Þegar mat stjórnenda fyrirtækjanna á þeirri fækkun starfsmanna sem muni hljótast af 50-70% launahækkun á þremur árum er vegið saman með starfsmannafjölda fyrirtækjanna fæst að starfsmönnum þessara fyrirtækja muni fækka um 14%, eða um 3.400. Sé sú niðurstaða yfirfærð á almenna vinnumarkaðinn í heild fæst að starfsmönnum gæti fækkað um 16.000. 

Verðbólga á flug
Áhrif 50-70% launahækkana yrðu einnig mikil á verðlag sem myndi fara á fleygiferð. Alls segjast 86% stjórnenda þurfa að hækka verð á vörum og þjónustu sinna fyrirtækja ef samið verði um 50-70% launahækkanir næstu þrjú árin.

Að mati stjórnendanna myndi verðlag hækka mjög mikið. Flestir (39%) gera ráð fyrir því að verðlag hækki um 5-15%, tæpur þriðjungur (31%) telur verðlag hækka um 16-30%, tæpur fimmtungur (18%) gerir ráð fyrir því að verðlag hækki um 31-50% og 9% gera ráð fyrir að verðlag hækki um meira en 50%. Aðeins tæp 3% segja að verðlag muni hækka innan við 5%.

Í spurningunni felst að stjórnendurnir leggja eingöngu mat á fyrstu áhrif launahækkana, en ekki á þá víxlverkun sem fer af stað þegar birgjar hækka verð á aðföngum, og svo koll af kolli.

Um könnunina:
Um var að ræða netkönnun meðal aðildarfyrirtækja SA dagana 12.-15. maí 2015 og var fjöldi svarenda 395. Outcome-kannanir sáu um framkvæmd könnunarinnar. 60% svarenda voru með rekstur á höfuðborgarsvæðinu en 40% á landsbyggðinni.

Samtök atvinnulífsins eru heildarsamtök íslensks atvinnulífs með sex aðildarfélögum sem byggja á ólíkum atvinnugreinum. Yfir 2.000 fyrirtæki í fjölbreyttum greinum eiga aðild að Samtökum atvinnulífsins, allt frá sjálfstætt starfandi frumkvöðlum til stærstu fyrirtækja landsins. Hjá aðildarfyrirtækjum SA starfa um 70% launafólks á almennum vinnumarkaði.

Samtök atvinnulífsins