Unga fólkið bjartsýnt á framtíð Íslands

PSN-samskipti gerðu á dögunum könnun á viðhorfum ungs fólks til hnattvæðingar, alþjóðlegrar samkeppni og samkeppnishæfni Íslands, og á framtíðaráformum ungmennanna. Könnunin var gerð að beiðni SA og safnað var svörum 615 Íslendinga á aldrinum 19-20 ára. Óhætt er að segja að niðurstöðurnar séu um margt fróðlegar og ánægjulegar. Meðal þeirra má nefna:           

  • 86% telja hnattvæðingu og vaxandi alþjóðlega samkeppni hafa góð áhrif á sín tækifæri í framtíðinni, 4% telja áhrifin slæm en 10% tóku ekki afstöðu. Þeir sem eru í skóla eru ívið jákvæðari en þeir sem eru á vinnumarkaði.

  • 81% telja líklegt að Ísland verði á meðal tíu samkeppnishæfustu hagkerfa heims á næstu tíu árum, þar af telja rúm 7% að Ísland verði í fyrsta sæti og rúm 47% að Ísland verði áfram meðal fimm efstu. 9% telja að Ísland muni færast niður fyrir topp tíu og 10% tóku ekki afstöðu. Ísland mælist nú 4. samkeppnishæfasta hagkerfi heims skv. IMD viðskiptaháskólanum í Sviss.

  • 78% vilja helst starfa hjá einkafyrirtæki í framtíðinni, þar af um helmingur við eigin atvinnurekstur eða 37%. 13% vilja helst starfa hjá ríki eða sveitarfélögum en 9% tóku ekki afstöðu. Athyglisvert er að áhugi á störfum hjá hinu opinbera er talsvert meiri meðal kvenna en karla (23% á móti 6%).

  • Aðspurð um hvað sé mikilvægast að leggja áherslu á til að viðhalda eða bæta sterka stöðu Íslands nefna flest ungmennin öflugt menntakerfi (28%), rannsóknir og nýsköpun (15%), stöðugt efnahagsumhverfi (13%) og lága skatta (12%).

SA og unga fólkið

Samtök atvinnulífsins heimsóttu í vetur fimm framhaldsskóla víðs vegar um landið og funduðu með útskriftarnemum um framtíðaráform þeirra og sýn á framtíð lands og þjóðar. Upp úr fundunum stóð jákvætt viðhorf nemendanna til framtíðarinnar og þeirra áskorana sem Ísland stendur frammi fyrir. Í kjölfarið ákváðu SA að láta gera könnun á viðhorfum þessa aldurshóps og óhætt er að segja að niðurstöðurnar séu mikið fagnaðarefni. Það er hugur í unga fólkinu og bjartsýni fyrir Íslands hönd. Samtök atvinnulífsins vilja að byggt verði á þessum krafti og haldið áfram á þeirri braut að tryggja íslensku atvinnulífi samkeppnishæf starfsskilyrði og þannig lagður grunnur að enn betri lífskjörum íslensku þjóðarinnar.

 

Um könnunina

Könnun PSN-samskipta fyrir SA var símakönnun, gerð dagana 31. mars til 9. apríl. Safnað var svörum 615 ungmenna (fædd 1986 – 20 ára í ár) eftir tilviljunarúrtaki úr þjóðskrá, sem var kvótaskipt eftir kyni og búsetu til að tryggja rétta dreifingu. Könnuninni verður dreift á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins 25. apríl.