Fréttir - 

11. febrúar 2016

Seðlabankinn gyrði sig í brók

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Seðlabankinn gyrði sig í brók

Fjármagnshöft hafa nú verið við lýði í rúmlega sjö ár. Það er fimm árum lengur en upphaflega var gert ráð fyrir. Með samþykki kröfuhafa á nauðasamningum slitabúa bankanna undir lok nýliðins árs var helstu hindrun í vegi losunar hafta rutt úr vegi. Þessa hafði lengi verið beðið. Niðurstaðan var farsæl fyrir ríkissjóð og þjóðarbúið allt og til þess fallin að draga verulega úr þeirri áhættu sem losun hafta gæti fylgt.

Fjármagnshöft hafa nú verið við lýði í rúmlega sjö ár. Það er fimm árum lengur en upphaflega var gert ráð fyrir. Með samþykki kröfuhafa á nauðasamningum slitabúa bankanna undir lok nýliðins árs var helstu hindrun í vegi losunar hafta rutt úr vegi. Þessa hafði lengi verið beðið. Niðurstaðan var farsæl fyrir ríkissjóð og þjóðarbúið allt og til þess fallin að draga verulega úr þeirri áhættu sem losun hafta gæti fylgt.

Hvað tefur?
Önnur hindrun losunar hafta eru aflandskrónur sem læstar hafa verið hér innanlands frá október 2008. Enn er beðið útboðs Seðlabankans sem taka átti á þeim vanda og átti að fara fram sl. haust en dróst á langinn og ekkert bólar á dagsetningu útboðs enn.

Frá ársbyrjun 2013 hefur gjaldeyrisinnstreymi aukist jafnt og þétt vegna aukinna umsvifa í útflutningsgreinum þjóðarinnar, sér í lagi ferðaþjónustu. Þessa þróun hefur Seðlabankinn hagnýtt sér og nema nettó kaup bankans á gjaldeyri um 440 milljörðum króna á þessu tímabili. Óskuldsettur gjaldeyrisvaraforði þjóðarinnar hefur því styrkst svo um munar.

Dregur úr samkeppnishæfni
Innlendir fjárfestar hafa setið áfram í höftum og má sem dæmi nefna að uppsöfnuð fjárfestingarþörf íslenska lífeyrissjóðakerfisins nemur nú um 200-300 milljörðum króna ef vægi erlendra eigna í safni þeirra á að vera ásættanlegt.

undefined

Smelltu á myndina til að stækka

Þrátt fyrir mikil gjaldeyriskaup Seðlabankans hefur gengi íslensku krónunnar styrkst um 18% frá ársbyrjun 2013. Sú mikla gengisstyrking kemur til viðbótar launahækkunum á þessu tímabili sem nema 24% eða sem svarar til 7,3% að jafnaði á ári hverju. Svipaðar launahækkanir eru í kortunum í ár. Þessar hækkanir eru margfaldar m.v. það sem þekkist í nágrannalöndum okkar sem dregur úr samkeppnishæfni þeirra fyrirtækja sem starfa við útflutning eða eru í alþjóðlegri samkeppni. Þessi þróun grefur undan því sterka gjaldeyrisinnflæði sem við höfum búið við undanfarin ár og þurfum á að halda til lengri tíma litið. Styrking krónunnar ýtir enn frekar undir þá öfugþróun.

Dýrkeypt þróun?
Eðlilegt er því að spurt sé hvað dvelji útboð á aflandskrónum og losun hafta í framhaldinu? Fjármagnshöft við aðstæður mikils innflæðis gjaldeyris en takmörkun útflæðis vegna fjárfestinga mun leiða til enn frekari styrkingar krónunnar og um leið grafa undan samkeppnishæfni atvinnulífsins. Afleiðingarnar gætu orðið grafalvarlegar fyrir þjóðarbúið.

Reynsla okkar af fyrri styrkingartímabilum krónunnar sýnir hvaða tjón hlýst af þessari þróun. Það kreppir verulega að greinum í alþjóðlegri samkeppni en innlend þjónusta dafnar vegna mikils kaupmáttar. Fyrirtæki sem barist hafa við að byggja upp starfsemi á erlendum mörkuðum sjá fótunum kippt undan rekstri sínum og ýmist leggja upp laupana eða flýja land. Þegar gengið hrynur snýst þessi þróun við og störfum fjölgar að nýju í útflutningsgreinum en fækkar í innlendri þjónustu.

Nú má með sanni segja að vinnumarkaðurinn beri ríka ábyrgð á þeirri stöðu sem upp er komin. Á undanförnum tveimur árum hafa harðvítugar vinnudeilur leitt til launahækkana á opinbera og almenna vinnumarkaðnum sem eru langt umfram það sem samrýmist stöðugu verðlagi og gengi krónunnar til lengri tíma litið. Um það eru allir sammála og kom meðal annars skýrt fram í sameiginlegu mati hagfræðinga SA, ASÍ, BSRB, KÍ og BHM á þjóðhagslegum áhrifum þeirra launahækkana sem orðið hafa og fyrirsjáanlegar eru á næstu misserum.

Gengur ekki til lengdar
Styrking gengis til viðbótar við of miklar launahækkanir mun valda því að hin óhjákvæmilega gengislækkun verður enn meiri en ella til að rétta af samkeppnisstöðu landsins. Annars verður rekstrargrundvelli einfaldlega kippt undan stórum hluta útflutningsfyrirtækja og annarra fyrirtækja í alþjóðlegri samkeppni.

Seðlabankinn verður að gyrða sig í brók og ljúka sem fyrst útboði vegna aflandskróna. Það getur varla verið svo að bankinn sé enn og aftur að falla í þá freistni að láta ósjálfbæra gengisstyrkingu krónunnar vega á móti innlendum verðbólguþrýstingi. Sagan sýnir að slík stefna frestar verðbólgu til skamms  tíma en safnar fóðri fyrir kröftugt verðbólguskot þegar gengið fellur að lokum. Það verður ekkert öðru vísi nú.

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA.

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu í dag, fimmtudaginn 11. febrúar 2016.

Samtök atvinnulífsins