Tvöföldun gjaldeyristekna fyrir lok árs 2012

Í ræðu sinni á aðalfundi Samtaka ferðaþjónustunnar fjallaði Jón Karl Ólafsson, formaður samtakanna, m.a. um vaxandi umsvif greinarinnar. Fram kom í máli hans að á árinu 2003 komu hingað til lands um 320.000 ferðamenn, og  fjölgaði þeim um 15% frá árinu áður. Tekjur af erlendum ferðamönnum voru tæplega 40 milljarðar og jókst hlutur ferðaþjónustu af gjaldeyristekjum úr 12% í 13,1% á árinu. Jón Karl sagði það hafa verið mikla framsýni að leggja í stóraukna markaðssókn fyrir Ísland í kjölfar hryðjuverkana 11. september 2000, þegar flestar aðrar þjóðir kusu að halda að sér höndum í markaðsstarfi.

 

Að sögn Jóns Karls eru horfur almennt góðar fyrir árið 2004 og ekkert sem bendir til annars en að erlendum gestum okkar muni fjölga áfram á þessu ári.  Samtökin vilja að stefnt verði að tvöföldun gjaldeyristekna af ferðaþjónustu fyrir lok árs 2012 og að beinar gjaldeyristekjur verði þá komnar í a.m.k. 80 milljarða króna. Til þess að þetta megi ganga eftir sagði Jón Karl nauðsynlegt að tryggja betri arðsemi fyrirtækja í ferðaþjónustu og að greinin verði talin áhugaverður fjárfestingarkostur hjá innlendum sem erlendum fjárfestum. Hann sagði þetta háleit markmið og mikla vinnu framundan til að tryggja þau, en afkoma fyrirtækja í greininni hefði almennt ekki verið nægilega góð.

 

Þá fjallaði Jón Karl um sveiflur í gengi krónunnar og þá erfiðleika sem þeim fylgja, vaxtakostnað, aukna samvinnu ferðaþjónustufyrirtækja á ferðasýningum erlendis o.fl.

 

Sjá ræðu Jóns Karls á vef SAF.