Uppsögn kjarasamninga?

Í gær kom fram í fréttum frá ASÍ að miðstjórnarmenn ASÍ hefðu orðið fyrir miklum vonbrigðum með viðbrögð atvinnurekenda og ríkisstjórnar við svokölluðum „áherslum ASÍ til lausnar á þeirri stöðu sem er í viðræðum um endurskoðun kjarasamninga“ og telur miðstjórn ASÍ einsýnt að til uppsagnar kjarasamninga muni koma að óbreyttu.

 

Þessi yfirlýsing hlýtur að teljast með miklum ólíkindum ef horft er til stöðu viðræðna milli aðila og þróunar kaupmáttar í landinu, en varanleg og traust hagfelld þróun kaupmáttar hlýtur að vera það sem starf aðila vinnumarkaðarins snýst um fyrst og síðast.

 

Vilji til lausnar

Samtök atvinnulífsins vilja fyrir sitt leyti leggja sitt af mörkum til þess að samningar geti haldið. Af þeirri ástæðu hafa þau viljað ganga til lausnar á þeirri stöðu sem nú er uppi á svipuðum forsendum og gert var við ámóta aðstæður á síðasta samningstímabili, þótt aðstæður atvinnurekstrarins séu miklu verri nú en þá var vegna hás gengis krónunnar. Forsenduákvæði samninga eru hin sömu. Þetta myndi leiða til þess að kostnaðarhækkun atvinnulífsins vegna hærri verðbólgu en búist var við væri svipuð hlutfallslega og fólst í viðbrögðum af sama tilefni á síðasta samningstímabili.

 

Lífskjarabati án hliðstæðu

Það er ekki um það deilt að forsenduákvæði kjarasamninga eru virk, einkum vegna verðlagsþróunar, þótt samningar annarra en ASÍ komi einnig til skoðunar. Engu að síður er ljóst að kaupmáttur er í sögulegu hámarki eins og rækilega er rakið í grein í þessu fréttabréfi. Auk þess sem þá er ótalið hvernig húsnæðisverðbólga undanfarinna missera horfir í raun við kjörum fólks. Kaupmáttur launa á almennum vinnumarkaði hefur vaxið um 4,2% frá upphafi yfirstandandi samninga og til þriðja ársfjórðungs þessa árs. Þar við bætist hækkað framlag vinnuveitanda til lífeyrissjóða um 1%.

 

Lífskjarabati síðustu 10 ára á sér vart hliðstæðu meðal þróaðra þjóða á svo skömmum tíma. Kaupmáttur launa alls launafólks hefur hækkað um 40% á þeim tíma en kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna enn meira, eða um 60%. Það er því ljóst að sú nálgun að gera svokallaða forsendusamninga til lengri tíma en áður var hefur nýst launafólki ekki síður en fyrirtækjum og efnahagslífinu í heild og fært landsmönnum meiri aukningu kaupmáttar en nokkru sinni fyrr. Það skiptir því miklu máli að það takist að standa vörð um þessi vinnubrögð. Verði snúið aftur í gamla farið núna getur tekið langan tíma að ná jafnvægi á ný. Má minna á að það var ekki fyrr en árið 1999 að sá kaupmáttur náðist aftur sem hér hafði verið árið 1980!

 

Gagnkvæm heimild til uppsagnar

Þótt uppsögn samninga standi ekki til af hálfu vinnuveitenda er því ekki að neita að þær raddir heyrast nú meðal þeirra að rétt væri að Samtök atvinnulífsins segðu upp kjarasamningum til að losna undan þeim miklu kostnaðarhækkunum sem framundan eru að óbreyttu. Ákvæði samninga um mögulega uppsögn eru nefnilega gagnkvæm.

 

Staða fyrirtækja sem búa við alþjóðlega samkeppni hefur versnað gríðarlega frá því að gengið var frá samningum vorið 2004 og firnasterkt gengi íslensku krónunnar grefur undan undirstöðum íslensks atvinnulífs. Þessa hefur almenningur notið í kaupgetu gagnvart innflutningi og ferðalögum til útlanda. Allir vita að lánveitingar og þensla tengd íbúðamarkaði hefur verið helsta uppspretta þeirrar verðbólgu sem Seðlabankinn berst við með hækkunum stýrivaxta. Sú hótun vofir yfir atvinnulífinu að frekari launahækkanir leiði til enn meiri vaxtahækkana Seðlabanka, til að hemja verðbólgu, á meðan stjórnendur fyrirtækja ræða í alvöru um það hvort fyrirtækin muni halda út í 12-24 mánuði í viðbót.

 

Stjórnvöld axli ábyrgð

Hækkun á útgjöldum fyrirtækja við þessar aðstæður er því hið mesta óráð og einungis til þess fallið að fækka störfum og auka verðbólgu. Seðlabankinn mun væntanlega hækka stýrivexti sína enn meira en ella verði aukið við samningsbundnar hækkanir í kjarasamningum, sem umsvifalaust mun hækka gengi krónunnar. Á sama tíma er aðkoma stjórnvalda að íbúðalánamarkaði með þeim endemum að nú má taka lán hjá Íbúðalánasjóði á lægri vöxtum en hægt er að fá í ávöxtun með kaupum á bréfum sem gefin eru út af sjóðnum! Engar fréttir eru um að ríkið hyggist fylgja ábyrgu fordæmi Landsbankans, sem dregur nú í land varðandi lánshlutföll. Íslenskt atvinnulíf hlýtur því að spyrja hvort stjórnvöld ætli ekki að axla ábyrgð gagnvart því ástandi sem hefur skapast á íbúðalánamarkaði og grípa til aðgerða til að kæla þann markað. Eða á atvinnulífinu bara að blæða?

 

Í ljósi alls þess sem hér hefur verið rakið hlýtur atvinnulífið líka að spyrja hvort Alþýðusamband Íslands hafi í alvöru reiknað með því að atvinnulífið geti fallist á kostnaðarauka sem mælist í heilum prósentum við þessar aðstæður, til viðbótar þeim u.þ.b. 18 milljörðum króna sem launareikningur landsmanna hækkar um í janúarbyrjun að óbreyttu? 

 

Ari Edwald