Verðbólgan undir markmið á ný í fyrsta sinn í tvö og hálft ár Verðlag hækkaði um 0,67% í febrúar sl. og var hækkunin í takti við spá greiningaraðila. Ársverðbólgan mælist nú 2,1% og er því komin undir 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans í fyrsta skipti í tvö og hálft ár.

Heimild: Hagstofan
Almennt er mánaðartakturinn hár í febrúar vegna áhrifa útsöluloka en að þessu sinni eru áhrifin metin ríflega 0,40% til hækkunar verðlags sem er heldur minni áhrif en á sama tíma í fyrra. Að undanskildum útsöluáhrifum voru flugsamgöngur, eldsneyti og menning þeir undirliðir sem hækkuðu mest. Aðrir undirliðir verðbólgunnar stóðu nánast í stað eða lækkuðu lítillega.
Heimild: Hagstofan
Góðar horfur á árinu 2014 ef krónan helst stöðug
Krónan var að meðaltali 12% sterkari í febrúar 2014 en á sama tíma í fyrra. Í febrúarmælingu Hagstofunnar eru sterk gengisáhrif, innfluttir liðir eins og matvörur og ný ökutæki lækkuðu í verði. Að öðru óbreyttu má ætla að frekari gengisáhrif eigi eftir að koma fram á komandi mánuðum. Horfurnar eru almennt góðar að mati greiningaraðila og gerir Seðlabankinn ráð fyrir í nýrri spá bankans sem birtist í febrúarmánuði að verðbólgan víki ekki langt frá verðbólgumarkmiði á árinu 2014. Allar spár greiningaraðila ganga hins vegar út frá því að gengið verði stöðugt, gefi krónan verulega eftir frá núverandi gildi geta horfurnar fljótt breyst til hins verra.
Heimild: Seðlabankinn