Fréttir - 

09. október 2015

Mikill kraftur og gerjun í íslenskum sjávarútvegi

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Mikill kraftur og gerjun í íslenskum sjávarútvegi

Það eru spennandi tímar í íslenskum sjávarútvegi en það kom glöggt fram á Sjávarútvegsdeginum sem fram fór í vikunni. Yfirskrift dagsins var Hvað er að frétta? og ljóst að það er engin gúrkutíð í sjávarútvegi. Fjárfestingar í greininni aukast mikið milli ára í skipum, fasteignum og búnaði auk þess sem sjávarútvegsfyrirtæki vinna að fjölbreyttum nýsköpunarverkefnum út um allt land. Á ráðstefnunni kom fram að ný og gjöful humarmið fundust nýverið við Ísland og byltingarkennd tækni frá Marel var kynnt. Einnig var sagt frá framsækinni vöruþróun og markaðsstarfi, mikilvægi stöðugs og fyrirsjáanlegs rekstrarumhverfis, jákvæðum áhrifum vaxandi ferðaþjónustu og rætt um ábyrgð sjávarútvegsfyrirtækja.

Það eru spennandi tímar í íslenskum sjávarútvegi en það kom glöggt fram á Sjávarútvegsdeginum sem fram fór í vikunni.  Yfirskrift dagsins var Hvað er að frétta? og ljóst að það er engin gúrkutíð í sjávarútvegi. Fjárfestingar í greininni aukast mikið milli ára í skipum, fasteignum og búnaði auk þess sem sjávarútvegsfyrirtæki vinna að fjölbreyttum nýsköpunarverkefnum út um allt land. Á ráðstefnunni kom fram að ný og gjöful humarmið fundust nýverið við Ísland og byltingarkennd tækni frá Marel var kynnt. Einnig var sagt frá framsækinni vöruþróun og markaðsstarfi, mikilvægi stöðugs og fyrirsjáanlegs rekstrarumhverfis, jákvæðum áhrifum vaxandi ferðaþjónustu og rætt um ábyrgð sjávarútvegsfyrirtækja.

Í fremstu röð
Forsætisráðherra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, flutti ávarp í upphafi Sjávarútvegsdagsins og talaði um hversu framarlega íslenskur sjávarútvegur stendur í alþjóðlegu samhengi. Jónas Gestur Jónasson, löggiltur endurskoðandi og meðeigandi Deloitte ehf. kynnti rekstrarniðurstöður greinarinnar fyrir árið 2014, Rósa Guðmundsdóttir, framleiðslustjóri sjávarútvegsfyrirtækisins G.Run í Grundarfirði ræddi um ábyrgð fyrirtækja, Hallveig Ólafsdóttir, hagfræðingur hjá SFS fjallaði um fasta og breytur í íslenskum sjávarútvegi, Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis hf. flutti erindi um nýja hugsun í sjávarútvegi og markaðstækifæri með nýrri tækni og þá dró Örvar Guðni Arnarson, fjármálastjóri Ísfélagsins upp framtíðarsýn fyrir fjárfestingar í sjávarútvegi.

Þá var rætt við þrjá stjórnendur í gegnum Skype, Þorstein Másson, einn eiganda Icelandic Fish Export í Bolungarvík, Guðmund H. Gunnarsson, framleiðslustjóra Skinneyjar-Þinganes á Hornafirði og Sigurð Viggósson, framkvæmdastjóra Odda hf. á Patreksfirði.

Glærukynningar og stutta samantekt ásamt viðtölunum má nálgast hér að neðan:

20 milljón máltíðir á dag

undefined
Íslenskur fiskur er uppistaðan í 20 milljónum máltíða á degi hverjum í þeim rúmlega 80 löndum sem kaupa íslenskt sjávarfang. Á síðasta ári nam útflutningur sjávarafurða 654 þúsundum tonna og verðmæti þeirra var 244 milljarðar króna. Sjávarafurðir voru 41% af heildarútflutningsverðmætum þjóðarinnar og beint framlag sjávarútvegsins til landsframleiðslu var 12% árið 2014.

Ísland hefur mikla sérstöðu í samanburði við stærstu fiskveiðiþjóðir heims þar sem sjávarútvegur er ríkisstyrktur. Í máli Hallveigar Ólafsdóttur, hagfræðings hjá SFS, kom fram að hvert veitt tonn sem Norðmenn veiða kosti norska ríkissjóðinn 19.000 krónur meðan hvert veitt tonn af íslenskum skipum skili 3.700 krónum í ríkissjóð. Fjárfesting útgerðarinnar skilar einnig meiri arði hér þar sem hvert íslenskt fiskiskip kemur með rúmlega tvöfalt meiri afla að landi en norsk og um helmingi færri skipverjar standa að baki hverju veiddu tonni á íslensku skipunum.

