Fréttir - 

17. desember 2015

Tækifærin liggja í loftinu

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Tækifærin liggja í loftinu

Á ráðstefnu allra ríkja heimsins um loftslagsmál í París náðu þau mikilvægu samkomulagi sem markar tímamót. Atvinnulíf og fyrirtæki munu leika lykilhlutverk ef markmið þess eiga að nást.

Á ráðstefnu allra ríkja heimsins um loftslagsmál í París náðu þau mikilvægu samkomulagi sem markar tímamót. Atvinnulíf og fyrirtæki munu leika lykilhlutverk ef markmið þess eiga að nást.

Samkomulag þjóða heims er ekki ógn við hagvöxt og velferð til framtíðar. Þvert á móti. Það er nauðsynlegt að grípa til aðgerða til að takast á við loftslagsbreytingar og afleiðingar þeirra.

Atvinnulífið hefur fjölmörg tækifæri til að leggja sitt af mörkum til að bregðast við loftslagsbreytingum. Með því að sýna aðgát í umhverfismálum og hugsa til langs tíma má tryggja sjálfbæra nýtingu auðlinda og auka arðsemi atvinnulífsins til framtíðar.

Stjórnendur fyrirtækja sem hugsa um sjálfbærni og sýna hana í verki, öðlast forskot í samkeppninni og bæta samkeppnishæfni fyrirtækja sinna. Óteljandi tækifæri eru framundan á sviði nýsköpunar og tækniþróunar sem framsýn og ábyrg fyrirtæki geta nýtt sér. Stærstu tækifærin felast í að hugsa hlutina upp á nýtt, finna nýjar leiðir og þróa nýjar aðferðir til að leysa verkefnin framundan á umhverfisvænan og sjálfbæran hátt.

Á Íslandi blasa tækifærin við. Alls staðar vekur nýting endurnýjanlegra orkulinda athygli og jafnvel aðdáun. Þar sem loftslagsvandinn er alþjóðlegur stuðlar nýting vatns- og vindorku og jarðvarma hér á landi að minni notkun jarðefnaeldsneytis annars staðar. Þess vegna hljótum við að halda áfram ábyrgri og skynsamlegri nýtingu orkulindanna. Hingað til hafa þær einkum nýst innanlands og til útflutnings í formi afurða stóriðjufyrirtækja. Nú virðast vera að skapast fleiri möguleikar til orkusölu, m.a. um sæstreng, sem nauðsynlegt er að gaumgæfa og taka ákvörðun um með heildarhagsmuni þjóðar og alþjóðlegs umhverfis að leiðarljósi.

Íslensk fyrirtæki hafa náð markverðum árangri á undanförnum árum og áratugum. Íslensku stóriðjufyrirtækin eru meðal þeirra sem minnst losa af gróðurhúsalofttegundum í heiminum. Fiskiskipin nýta sífellt minni olíu til að sækja hvert tonn af fiski. Flutningatækin verða sífellt umhverfisvænni. Tækifærin blasa við í samgöngum á næstu árum. Að auki eigum við mikla möguleika til að binda kolefni með landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis.

Við getum gert betur í loftslags- og umhverfismálum og íslenskt atvinnulíf mun leggja sitt af mörkum á komandi árum og áratugum.

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA.

Leiðari fréttabréfsins Af vettvangi í desember 2015.

Samtök atvinnulífsins