Vel sóttur fundur um efnahagsbrot

Húsfyllir var á morgunverðarfundi SA og saksóknara efnahagsbrota sem fram fór á Grand Hótel Reykjavík en þar var rætt um efnahagsbrot, þolendur þeirra og afleiðingar. Sarah Jane Hughes, prófessor í lögum við Indiana háskóla, fjallaði um hvítflibbaglæpi út frá bandarískum sjónarhóli, Helgi Magnús Gunnarsson  saksóknari efnahagsbrota fjallaði um skipulag og framkvæmd efnahagsbrotarannsókna á Íslandi og Garðar G. Gíslason hdl. hjá Lex ræddi um brotalamir og réttarvernd. Fram kom á fundinum að stytta þyrfti málsmeðferðartíma rannsóknaraðila og nauðsynlegt væri að einfalda skipulag.

 

Góð umgjörð nauðsynleg

Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóri SFF, var fundarstjóri en í upphafsorðum hans kom fram að mikilvægt væri að öll umgjörð viðskiptalífsins væri í góðu horfi, þar á meðal rannsókn og meðferð efnahagsbrota. Sarah Jane Hughes tók því næst til máls og fjallaði um efnahagsbrot í bandarísku ljósi, m.a. gríðarlegt umfang bandarískrar löggjafar sem er ætlað að vinna gegn efnahagsbrotum og hvernig fyrirtæki geti varið sig gegn hvítflibbaglæpum og afleiðingum þeirra. Kynningu hennar má nálgast hér að neðan.

 

 

Stytta þarf málsmeðferð

Í ársbyrjun 2007 tók nýtt embætti saksóknara efnahagsbrota til starfa og kynnti Helgi Magnús Gunnarsson, saksóknari efnahagsbrota, skipulag og framkvæmd efnahagsbrotarannsókna á Íslandi. Í kynningu hans kom m.a. fram að augljóst væri að margt mætti bæta varðandi rannsóknir, ákærumeðferð og skipulag málaflokksins. Nefndi hann t.d. málsmeðferðartíma sem þyrfti að stytta, hnökra á dómsmeðferð mála, hraða starfsmannaveltu og skort á fjármagni.

 

 

Brotalamir og réttarvernd

Garðar G. Gíslason fjallaði í erindi sínu um brotalamir í efnahagsbrotarannsóknum og skerta réttarvernd þeirra sem fyrir efnahagsbrotarannsóknum verða. Sagði hann réttarvörslukerfið í mörgum tilvikum of flókið þegar komi að rannsókn efnahagsbrota – inn í það sé byggt flækjustig sem sé til þess fallið að draga alla meðferða mála á langinn og jafnvel hafi það verið svo að meintir brotamenn hafi ekki getað verið fullvissir um réttarstöðu sína á hverjum tíma. Þá hafi ágreiningur rannsóknaraðila eða einstakra embætta stjórnsýslunnar um valdmörk og skortur á samvinnu ekki bætt úr.

 

Garðar tók undir með saksóknara efnahagsbrota um að styrkja þurfi efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra verulega þannig að deildinni sé unnt að sinna þeim verkefnum sem undir hana heyra á eðlilegum tíma og með fullnægjandi hætti. Benti hann á frekari leiðir til úrbóta og sagði m.a. að íhuga þyrfti vandlega hvort breyta ætti skipulagi á tilhögun rannsókna efnahagsbrota í einhverjum tilvikum t.d. vegna stórfelldra skattalagabrota. Velti Garðar upp þeirri spurningu hvort embætti skattrannsóknarstjóra væri nauðsynlegur milliliður en þar á bæ þekkir Garðar vel til en hann starfaði áður sem aðstoðarskattrannsóknarstjóri.

 

Kynningar frummælenda frá fundi um efnahagsbrot:

 

Sarah Jane Hughes

 

Helgi Magnús Gunnarsson 

 

Garðar G. Gíslason