Glærur Hallveigar (PDF)

Aukin fjárfesting
Jónas Gestur Jónasson, löggiltur endurskoðandi og meðeigandi hjá Deloitte, sagði í erindi sínu að ljóst sé af rekstrartölunum að íslenskur sjávarútvegur standi styrkum fótum.  Tekjur og framlegð sjávarútvegsfélaganna stóð í stað á milli áranna 2013 og 2014. Framlegðin var 61 milljarður króna og 23% af heildartekjunum. Jónas segir að frá árinu 2008 hafi safnast upp mikil fjárfestingarþörf sem skýri væntanlega tvöföldun fjárfestinga í greininni milli áranna 2013 og 2014.  Heildarfjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum námu 27 milljörðum króna á síðsta ári og hafa ekki verið meiri frá árinu 2002.

Glærur Jónasar (PDF)

Sjávarútvegurinn og lykiltölur - bæklingur Deloitte.

Byltingarkennd tækni

undefined
Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis, sagði að rekstur fyrirtækja í sjávarútvegi hafi batnað á síðustu árum, tekjur ríkissjóðs hafi aukist og starfsemi tæknifyrirtækja blómstri vegna þjónustu við útgerðina. Hann segir íslenska tækniþekkingu lykilinn að nýrri hugsun og nýrri nálgun í fiskvinnslunni sem miðar að því að gera hliðarafurðir verðmætari og auka verðmæti á hefðbundnum afurðum. Innan fyrirtækis hans hefur verið unnið að þróun nýrrar skurðarvélar í samstarfi við Marel sem nýtir hvert fiskflak betur en áður og sker það niður í þá bita sem kaupendur vilja hverju sinni. Framleiðslugeta vélarinnar er 500 bitar á mínútu, eða 250 máltíðir. Pétur sagði vélina bæði auka gjaldeyristekjur þjóðarinnar og skapa nýjan tekjugrunn með nýjum og verðmætum útflutningsvörum.

Glærur Péturs (PDF)

Myndband af nýrri vél Marel

Samfélagsábyrgð í sjávarútvegi
Rósa Guðmundsdóttir, framleiðslustjóri sjávarútvegsfyrirtækisins G.Run í Grundarfirði ræddi um samfélagsábyrgð, en G. Run er með 80 manns í vinnu á sjó og í landi eða um 9% vinnandi fólks í Grundarfirði. Rósa dró fram lykilþætti sem þurfa að vera til staðar í ábyrgum rekstri. Fyrirtæki geri vel við sitt fólk, styrki nærumhverfið, hlúi að innviðum, hugsi til framtíðar og sjálfbærni.

Glærur Rósu  (PDF)

Umfangsmiklar fjárfestingar
Örvar Guðni Arnarson, fjármálastjóri Ísfélagsins, ræddi um fjárfestingar í sjávarútvegi og framleiðslugetu sjávarútvegsins. Hann benti á að Ísfélagið hafi framleitt um 63 þúsund tonn af afurðum síðastliðna 12 mánuði eða sem nemi um 1.700 kcal á hvern Íslending hvern dag!

Örvar sagði mikilvægt að rekstrarumhverfi væri stöðugt til að fyrirtæki ráðist í umfangsmiklar fjárfestingar. Nefndi hann sem dæmi að nýtt skip geti kostað á bilinu 3-4 milljarða og nýr frystiklefi rúman milljarð en fjárfestingin borgar sig upp á löngum tíma og því ekki ráðist í hana nema leikreglur og veiðifyrirkomulag liggi fyrir.

Glærur Örvars (PDF)

Skype viðtöl:

Þorstein Másson, einn eiganda Icelandic Fish Export í Bolungarvík.

Guðmundur H. Gunnarsson, framleiðslustjóri Skinneyjar-Þinganes á Hornafirði

Sigurður Viggósson, framkvæmdastjóri Odda hf. á Patreksfirði.

Samtök atvinnulífsins, Deloitte og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi stóðu að Sjávarútvegsdeginum 2015. Fundarstjóri var Karen Kjartansdóttir, samskiptastjóri SFS.

 undefined

Samtök atvinnulífsins