Fréttir - 

15. ágúst 2017

SA fagna nýjum tón Seðlabankans

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

SA fagna nýjum tón Seðlabankans

Við nýjan tón kvað hjá Má Guðmundssyni, Seðlabankastjóra, í nýlegu viðtali við Bloomberg-fréttaveituna. Hann sagði raunvexti á Íslandi fara lækkandi, innflæðishöft yrðu afnumin á næstunni (þó hugsanlega í skrefum) og að virkni peningastefnunnar hefði aukist samfara auknum trúverðugleika hennar.

Við nýjan tón kvað hjá Má Guðmundssyni, Seðlabankastjóra, í nýlegu viðtali við Bloomberg-fréttaveituna. Hann sagði raunvexti á Íslandi fara lækkandi, innflæðishöft yrðu afnumin á næstunni (þó hugsanlega í skrefum) og að virkni peningastefnunnar hefði aukist samfara auknum trúverðugleika hennar.

Frá ársbyrjun 2014 hefur verðbólga verið undir markmiði Seðlabankans, samhliða ákaflega aðhaldssamri peningastefnu hans. Frá árslokum 2008 hefur peningastefnan verið framkvæmd innan fjármagnshafta. Höftin fólust einkum í takmörkunum á útflæði fjármagns en þau voru felld brott í mars 2017. Enn eru þó við lýði höft á innflæði fjármagns erlendra aðila, sem voru innleidd í júní 2016. 

Tíðinda af næsta vaxtaákvörðunarfundi Seðlabankans, 23. ágúst næstkomandi, er beðið með eftirvæntingu.

Á undanförnum misserum hefur gagnrýni Samtaka atvinnulífsins á peningastefnu Seðlabankans einkum byggst á tveimur meginatriðum.

1) Raunvextir á Íslandi eru allt of háir

Verðbólga hefur verið undir markmiði í 42 mánuði samfleytt og verðbólguvæntingar til næstu ára undir markmiði síðastliðið ár. Raunvextir á Íslandi eru mun hærri en meðal þeirra landa sem við viljum bera okkur saman við og peningalegt aðhald mjög mikið. Krónan hefur styrkst um 10% síðustu 12 mánuði sem hefur valdið verðhjöðnun vöru og þjónustu. Halda ber því til haga að frá því verðbólgumarkmiði var náð í ársbyrjun 2014 hefur Seðlabankinn kerfisbundið spáð meiri verðbólgu en raunin hefur verið vegna gengisstyrkingar krónunnar.

2) Innflæðishöft eru skaðleg og ber að aflétta

Innflæðishöft hefta erlenda fjárfestingu á sama tíma og innlendir aðilar flytja fjármuni sína erlendis í kjölfar afléttingar útflæðishafta, og skaða þar af leiðandi íslenskt efnahagslíf til lengri tíma. AGS benti nýverið á að samfara lækkandi nafnavöxtum hérlendis og hækkandi vöxtum erlendis falli brott rök fyrir innflæðishöftum. Höft eiga ekki að gegna lykilhlutverki í íslenskri hagstjórn líkt og þau gera nú. Í því samhengi má minna á að fjárfestingar erlendra aðila í ríkisskuldabréfum námu um þriðjungi af landsframleiðslu þegar mest lét á árunum fyrir 2008, en nú er hlutur þeirra 4%.

Nýr tónn Seðlabankans vekur vonir um að hann sýni í verki að innflæðishöftin séu óþörf og að haldið verði áfram viðleitni til lækkunar raunvaxta. Tíðinda af næsta vaxtaákvörðunarfundi Seðlabankans, 23. ágúst næstkomandi, er beðið með eftirvæntingu.

Samtök atvinnulífsins