Vinnumarkaður - 

28. febrúar 2017

Kjarasamningar halda gildi sínu

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Kjarasamningar halda gildi sínu

Þrátt fyrir að ein af þremur forsendum kjarasamninga SA og aðildarsamtaka ASÍ hafi brostið varð niðurstaða aðila sú í dag að fresta viðbrögðum vegna forsendubrests þar til í febrúar 2018. Kjarasamningum aðila verður því ekki sagt upp að þessu sinni.

Þrátt fyrir að ein af þremur forsendum kjarasamninga SA og aðildarsamtaka ASÍ hafi brostið varð niðurstaða aðila sú í dag að fresta viðbrögðum vegna forsendubrests þar til í febrúar 2018.  Kjarasamningum aðila verður því ekki sagt upp að þessu sinni.

Samkomulag SA og ASÍ er eftirfarandi:

„Í kjarasamningum Samtaka atvinnulífsins og aðildarsamtaka Alþýðusambands Íslands frá maí, júní og ágúst 2015 eru ákvæði um samningsforsendur og uppsagnarmöguleika. Þannig er heimilt að segja upp samningum miðað við febrúarlok 2017 með tilvísun til forsendubrests og skal rökstudd ákvörðun tilkynnt í síðasta lagi fyrir kl. 16:00 þann 28. febrúar 2017. Í samningunum segir jafnframt að standist forsendur þeirra ekki skuli samningsaðilar leita sameiginlega viðbragða.

Forsendunefnd samninganefndar aðildarsamtaka ASÍ og SA hefur komist að þeirri niðurstöðu að fyrsta og síðasta af þremur tilgreindum forsendum hafi gengið eftir. Hún hefur jafnframt komist að þeirri niðurstöðu að forsendan um að launastefna og launahækkanir samninganna, að teknu tilliti til kjarasamnings aðila frá 21. janúar 2016, hafi verið stefnumarkandi fyrir aðra kjarasamninga, hafi ekki staðist. Þessi forsendubrestur heimilar uppsögn kjarasamninga aðila.

Samninganefnd aðildarsamtaka ASÍ og framkvæmdastjórn SA hafa rætt um sameiginleg viðbrögð við þeirri stöðu sem upp er komin og komist að eftirfarandi niðurstöðu:

Launahækkanir í kjarasamningum sveitarfélaga og Félags grunnskólakennara frá nóvember 2016 og Félags tónlistaskólakennara frá janúar 2017 hafa verið meiri  en felst í sameiginlegri launastefnu rammasamkomulags ASÍ, BSRB, SA, ríkisins, Sambands sveitarfélaga og Reykjavíkurborgar 27. október 2015.

Á árinu 2017 kemur fjöldi kjarasamninga til endurnýjunar. Rúmist niðurstaða þeirra innan launastefnu rammasamkomulagsins fellur niður sú uppsagnarheimild sem nú er frestað. Í því felst að aðrir samningsaðilar á vinnumarkaði muni fallast á að launaliðir síðustu kjarasamninga FG og FT skapi ekki fordæmi fyrir hækkanir hjá öðrum. Gangi það ekki eftir, að mati forsendunefndar, hefur samninganefnd aðildarsamtaka ASÍ heimild til að segja upp kjarasamningum aðila, enda sé það gert fyrir kl. 16:00 þann 28. febrúar 2018 og tekur sú uppsögn þá þegar gildi.“

Sjá nánar:

Niðurstaða forsendunefndar ASÍ og SA 28.2.2017 (PDF)

Samkomulag ASÍ og SA 28.2.2017 (PDF)

Yfirlýsing samninganefndar aðildarsamtaka ASÍ og framkvæmdastjórnar SA 28.2. 2017 (PDF)

Samtök atvinnulífsins