Vinnumarkaður - 

27. maí 2016

Réttindi og skyldur á vinnumarkaði rædd í Bítinu

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Réttindi og skyldur á vinnumarkaði rædd í Bítinu

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins ræddi um réttindi og skyldur á vinnumarkaði í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Þorsteinn Víglundsson, sagði það rétt hjá verkalýðshreyfingunni að í einhverjum tilvikum væri pottur brotinn, einkum þegar kæmi að réttri skráningu og launagreiðslum til erlendra starfsmanna. „Það er mjög alvarlegt og við höfum fordæmt slíkt,“ sagði Þorsteinn en vísaði því til föðurhúsanna að SA láti sig þessi mál engu varða eins og formaður Framsýnar-stéttarfélags hélt fram í vikunni.

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins ræddi um réttindi og skyldur á vinnumarkaði í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Þorsteinn Víglundsson, sagði það rétt hjá verkalýðshreyfingunni að í einhverjum tilvikum væri pottur brotinn, einkum þegar kæmi að réttri skráningu og launagreiðslum til erlendra starfsmanna. „Það er mjög alvarlegt og við höfum fordæmt slíkt,“ sagði Þorsteinn en vísaði því til föðurhúsanna að SA láti sig þessi mál engu varða eins og formaður Framsýnar-stéttarfélags hélt fram í vikunni.

„Við tókum þátt í því að byggja upp vinnustaðaeftirlit með verkalýðshreyfingunni á sínum tíma,“ sagði Þorsteinn en árið 2010 var ákveðið að gera tímabundið átak í þessum efnum milli ASÍ og Samtaka atvinnulífsins.  Samtök atvinnulífsins réðu tvo starfsmenn til að sinna þessu verkefni einvörðungu og vörðu tugum milljóna króna til þess á árabilinu 2011-2013. Á þessum þremur árum voru 80 prósent allra eftirlitsferða á vegum SA og afgangurinn af hálfu þeirra fjölmörgu starfsmanna verkalýðsfélaga um allt land sem falið hafði verið að sinna verkefninu.

„Við sögðum að við litum ekki á það sem hlutverk okkar til langframa að vera eftirlitsaðili með atvinnulífinu. Það eru lögskipaðir aðilar og stofnanir sem hafa það hlutverk eins og t.d. Vinnueftirlitið, Vinnumálastofnun og skatturinn.“

Þorsteinn benti jafnframt á að Samtök atvinnulífsins stundi viðamikla ráðgjöf til aðildarfyrirtækja sinna um hvernig eigi að standa rétt að málum gagnvart starfsfólki sínu. „Það má ekki gleyma því að fjölmörg tilvik sem koma upp eru byrjendamistök ungra fyrirtækja þar sem menn eru að stíga sín fyrstu skref í atvinnurekstri og hreinlega vita ekki betur.“ Í þeim tilvikum er þörf á góðri leiðsögn um hvernig haga skuli málum. „En sem betur fer eru mjög fá tilvik sem við sjáum þar sem virðist vera um ásetningsbrot eða einbeittan brotavilja að ræða.“ Þorsteinn segir það staðfest með því eftirliti sem er til staðar.

„Í öllum þorra tilvika eru mál í mjög góðu lagi hjá fyrirtækjum og við höfum stutt það eindregið að skattayfirvöld, Vinnumálastofnun og Vinnueftirlitið séu að sinna þessu eftirliti. Við teljum það mikilvægt og að það hafi skilað mjög góðum árangri.“

Samtök atvinnulífsins telja mikilvægt að meginþorri heiðarlegra fyrirtækja sé ekki hafður fyrir rangri sök í umræðunni en hvetja megi alla til að gera betur. Verkalýðshreyfingin standi sig vel í ráðgjöf til starfsmanna og Samtök atvinnulífsins sinni ráðgjöf sömuleiðis til aðildarfyrirtækja SA. Þetta hafi virkað vel en hafa verði varann á þegar efnahagslífið sé í örum vexti.

Smelltu til að hlusta á viðtalið

Samtök atvinnulífsins