Menntamál - 

06. maí 2014

Plús í kladdann

Áherslur SA

Samstarf og samskipti

Áherslur SA

Samstarf og samskipti

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Plús í kladdann

Lengi hefur verið rætt um mikilvægi þess að ná fram breytingum á íslensku menntakerfi. Um þær hafa hins vegar verið skiptar skoðanir; meðan sumir hafa tekið sér varðstöðu um óbreytt fyrirkomulag eru aðrir sem mælt hafa fyrir róttækum breytingum á inntaki, uppbyggingu og lengd náms.

Lengi hefur verið rætt um mikilvægi þess að ná fram breytingum á íslensku menntakerfi. Um þær hafa hins vegar verið skiptar skoðanir; meðan sumir hafa tekið sér varðstöðu um óbreytt fyrirkomulag eru aðrir sem mælt hafa fyrir róttækum breytingum á inntaki, uppbyggingu og lengd náms.

Innan atvinnulífsins hefur lengi verið sú skoðun að brýnt sé og reyndar óumflýjanlegt að breyta íslensku skólakerfi með það í huga að efla framleiðni og samkeppnishæfni þess.

Samtök atvinnulífsins leggja áherslu á mikilvægi þess að huga að inntaki og skipulagi kennaramenntunar, eflingu lesturs, stærðfræði og upplýsingatækni, sveigjanleika á milli skólastiga, einstaklingsmiðaðuðu námi, valfrelsi eða styttingu námstíma til loka framhaldsskóla, svo dæmi séu nefnd. Allir þessir þættir geta stuðlað að kröftugra og samheppnishæfara skólakerfi en vert er að hafa í huga að útgjöld Íslands til menntamála nema 8% af landsframleiðslu og eru þau mestu í samanburði við ríkustu lönd heims. Engu að síður er árangur íslenska menntakerfisins í meðallagi þegar kemur að erlendum könnunum eins og PISA.  Er varasamt að afgreiða þá rannsókn út af borðinu með því að segja hana ekki mæla réttu hlutina. Miklu frekar eiga niðurstöðurnar að vera hvatning til að gera betur.

Kjarasamningar framhaldsskólakennara

Ein af stóru breytunum til þess að skapa grundvöll fyrir nútímavæðingu menntakerfisins eru kjarasamningar kennara. Því er forvitnilegt að fara yfir nýgerðan kjarasamning framhaldsskólakennara. Í upphafskafla hans eru ákveðin fyrirheit gefin um að skapa innan framhaldsskóla þau starfsskilyrði sem nauðsynleg eru til að markmið framhaldsskólalaga frá 2008 nái fram að ganga. Gott og vel. En hvað þýðir það í fljótu bragði? Hvað er í raun verið að kaupa sem réttlætir allt að 29% hækkun launa þegar samið var á hinum almenna vinnumarkaði um mjög hóflegar launahækkanir til að ýta undir efnahagslegan stöðuleika til lengri tíma litið?

Við fyrstu sýn er ýmislegt jákvætt eins og yfirlýsingar ráðherra í ríkisstjórn um endurskoðun á reiknilíkani framhaldsskóla, nýtt fjármagn inn í erfiðan rekstur framhaldsskólanna og endurmenntun framhaldsskólakennara en endurmenntun kennara á öllum skólastigum er mikilvæg,ekki síst vegna örrar þróunar og ákalls um breytingar á kennsluháttum. En það er fleira sem er eftirtektarvert.

Aukið frelsi í skipulagi kennslu

Fyrst ber að nefna fjölgun kennsludaga og að skil milli kennslu og prófatíma verða afnumin. Þetta er fagnaðarefni því aukið frelsi í skipulagi kennslu gefa færi á betri nýtingu á tíma kennara og nemenda sem getur m.a. haft jákvæð áhrif á skipulag verknámsgreina. Aukin samfella í námi er líklegri til að halda nemendum betur við efnið.  Jafnframt styður þessi breyting betur við styttingu námstíma þótt sú þróun sé nú þegar hafin eins og nám við Kvennaskólann í Reykjavík og Menntaskólann í Borgarnesi sýnir og fyrirhugaðar breytingar hjá Verslunarskóla Íslands bera með sér.

Í kerfisbreytingum, sem fela í sér betri nýtingu tíma og aukinn sveigjanleika á milli skólastiga,  liggja tækifæri til að ýta undir fjárfestingu í nýjum kennsluháttum, öflugri kennaramenntun og síðast en ekki síst betri kjörum kennara. Allir þessir þættir eru til þess fallnir að stuðla að aðlaðandi vinnuumhverfi fyrir ungt fólk sem gjarnan vill leggja kennarastarfið fyrir sig. Um það ætti að nást samstaða í samfélaginu.

Vinnumatskerfið 

Annar mikilvægur liður í kjarasamningunum eru ákvæði er tengjast vinnumati kennara en ætlunin er að kjósa um nýtt vinnumatskerfi í febrúar árið 2015. Vinnumatið og þær úreltu tímamælingar sem því fylgja hafa haft allt of stýrandi áhrif á mótun skólastarfs á öllum skólastigum. Jákvætt er að endurskoða á vinnumatskerfið en hugsanlegar breytingar á því eru þó líkt og tveir fuglar í skógi en enginn í hendi, enn sem komið er. Ábyrgð þeirra sem um þetta semja á næstu mánuðum er því mikil. Framhaldið skiptir hér miklu.

Fleiri þætti hefði verið æskilegt að endurskoða í tengslum við kjarasamningana eins og kennslu- eða vinnuafslátt en við 60 ára aldur minnkar vinnuskylda kennara um ríflega fimmtung á ári með auknum tilkostnaði fyrir skólana sem ekki er metinn í reiknilíkani framhaldsskóla. Það var hins vegar ekki gert.

Kærkomið tækifæri ef menn kjósa svo

Í heildina litið eru nýir kjarasamningar við framhaldsskólakennara krefjandi verkefni en um leið kærkomið tækifæri fyrir alla þá sem vilja stuðla að auknu svigrúmi og sveigjanleika í skólastarfi. Fyrir þá sem koma að gerð slíkra samninga getur verið snúið að koma þeim í gegn því ýmsir hagsmunir takast á sem oft er erfitt að samræma. Getur þrýstingur oft verið þungur og erfiður. Þess þá heldur má virða það við samningsaðila að nú er reynt að taka skref  sem enn er frekar smátt en getur, ef rétt er á málum haldið, verið þýðingarmikið og stórt þegar litið er til eflingar á íslensku menntakerfi. Framsýni er oft ekki metin fyrr en eftir á. En fyrir þá glufu sem nú er opnuð má alveg gefa plús í kladdann.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, forstöðumaður mennta- og nýsköpunarsviðs SA.

Samtök atvinnulífsins