Samkeppnishæfni - 

02. nóvember 2017

Litla Ísland

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Litla Ísland

Flest ný störf verða til í litlum fyrirtækjum. Þau eru mikilvæg uppspretta nýsköpunar og framþróunar í atvinnulífinu á öllum sviðum. Sem dæmi hefðu Íslendingar hefðu ekki geta brugðist við örri fjölgun ferðamanna undanfarin ár nema vegna þess að litlu fyrirtækin brugðust við og svöruðu kalli eftir aukinni þjónustu.

Flest ný störf verða til í litlum fyrirtækjum. Þau eru mikilvæg uppspretta nýsköpunar og framþróunar í atvinnulífinu á öllum sviðum. Sem dæmi hefðu Íslendingar hefðu ekki geta brugðist við örri fjölgun ferðamanna undanfarin ár nema vegna þess að litlu fyrirtækin brugðust við og svöruðu kalli eftir aukinni þjónustu.

Flest þessi fyrirtæki verða til vegna þess að einstaklingar og fjölskyldur stofna til rekstrar til að sjá sér og sínum farborða. Þau njóta ávaxtanna þegar vel gengur en taka um leið áhættuna ef illa fer.

Það er líflegt á Litla Íslandi og hvet ég alla áhugasama um rekstur smáfyrirtækja og uppbyggingu atvinnulífsins til að slást í hópinn. Stóra lausnin er smá!

Það er skylda stjórnvalda að sjá til þess að rekstrarskilyrði þessara fyrirtækja séu góð. Það á að vera einfalt að stofna fyrirtæki og hefja rekstur. Eftirliti og stjórnvaldskröfum verður að stilla í hóf. Hlutfallslega eiga lítil fyrirtæki mun erfiðara með að uppfylla umfangsmiklar skriffinnskukröfur en þau sem stærri eru.

Tryggingagjaldið, sem er skattur á launagreiðslur fyrirtækja, er einnig sérstaklega erfitt litlum fyrirtækjum. Launakostnaður þeirra er  yfirleitt þyngsti kostnaðarliðurinn í rekstrinum. Gjaldið dregur því úr getu þeirra til nýsköpunar, vöruþróunar og markaðssóknar.

Í atvinnulífinu er gróskan mest hjá litlu fyrirtækjunum, þau bregðast fljótt við breyttum aðstæðum og frá þeim og starfsmönnum þeirra fá ríki og sveitarfélög verulegan hluta af skatttekjum sínum. Það er því skynsamlegt að þeir sem nú ræða um myndun nýrrar ríkisstjórnar í landinu leggi áherslu á að fjölga litlum og meðalstórum fyrirtækjum.

Það er auðvelt að kæfa lággróðurinn með flóknu eftirliti, þunglamalegum leyfisveitingum og þrúgandi skattheimtu. En við góð og samkeppnishæf rekstrarskilyrði spretta upp ný fyrirtæki sem eykur tekjur hins opinbera og að auðveldara verður að takast á við samfélagleg verkefni á næstu árum.

Litla Ísland er verkefni samtaka í atvinnulífinu og á vegum þess er að hefjast röð opinna funda þar sem unnt er að fræðast um helstu atriði sem lítil fyrirtæki þurfa að glíma við. Litla Ísland er á Facebook: www.facebook.com/litlaisland og í vikunni opnar nýr vefur Litla Íslands á www.litlaisland.is. 

Það er líflegt á Litla Íslandi og hvet ég alla áhugasama um rekstur smáfyrirtækja og uppbyggingu atvinnulífsins til að slást í hópinn. Stóra lausnin er smá!

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 1. nóvember 2017.

Samtök atvinnulífsins