Menntamál - 

19. febrúar 2015

Formaður SA: Vits er þörf

Menntun í fyrirtækjum

Menntun í fyrirtækjum

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Formaður SA: Vits er þörf

„Vits er þörf, þeim er víða ratar“, segir í Hávamálum og á það ekki síður við í dag en fyrir um 750 árum. Þekking, kunnátta og færni eru hverjum einstaklingi mikilvæg og það sama má segja um samfélagið allt. Augljóst er að tengja almenna menntun, rannsóknir, nýsköpun og þróun við betri afkomu einstaklinga og framfarir í þjóðfélaginu. Því betur sem menntun er fyrir komið þeim mun meiri væntingar er unnt að gera um hagsæld og velferð. Þetta sagði Björgólfur Jóhannsson, formaður SA, m.a. í upphafi menntadags atvinnulífsins 2015 sem nú stendur yfir á Hilton Reykjavík Nordica. Um þrjú hundruð manns úr atvinnulífi, stjórnmálum og menntakerfinu taka þátt í deginum.

„Vits er þörf, þeim er víða ratar“, segir í Hávamálum og á það ekki síður við í dag en fyrir um 750 árum. Þekking, kunnátta og færni eru hverjum einstaklingi mikilvæg og það sama má segja um samfélagið allt. Augljóst er að tengja almenna menntun, rannsóknir, nýsköpun og þróun við betri afkomu einstaklinga og framfarir í þjóðfélaginu. Því betur sem menntun er fyrir komið þeim mun meiri væntingar er unnt að gera um hagsæld og velferð. Þetta sagði Björgólfur Jóhannsson, formaður SA, m.a. í upphafi menntadags atvinnulífsins 2015 sem nú stendur yfir á Hilton Reykjavík Nordica. Um þrjú hundruð manns úr atvinnulífi, stjórnmálum og menntakerfinu taka þátt í deginum.

Í ræðu sinni sagði Björgólfur ennfremur:

En hver og einn aflar sér ekki einungis menntunar í skólum og löng skólaganga hentar einstaklingum misvel. Alla ævina sækir fólk sér aukna menntun og færni í bókum, á vinnustöðum, með þjálfun og af samskiptum við aðra. Þekkingin gengur mann af manni, frá kynslóð til kynslóðar og sífellt bætist í þann brunn sem unnt er að leita í. Á síðustu árum hefur svo orðið auðveldara en nokkru sinni að afla upplýsinga um hvað eina sem mannshugurinn óskar.

Samtök atvinnulífsins hafa á undanförnum árum lagt sívaxandi áherslu á menntamál og halda nú ásamt aðildarsamtökunum menntadag atvinnulífsins í annað sinn. Sjónum er einkum beint að deiglunni í menntakerfinu, breytingum á starfsnámi og framlagi fyrirtækja til menntunar.

Það er nauðsynlegt að tengja betur atvinnulífið og skólana þannig að þeir svari þörf fyrirtækjanna fyrir starfsfólk. Á undanförnum árum og jafnvel áratugum hefur áhersla skólakerfisins beinst fyrst og fremst að bóknámi. Í samkeppnislöndunum ljúka gjarnan tveir af hverjum þremur nemendum framhaldsskóla með verknámsprófi en þriðjungurinn lýkur framhaldsskóla með áherslu á bóknám. Hér á landi er þessu þveröfugt farið og tveir af hverjum þremur taka bóknám til stúdentsprófs. Þetta er m.a. ástæða þess hve margir nemendur, einkum drengir, heltast úr lestinni í framhaldsskólunum. Skýringuna má að hluta til rekja til fábreyttari möguleika til menntunar hér á landi en annars staðar langt fram eftir 20. öldinni. Foreldrar töldu þá engan mann með mönnum nema með stúdentspróf. Og skólakerfið miðaðist við að koma sem flestum í gegnum menntaskóla.

En nú eru breyttir tímar. Foreldrar gerðu vel í því að kynna sér og börnunum sínum alla möguleika sem standa til boða í verk- og starfsnámi. Að námi loknu bjóðast ekki síðri tekjumöguleikar þar og tækifæri til frama en standa til boða stúdentum af bóknámsbrautum.

