Umfang flutninga minnst hérlendis, útstreymi eykst lítið

Fyrir nokkru kom út hjá Umhverfisstofnun Evrópu skýrsla um flutninga og umhverfið. Þar er lýst nokkrum áhyggjum vegna sífellt aukinna flutninga á vörum sem hafi í för með sér aukið útstreymi CO2 og dragi úr þeim ávinningi sem annars hafi náðst við að draga úr almennri umhverfismengun. Aukning á fólksflutningum helst í hendur við aukna landsframleiðslu. Flutningar á vegum aukast hlutfallslega meira en aðrir flutningar.

 

Umfang flutninga minnst hér á landi

Athyglisvert er að skoða þær upplýsingar sem fram koma um Ísland í skýrslunni. Þar er meðal annars að finna meðfylgjandi töflu þar sem fram koma upplýsingar um umfang flutninga með hliðsjón af landsframleiðslu.

 

Umfang flutninga 1

 

Eins og sjá má á samanburðinum fyrir núverandi aðildarríki EES auk Búlgaríu og Rúmeníu er umfang flutninga minnst hér á landi á þennan mælikvarða árið 2003. Lítils háttar aukning hefur orðið frá 1995. Ástæða þess hve flutningar innanlands eru hér litlir eru sennilega helstar þær að langstærstur hluti landsmanna er búsettur á tiltölulega litlu svæði. Einnig eru nokkrar hafnir á landinu þar sem skip í millilandasiglingum hafa viðkomu og flytja til landsins hráefni og taka fullunnar vörur til baka og er þar einkum um fiskafurðir og afurðir stóriðjufyrirtækja að ræða.

 

Lestir víðast með lítið vægi í flutningum

Þegar litið er til hlutfalls vegaflutninga kemur ekki á óvart að það skuli vera 100% á Íslandi en hitt kemur meira á óvart að í Bretlandi til dæmis skuli 90% flutninga vera á vegum þrátt fyrir víðfeðmt lestarkerfi þar í landi. Þetta má sjá nánar hér í meðfylgjandi töflu:

Umfang flutninga 2

Útstreymi vegna flutninga eykst fremur lítið hérlendis

Í töflunni hér fyrir neðan má sjá hvernig útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá flutningum hefur breyst á árabilinu 1990 til 2003. Fram kemur að útstreymið hér á landi hefur aukist um 15% á tímabilinu og er það töluvert minna en meðaltalið sem eru 24% ef horft er til 15 „eldri“ aðildarríkja ESB. Þetta er einnig athyglisvert því á sama tíma hefur landsframleiðsla hér á landi vaxið að raungildi um 36%, fólksbílum fjölgað um 34% og sendibílum, vörubílum og hópbílum um 70% samkvæmt upplýsingum af vef Hagstofunnar.

 

Umfang flutninga 3

Skýrslu Umhverfisstofnunar Evrópu má finna hér á vef stofnunarinnar.