Um vinnutíma á Íslandi

Eftirfarandi er athugasemd frá SA sem birt er í Morgunblaðinu:

 

„Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins er að finna all ítarlega umfjöllun um ráðstefnuna Hve glöð er vor æska? Þar eru þau ummæli meðal annars höfð eftir aðstoðarframkvæmdastjóra Alþýðusambands Íslands, úr pallborðsumræðum á ráðstefnunni, að það sé gamalkunnug staðreynd að Íslendingar séu með lengstan vinnutíma í Evrópu að Rúmenum undanþegnum. Hins vegar er í umfjöllun blaðsins ekki getið athugasemda fulltrúa Samtaka atvinnulífsins við þessi ummæli, en Gústaf Adolf Skúlason, forstöðumaður stefnumótunar- og samskiptasviðs Samtaka atvinnulífs, var meðal frummælenda á ráðstefnunni og tók þar þátt í pallborðsumræðum. Gústaf gerði meðal annars athugasemd við fyrrgreind ummæli um vinnutíma á Íslandi og benti á að hér væru til dæmis kaffitímar ávallt taldir með í slíkri tímatalningu, ólíkt því sem gerist víðast annars staðar. Þá gerðu kjarasamningar skrifstofufólks til dæmis ráð fyrir mun lengri vinnutíma á viku í Svíþjóð en á Íslandi, svo dæmi væri tekið. Gústaf sagði vinnutímann vissulega langan hjá mörgum á Íslandi, en gerði sem fyrr segir athugasemd við þessa framsetningu sem hann sagði villandi.

 

Samanburður á vinnutíma milli landa er flókinn og nokkrir þættir valda mikilli bjögun upp á við í niðurstöðum mælinga á vinnutíma á Íslandi. Gildir það bæði um vinnutímakannanir þar sem fólk er spurt um eigin vinnutíma og mælingar sem byggjast á upplýsingum úr launabókhaldi fyrirtækja. Þessar bjaganir valda því að flestir standa í þeirri trú að vinnutími hér á landi sé almennt mun lengri en í nálægum löndum. Það er ekki rétt, þótt vissulega séu dæmi um langan vínnutíma í vissum atvinnugreinum og starfsstéttum. Í fyrsta lagi munar miklu á greiddum og unnum vinnustundum hjá tímakaupsfólki og felst munurinn í greiddum neysluhléum, þ.e. kaffitímum. Víða erlendis eru slík hlé ekki greidd og teljast þ.a.l. ekki til mælds vinnutíma. Í öðru lagi er greiðsla yfirvinnutímakaups mun algengari hér á landi en í öðrum löndum og er ýmislegt í ákvæðum kjarasamninga sem veldur því að umtalsverður munur er á greiddum og unnum yfirvinnustundum, m.a. af völdum vinnu í matar- og kaffitímum á yfirvinnutímabili. Í þriðja lagi er orlof tiltölulega langt hér á landi og sérstakir frídagar eru óvíða fleiri. Alþjóðlegur samanburður á ársvinnutíma gefur því réttari mynd af raunverulegum vinnuskilum fólks en styttri tímabil, eins og t.d. vika. Í alþjóðlegum samanburði væri því eðlilegast að bera saman raunverulega unnar stundir á ári. Það gæfi allt aðra mynd af vinnutíma á Íslandi í samanburði við aðrar þjóðir en sú sem dregin er upp á grundvelli greiddra stunda á viku, en því miður eru engar alþjóðlegar staðtölur til á þeim grundvelli.

 

Vinnutíminn að styttast

Í erindi sínu á ráðstefnunni greindi Gústaf meðal annars frá því að vinnutími fólks í fullu starfi hefur verið að styttast á Íslandi, og vitnaði til launakönnunar Hagstofu Íslands í því samhengi. „Samkvæmt launakönnun Hagstofunnar hefur meðalvinnutími fólks í fullu starfi á almennum vinnumarkaði verið að styttast. Á tímabilinu 1998 til 2004 styttist þannig meðalvinnutími karla um 2,1 klukkustund og var 45,7 klukkustundir árið 2004. Á sama tíma styttist meðalvinnutími kvenna um 1,1 klukkustund og var 43,9 klukkustundir árið 2004, eða 2,2 klukkustundum styttri en hjá körlum,“ sagði Gústaf meðal annars. Hann sagði vinnutímann  vissulega langan hjá mörgum Íslendingum en lagði jafnframt áherslu á það að allar mælingar á neyslu væru hér í algerum toppi og skuldastaða heimilanna sömuleiðis. Vinnuveitendur gætu skapað aðstæður fyrir aukinn sveigjanleika starfsfólks gagnvart fjölskyldulífi. Það væri hins vegar einstaklinganna sjálfra að velja og forgangsraða í sínu lífu.“

 

Sjá erindi Gústafs af ráðstefnunni Hve glöð er vor æska?, þar sem hann fjallaði m.a. um vinnutíma, framleiðniaukningu, sumarlokanir leikskóla og vetrarfrí grunnskóla.