Það er mikilvægt að atvinnulífið og fyrirtækin veki athygli skólanna á starfsemi sinni og að í fyrirtækjunum vinni fólk með fjölbreytta menntun og margvíslegan bakgrunn. Með því að efla námsráðgjöf og auka innsýn kennara og nemenda í fjölbreyttar atvinnugreinar og alla starfsmöguleika, sem í boði eru, aukast líkur á því að einstaklingarnir finni sér farveg við hæfi.

Samtökin telja mikilvægt að menn ljúki námi í framhaldsskóla fyrr en nú er og að námslok geti orðið við 18 ára aldur. Það kallar líka á hagræðingu í grunnskólunum. Verulegum skorti á tækni- og iðnmenntuðu fólki má mæta t.d. með sérhæfðu námi á framhaldsskólastigi eða með því að flétta verknám inn í nám til stúdentsprófs. Í framhaldsskólum verður sérhæfing til starfa að hefjast af fullum krafti án þess að loka dyrum til frekara náms síðar. Það þarf að vera spennandi fyrir góða námsmenn að velja starfsnám í framhaldsskóla. Allt getur þetta unnið gegn því að unglingar hætti námi á framhaldsskólastigi en alltof margir gera það.

„Mennt er máttur“ er annað orðalag um hugsunina úr Hávamálum. Stóran hluta af menntun sinni öðlast fólk í vinnunni. Það lagar skólakunnáttuna að starfi sínu og kemur jafnvel auga á nýjar leiðir til að framkvæma hlutina. Fólk lærir í vinnunni. Vinnan er nám. Með markvissri þjálfun og fræðslu starfsmanna bæta fyrirtækin stöðu sína á markaði. Eftir því sem starfsmönnum býðst að bæta stöðugt við sig þekkingu og færni gengur fyrirtækjunum betur. Nýsköpun og þróun á sér stað fyrir hugkvæmni einstaklinga, verður til á ólíklegustu stöðum og er afrakstur markvissrar vinnu. Til að nýsköpun beri árangur þarf að skapa frumkvöðlaanda og réttar aðstæður innan fyrirtækja. Fólk úr ólíkum áttum með ólíkan bakgrunn og menntun fær tækifæri til að viðra hugmyndir sínar og leysir krefjandi verkefni í samvinnu.

Samstarf háskóla, rannsóknastofnana og atvinnulífs er nauðsynlegt til að ný þekking verði til og getur aukið framleiðni í fyrirtækjunum og verðmætasköpun. Kennsla um rekstur, stjórnun og markaðsmál á erindi í flestar námsgreinar í háskóla. Margir háskólar sem bítast um takmarkað fé og hlutfallslega fáa nemendur hljóta að vera dýrir samfélaginu. Það kallar á endurskipulagningu.

Eins og menntadagur atvinnulífsins ber með sér þá er gríðarleg gróska á þessu sviði. Við höfum séð og heyrt af málstofum hér fyrr í dag um fjölmarga spennandi hluti sem eru að gerast í ferðaþjónustu, sjávarútvegi, iðnaði, fjármálageiranum ásamt verslun og þjónustu. Fjöldi fyrirtækja er tilnefndur til menntaverðlauna atvinnulífsins. Þau standa einstaklega vel að fræðslu og menntun starfsmanna sinna og njóta einnig ávinningsins með aukinni ánægju starfsmanna, betri ímynd og aukinni verðmætasköpun.

Vísindin höfðu áreiðanlega aðra merkingu í hugum fólks á fyrri hluta 19. aldar en nú. Hugsunin er þó sú sama í Hávamálum forðum og í ljóði Jónasar Hallgrímssonar þar sem segir: „Vísindin efla alla dáð, orkuna styrkja, viljann hvessa, vonina glæða, hugann hressa, farsældum vefja lýð og láð.“

Við skulum nú sjá nokkur dæmi um þann ávinning sem öflugt menntastarf getur skilað fyrirtækjum, viðskiptavinum þess og starfsfólkinu.

Tengt efni:

Dagskrá menntadags atvinnulífsins 2015

BESbswyBESbswyBESbswyBESbswyBESbswyBESbswyBESbswyBESbswyBESbswyBESbswyBESbswyBESbswyBESbswyBESbswyBESbswyBESbswyBESbswyBESbswyBESbswyBESbswyBESbswyBESbswyBESbswyBESbswyBESbswyBESbswyBESbswyBESbswy

 

Samtök atvinnulífsins