Verðbólgan meiri en hægt er að sætta sig við

Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir í samtali við Morgunblaðið að verðbólgan sé miklu meiri en hægt sé að sætta sig við. Hún ógni þó ekki kjarasamningum eins og er. Forsendur nýgerðra kjarasamninga komi til skoðunar eftir tæpt eitt og hálft ár, eða í nóvember á næsta ári. Þá verði farið yfir það hver verðbólgan hafi verið á samningstímanum. „En það er mikilvægt viðfangsefni að ná henni niður þannig að þeir [kjarasamningarnir] muni halda þegar til skoðunar kemur í nóvember á næsta ári.“

 

Verðbólgan mælist nú 3,9% á ágrsgrundvelli eftir 0,77% hækkun vísitölu neysluverðs milli maí og júní. „Þetta er klárlega hærra en við höfum stefnt að. Segja má að það sé orðið þjóðfélagslegt markmið að verðbólgan sé innan við 2½% á ári,“ segir hann og vísar til samninga Seðlabanka Íslands og ríkisstjórnarinnar og kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. „Það þarf að grípa til aðgerða til að ná verðbólgunni niður,“ segir hann.

 

Hannes segir töluvert jafnvægisleysi í hagkerfinu um þessar mundir sem lýsi sér í miklum vexti einkaneyslu og fjárfestinga. Því fylgi aukinn viðskiptahalli. Spáð sé að hann verði 8% af landsframleiðslu á þessu ári og tíu til tólf prósent á næstu árum. „Þetta er í sjálfu sér mikið áhyggjuefni og getur valdið miklum óstöðugleika þegar fram líða stundir.“

 

Æskilegt að draga úr þenslu á fasteignamarkaði

Hannes telur að bregðast þurfi við þessu ástandi með mjög aðhaldssamri fjármálastjórn af hálfu hins opinbera. „Auk þess er sjálfsagt og eðlilegt að endurskoða áform um stórauknar lánveitingar til húsnæðiskaupa og húsnæðisbygginga því það er ekki síst verðbólga á fasteignamarkaðnum sem hefur hækkað verðbólgutaktinn að undanförnu. Það er vandséð þörfin fyrir frekari innspýtingar á þann markað. Þvert á móti væri æskilegt að reyna að draga úr þenslunni á þeim markaði.“

 

Spurður um áhrif verðbólgunnar á nýgerða kjarasamninga tekur hann fram að forsendur kjarasamninganna komi til skoðunar eftir tæpt eitt og hálft ár eða í nóvember á næsta ári. „Þá verður farið yfir það hver verðbólgan hefur verið á samningstímanum,“ segir hann en bætir því við að þetta sé miklu meiri verðbólga en að var stefnt. „En þetta ógnar ekki kjarasamningum eins og er. Það er þó mikilvægt viðfangsefni að ná henni niður, þannig að þeir muni halda þegar til skoðunar kemur í nóvember á næsta ári.“