Fréttir - 

13. júní 2016

Trúverðugleiki peningastefnunnar bíður hnekki

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Trúverðugleiki peningastefnunnar bíður hnekki

Þann 2. júní síðastliðinn samþykkti Alþingi breytingar á lögum um gjaldeyrismál sem veita Seðlabanka Íslands víðtækar heimildir til að hefta innflæði fjármagns til landsins. Breytingunum er beint gegn svonefndum vaxtamunarviðskiptum og eru liður í undirbúningi stjórnvalda fyrir afnám hafta á gjaldeyrisútflæði sem verið hafa við lýði undangengin átta ár. Breytingunum fylgja viðamiklar og fordæmalausar valdheimildir Seðlabanka, sem er sjálfstætt áhyggjuefni sem ekki verður þó fjallað um hér.

Þann 2. júní síðastliðinn samþykkti Alþingi breytingar á lögum um gjaldeyrismál sem veita Seðlabanka Íslands víðtækar heimildir til að hefta innflæði fjármagns til landsins. Breytingunum er beint gegn svonefndum vaxtamunarviðskiptum og eru liður í undirbúningi stjórnvalda fyrir afnám hafta á gjaldeyrisútflæði sem verið hafa við lýði undangengin átta ár. Breytingunum fylgja viðamiklar og fordæmalausar valdheimildir Seðlabanka, sem er sjálfstætt áhyggjuefni sem ekki verður þó fjallað um hér.

Það felst kaldhæðni í því að samtímis þurfi að setja á umfangsmikil höft á innflæði gjaldeyris til að létta höftum af útflæði fjármagns. Það liggur fyrir að lífeyrissjóðir og aðrir innlendir fjárfestar þurfa að fjárfesta umtalsvert erlendis eftir áralangt haftaskeið. Ljóst er því að fjármagn til fjárfestinga hér á landi mun dragast saman sem eykur vaxtakostnað fyrirtækja og heimila. Jafnframt skapast sú hætta að fjármagn leiti nýrra leiða sem regluverk eftirlitsstofnana nær ekki til og áhætta byggist upp utan sjóndeildarhrings þeirra. Hugsanleg neikvæð áhrif nýrra innflæðishafta ættu ekki að koma Seðlabankanum á óvart enda eru þau útlistuð í riti bankans Varúðarreglur eftir höft.

Enn ein höftin í nýjum búningi
Íslenska hagkerfið er komið á kunnuglegar slóðir. Kröftugur hagvöxtur, launahækkanir langt umfram það sem tíðkast í nágrannalöndunum og lítið aðhald ríkisfjármála setja mikinn þrýsting á hagstjórnina. Seðlabankinn hefur hækkað vexti til að bregðast við aukinni hættu á verðbólgu og hlotið talsverða gagnrýni fyrir. Allt er þetta endurtekið efni frá fyrri hagvaxtarskeiðum. Hægt er að hafa einhvern skilning á viðbrögðum Seðlabankans við þessar kringumstæður þar sem bankinn er að sinna lögbundnu hlutverki sínu. Aftur á móti er ástæða til að staldra við og spyrja hvort núgildandi peningastefna sé líkleg árangurs?

Til skamms tíma virðist bit peningastefnunnar einna helst koma fram í því að gengi krónunnar styrkist þegar vextir hækka. Þvert á tilætluð áhrifa vaxtahækkana eykur styrking krónunnar kaupgetu almennings og ýtir enn frekar undir þenslu. Seðlabankinn bregst þá við með enn hærri vöxtum. Vegna hás hlutfalls verðtryggingar í útlánum til einstaklinga og fyrirtækja er miðlun peningastefnunnar mun hægari og meiri óvissu háð en í nágrannalöndunum þar sem verðtrygging þekkist vart. Afleiðingin er hærri vextir en þeir þyrftu að vera.

Skammtímavaxtamunur gagnvart evru er nærri 7% í dag og litlu minni gagnvart pundi og dollara. Þegar við þennan vaxtamun bætist kröftugur hagvöxtur hér á landi, horfur á styrkingu gjaldmiðils og batnandi lánshæfi ríkissjóðs er ekki við öðru að búast en að áhugi erlendra fjárfesta á íslenskum ríkisskuldabréfum aukist.

Peningastefnan hefur verið í mótun síðustu misserin, en meira hefur farið fyrir innleiðingu varúðarreglna og minna fyrir umræðu um stjórntæki bankans. Bitlítið vaxtatæki kallar á meiri vaxtamun en ella sem aftur skapar vanda vegna innstreymis gjaldeyris sem nú skal plástra fyrir með höftum. Það eru hins vegar fleiri tæki í vopnabúri Seðlabankans. Bindiskyldan er eitt dæmi um tæki sem Seðlabankinn hefur lítið beitt en virkar almennt vel í litlu hagkerfi eins og á Íslandi. Þá hefur jafnframt verið til umræðu að heimila þak á veðhlutföll útlána til að sporna gegn útlánaþenslu. Ljóst er að beiting slíkra tækja kallar á jafnræði milli bankakerfisins og annarra útlánastofnana eða svonefnds skuggabankakerfis. Hins vegar bendir reynslan til þess að þarna kunni að vera á ferðinni mun áhrifaríkari stjórntæki sem líklegri séu til að slá á þenslu.

Vaxtastefna Seðlabankans og mikill vaxtamunur við útlönd hefur leitt af sér viðvarandi haftaumhverfi sem nú tekur á sig nýjar myndir. Spyrja má hvort þessi nýju höft á innflæði gjaldeyris skapi ekki svigrúm til lækkunar stýrivaxta Seðlabankans og þar með minni vaxtamun við útlönd. Það er löngu tímabært að ræða mótun peningastefnunnar eftir höft. Sú umræða þarf að vera vönduð og mikilvægt er að Seðlabankinn komi að henni með opnum huga en slái ekki á gagnrýni á núgildandi peningastefnu með yfirlýsingum um skilningsleysi þeirra sem gagnrýna hana. Trúverðugleiki peningastefnunnar er minni en bankinn ætlar og hliðarverkanir hennar eru viðvarandi höft á viðskipti sem í öðrum ríkjum eru frjáls og hafa afar skaðleg áhrif á íslenskt atvinnulíf. Við það verður ekki unað.

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 9. júní 2106.

Samtök atvinnulífsins