Ungt fólk á vinnumarkaði fær fjármálafræðslu

Ungt fólk á höfuðborgarsvæðinu, sem margt er nú í sínu fyrsta launaða starfi, mun fá tilsögn í að ráðstafa launum sínum á ábyrgan hátt. Vinnuskólinn í Reykjavík mun í júlí halda tveggja daga ráðstefnu um starfstengd efni fyrir hina ungu starfsmenn sína og hefur farið þess á leit við Unga frumkvöðla, sem eru frjáls félagsamtök, að þau fræði unglinga um fjármál þar.

 

Hvatt til þátttöku í atvinnulífinu

Ungir frumkvöðlar hafa það að markmiði að mennta og hvetja ungt fólk til þátttöku í atvinnulífinu og ábyrgðar í fjármálum. Starfsemin gengur út á að þróa og innleiða hagnýtar þjálfunaráætlanir og námsefni  á þessu sviði fyrir ungt fólk og er það gert í samvinnu við fyrirtæki og skóla. Námsefni Ungra frumkvöðla (www.jai.is) er sérhannað fyrir grunnskóla og framhaldsskóla og hefur verið unnið mikið starf við að þýða og staðfæra námsefnið fyrir íslenskar aðstæður. Námsefnið er boðið skólum og nemendum að kostnaðarlausu. Ungir frumkvöðlar (Junior Achievement International) starfa alls í 112 löndum víðs vegar um heiminn og hafa starfað á Íslandi frá árinu 2002.

 

Hundruð nemenda tekið þátt

Á síðasta ári tóku um 600 nemendur í mörgum skólum þátt í tveimur námskeiðum ungra frumkvöðla; Framtíðarsmiðjunni og Fyrirtækjasmiðjunni. Framtíðarsmiðjan er fyrir 14 -15 ára þar sem unglingarnir velta fyrir sér hlutverki sínu í samfélaginu, fjármálum og framtíðaráætlunum sínum. Fyrirtækjasmiðjan er fyrir framhaldskólanemendur og er það þekktasta námskeið Ungra frumkvöðla um allan heim en þar stofna nemendur ímyndað fyrirtæki og reka í 13 vikur og öðlast  þar með reynslu í fyrirtækjarekstri. Evrópukeppni Ungra frumkvöðla verður í Berlín í lok júlí og mun lið frá Borgarholtsskóla taka þátt í henni. Samtök atvinnulífsins eru meðal stuðningsaðila Ungra frumkvöðla.