Samkeppnishæfni - 

18. desember 2014

Flutningur raforku til heimila og fyrirtækja gæti hækkað um 50%

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Flutningur raforku til heimila og fyrirtækja gæti hækkað um 50%

Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins hafa sent Alþingi umsagnir um þingsályktun um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína og lagafrumvarps um kerfisáætlun við lagningu raflína. Málin eru tengd og varða uppbyggingu raforkukerfisins hér á landi til langs tíma.

Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins hafa sent Alþingi umsagnir um þingsályktun um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína og lagafrumvarps um kerfisáætlun við lagningu raflína. Málin eru tengd og varða uppbyggingu raforkukerfisins hér á landi til langs tíma.

Samtökin telja mikilvægt að sveitarfélögum verði skylt að gera ráð fyrir raflínum í kerfisáætlun í skipulagi sínu. Óeðlilegt er að sveitarfélög geti haldið endurbótum á flutningskerfi raforku í gíslingu svo árum skipti og komið þannig í veg fyrir eðlilegt orkuöryggi í öðrum landshlutum og tafið nauðsynlega uppbyggingu atvinnustarfsemi. Raforkukerfið er hluti af grunnstoðum samfélagsins svipað og samgöngur og fjarskipti sem verður að vera  unnt að byggja upp án óeðlilegra tafa.

Einnig kemur fram að samtökin hafa miklar áhyggjur af gríðarlegum kostnaði sem fylgir fyrirhugaðri uppbyggingu flutningskerfis raforku sérstaklega ef ákvörðun verður tekin um að sífellt stærri hluti þess verður lagður í jörð. Vísað er til upplýsinga frá Landsneti og rakin nokkur dæmi um nauðsynlegar gjaldskrárhækkanir bæði til almennings, almenns reksturs og stórnotenda.

Bent er á að verði heimilað að jarðstrengir megi verða 50% dýrari en loftlínur geti heildarhækkun gjaldskrár á flutningi raforku til almennra fyrirtækja og heimila orðið um 50% og um 36% til stórnotenda.

Samtökin telja nauðsynlegt að meta arðsemi einstakra framkvæmda og áhrif á gjaldskrár auk annarra þátta. Bent er á gæta þurfi þess að kostnaði við framkvæmdir vegna einstakra viðskiptavina verði ekki velt á alla gjaldskrá Landsnets.

Umsagnirnar má finna hér:

Umsögn um tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum nr. 65/2003, með síðari breytingum (kerfisáætlun)

Samtök atvinnulífsins