Fréttir - 

21. apríl 2015

Nýtt rit SA: Gerum betur

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Nýtt rit SA: Gerum betur

Samtök atvinnulífsins hafa gefið út nýtt rit þar sem er að finna tillögur að því hvernig gera má Ísland að betri stað til að búa á, starfa og reka fyrirtæki. Ritið heitir Gerum betur en þar er bent á nauðsyn þess að efnahagsumhverfið sé stöðugt svo hægt sé að skapa betri lífskjör og auka kaupmátt heimilanna.

Samtök atvinnulífsins hafa gefið út nýtt rit þar sem er að finna tillögur að því hvernig gera má Ísland að betri stað til að búa á, starfa og reka fyrirtæki. Ritið heitir Gerum betur en þar er bent á nauðsyn þess að efnahagsumhverfið sé stöðugt svo hægt sé að skapa betri lífskjör og auka kaupmátt heimilanna.

Lítil verðbólga, lágir vextir og stöðugt gengi krónunnar auðvelda stjórnendum fyrirtækja að hugsa til lengri tíma. Þá aukast fjárfestingar, vöruþróun og nýsköpun eykst og markaðssókn eflist. Með elju og forsjálni auka fyrirtækin verðmætasköpun.

Samstillt hagstjórn
Samstillt hagstjórn, þar sem vinnumarkaður og opinber fjármál styðja við markmið peningastefnu, dregur úr sveiflum í gengi krónunnar og rekstrarskilyrði útflutnings- og samkeppnisgreina verða stöðugri. Áhrifin verða jákvæð og margþætt. Íslendingar eru auðug þjóð. Tækifærin eru mörg og með skynsemi og ábyrgð í efnahagsmálum er unnt að leysa úr læðingi nýja krafta og enn fleiri tækifæri, sem geta skilað lífskjörum í fremstu röð.

undefined

Þjóðhagsráð, afnám hafta og ný peningastefna
Í riti SA eru margþættar tillögur en þar er m.a. lagt til að komið verði á fót sérstöku þjóðhagsráði sem í eigi sæti oddvitar ríkisstjórnarinnar á hverjum tíma, Seðlabankastjóri og forsvarsmenn aðila vinnumarkaðarins. Ráðið hafi á sínum snærum hagfræðinga sem leggi sjálfstætt mat á þróun og horfur í efnahagslífinu og vinni úttekt á þróun ríkisfjármála, efnahagslegum forsendum kjarasamninga og framkvæmd þeirra ásamt skilvirkni peningastefnunnar.

Í ritinu er fjallað um farsælt afnám hafta en aðstæður til afnáms þeirra geta vart verið betri en um þessar mundir.  Einnig er hvatt til þess að ný peningastefna verði mótuð sem geti tekist á við opið hagkerfi. Mikilvægt er að stíga viðbótarskref í umbótum á peningastefnunni sem felist í því að Seðlabankinn horfi í auknum mæli til þróunar raungengis og hafi heimild til að beita sér gegn ósjálfbærri hækkun raungengis. Þannig er unnt að sporna gegn verulegu ytra ójafnvægi sem leiðréttist að lokum með gengisfalli krónunnar. Einnig er regluleg endurskoðun peningastefnunnar nauðsynleg og að henni komi breiður hóps sérfræðinga í stjórnsýslunni, aðila vinnumarkaðar, alþjóðastofnana og fræðimanna. Markmiðið er ekki aðeins að styrkja peningastefnuna heldur einnig að tryggja aukna sátt og stuðning við framkvæmd stefnunnar, bæði vinnumarkaðar og hins opinbera.

Betri árangur í fjármálum ríkisins
Samtök atvinnulífsins kalla eftir betri árangri í fjármálum ríkisins en ríkissjóður er skuldum hlaðinn og eru vaxtagjöld einn stærsti útgjaldaliður fjárlaga. Á sama tíma vaxa útgjöld ríkisins og hefur það sjaldan verið umsvifameira í íslensku hagkerfi. Snúa þarf af braut útgjaldavaxtar og hefja niðurgreiðslu ríkisskulda, ekki síst til að búa í haginn fyrir öldrun þjóðarinnar.

Hornsteinn hagstjórnar
Bent er á mikilvægi þess að ráðist verði í umbætur á vinnumarkaði að norrænni fyrirmynd en vinnumarkaðurinn er hornsteinn hagstjórnarinnar. Samningar um kaup og kjör skipta mjög miklu um þróun efnahagsmála. Laun eru um 60% af allri verðmætasköpun í landinu. Launahækkanir umfram aukningu verðmæta leiða því undantekningalítið til verðbólgu.

Ábyrg fyrirtæki
Síðast en ekki síst er fjallað um starfsumhverfi fyrirtækja og kallað eftir einfaldara og skilvirkara eftirlitskerfi. Ekkert lát er á stríðum straumi stjórnvaldsfyrirmæla. Í stjórnartíðindum birtast, á hverjum degi, alla daga ársins að jafnaði fjórar nýjar reglugerðir, lög, reglur, gjaldskrár og önnur fyrirmæli sem stjórnvöld þurfa að koma á framfæri við fólkið í landinu. Frá aldamótum er fjöldi birtinga orðinn um 20 þúsund. Engin leið er að nokkur maður geti fylgst með þessu flóði sem meðal annars markar rekstrarumhverfi fyrirtækjanna.

Fyrirtæki bera ábyrgð á eigin rekstri og það er þeirra hagur að starfa í samræmi við lög og reglur. Samtök atvinnulífsins leggja áherslu á að við einföldun kerfisins verði ekki dregið úr efnislegum kröfum eða öryggi almennings heldur leitast við að samræma kröfur, einfalda eftirlit, draga úr kostnaði og auka samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Meðal þess sem lagt er til er að 10 heilbrigðiseftirlitsumdæmi verði sameinuð í eina stofnun, Heilbrigðiseftirlit Íslands.

Miðar í rétta átt
Fyrir ári síðan settu Samtök atvinnulífsins metnaðarfulla  stefnu: Að Ísland verði á meðal 10 samkeppnishæfustu þjóða heims innan 10 ára (10/10 Betri lífskjör). Frá því að markmiðið var sett hefur Ísland færst upp um fjögur sæti á lista IMD yfir samkeppnishæfni þjóða. Landið er því fjórum sætum ofar á listanum en það var árið 2013 og fimm sætum ofar en árið 2010.

Það er til mikils að vinna að komast ofar á lista IMD en bætt samkeppnishæfni stuðlar að aukinni fjölbreytni og arðsemi í íslensku atvinnulífi. Aukin samkeppni skapar aðhald og eykur hagvöxt. Hún er forsenda bættra lífskjara enda er sterk fylgni milli samkeppnishæfni þjóða og landsframleiðslu á hvern íbúa.

Nýtt rit SA má nálgast hér að neðan:

Gerum betur (PDF)

Tengt efni:

10/10 Betri lífskjör (PDF)

Samtök atvinnulífsins