Villandi skýrsla Hagfræðistofnunar um stækkun álvers

Skýrsla Hagfræðistofnunar var kynnt á blaðamannafundi bæjaryfirvalda í Hafnarfirði en samkvæmt henni liggur tekjuauki Hafnfirðinga af stækkun álvers Alcan milli 3,4-4,7 milljörðum króna, að meðtöldum heildartekjum af Straumsvíkurhöfn, eða innan við 100 milljónir króna á ári að meðaltali. Hannes G. Sigurðsson, fjallaði um áhrif stækkunar álversins í Straumsvík á fundi í Hafnarborg þann 2. febrúar. Hannes benti á að ef álver Alcan starfaði í íslensku skattumhverfi, eins og samningur liggur fyrir um, þá væru tekjur bæjarins í dag um 490 milljónir króna, en eftir stækkun um 1.431 milljónir króna. Alls er þetta aukning um 941 milljón króna á ári.

 

Rétt er að taka fram að í skýrslu Hagfræðistofnunar er ekki er fjallað um aukin viðskipti Alcan við birgja í Hafnarfirði, en þau nema í dag um 1.400 milljónum króna. Áætlað er að þau muni aukast í 3.600 milljónir króna á ári komi til stækkunar. Af ofansögðu má sjá að ávinningur Hafnfirðinga af stækkun er margfaldur á við mat Hagfræðistofnunar.

 

Takmarkanir í aðferðarfræði Hagfræðistofnunar

Í skýrslu Hagfræðistofnunar er horft fram hjá veigamiklum þáttum sem hafa afgerandi áhrif á niðurstöðuna. Þeir veigamestu eru eftirfarandi:

 

Gert er ráð fyrir að íbúum og störfum fjölgi jafn mikið með stækkun og án hennar. Þetta fær ekki staðist því stækkunin er stigshækkun með tilheyrandi margfeldisáhrifum og síðan heldur langtímaþróunin áfram á hærra tekjustigi en áður. Án stækkunar verður engin skyndileg hækkun tekjustigs. Því er rangt að gera ráð fyrir því að verðmætasköpun í Hafnarfirði aukist ekki nema sem svarar til launamunar í störfum í stækkuðu álveri og meðallaunum í Hafnarfirði. Störf þeirra Hafnfirðinga sem hætta hjá öðrum fyrirtækum og hefja störf í stækkuðu álveri verða væntanlega mönnuð með starfsmönnum sem búa í öðrum sveitarfélögum. Nettófjölgun starfa í Hafnarfirði vegna stækkunar verður því nálægt þeim fjölda sem ræðst til starfa í álverinu og hjá birgjum þess.

 

Ekki er reiknað með því að álverið sé með undirverktaka. Eins og fram kom á fundi SA í Hafnarfirði eru áætlaðar beinar greiðslur til verktaka 3,1 milljarður á ári eftir stækkun eða sem svarar til 470 stöðugilda.

 

Útflutningstekjur koma ekki við sögu og margfeldisáhrif ekki heldur. Bæði Hafnarfjörður og Ísland þurfa á auknum útflutningstekjum að halda til þess að standa undir batnandi lífskjörum og rök fyrir því að líta til margfeldisáhrifa eiga sérstaklega við þegar skoðuð eru áhrif aukinnar útflutningsframleiðslu. Að skipta út álveri og fá almennan iðnað eða þjónustu fyrir heimamarkaðinn í staðinn hefur í för með sér samdrátt í efnahagslífinu.

 

Umhverfisáhrif vegna útblásturs eru einkum hnattræn og verða örugglega meiri ef ekki verður af stækkun því sú aukning sem kemur í staðinn verður af völdum framleiðslu í landi sem gerir minni umhverfiskröfur en Ísland.

   

Sjá nánari umfjöllun SA um áhrif af stækkun álvers Alcan:

 

Auknar tekjur Hafnarfjarðar

 

Fjölgun starfa í Hafnarfirði