Þungar refsingar vegna skattalagabrota – breytinga þörf

Tólf þingmenn úr öllum stjórnmálaflokkum hafa lagt fram frumvarp á Alþingi um breytingu á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda og lögum um virðisaukaskatt. Lagt er til að dómstólar fái aukið svigrúm til að dæma lægri sektir við skattalagabrotum þegar ljóst er að einungis er um vanskil að ræða en ekki sviksamlegt athæfi.

 

Tímabær umræða

Umræða þessi er löngu tímabær að mati Samtaka atvinnu-lífsins. Ótrúlega þungir dómar hafa fallið á hendur einstakl-ingum vegna skattalagabrota fyrirtækja sem lent hafa í vanskilum með virðisaukaskatt og staðgreiðslu opinberra gjalda. Forsvarsmenn fyrirtækja, iðulega framkvæmdastjórar, hafa verið ákærðir og þeim gert að greiða himinháar sektir en sæta fangelsi ella. Að mati Samtaka atvinnulífsins hefur löggjafinn gengið of langt með því að ákvarða lágmarks-refsingu í lögum og útiloka jafnframt að dómstólar geti tekið tillit til aðstæðna í einstökum málum.

 

Háar sektir

Samkvæmt lögum um virðisaukaskatt skal sá sem afhendir ekki virðisaukaskattsskýrslu eða virðisaukaskatt á réttum tíma greiða fésekt allt að tífaldri þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin eða vanrækt var að greiða og aldrei lægri fésekt en nemur tvöfaldri þessari skattfjárhæð. Sambærileg ákvæði um lágmarksrefsingu er að finna í lögum um stað-greiðslu opinberra gjalda og um tekjuskatt og eignarskatt. Stórfelld brot varða einnig við almenn hegningarlög.

 

Oft getur verið um háar fjárhæðir að ræða. Í nýlegum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur var forsvarsmaður fyrirtækis dæmdur til greiðslu sektar að fjárhæð 121 milljón króna. Var þar um að ræða lágmarkssekt samkvæmt lögum. Vanskil fyrirtækisins á gjalddaga námu 60,5 milljónum króna en eftir gjalddaga höfðu verið greiddar 52 milljónir af skuldinni. Eftir stóðu 8,5 milljónir en þar sem miða skal við skuld á gjalddaga var sektin ákvörðuð 121 milljón eins og áður sagði.

 

Lágmarkssamræmi milli brota og refsiviðurlaga

Samtök atvinnulífsins eru að sjálfsögðu þeirrar skoðunar að refsa beri fyrir skattalagabrot og að viðurlög séu þess eðlis að þau hafi tilætluð varnaðaráhrif. Þó verður að gera þá kröfu að eitthvað lágmarkssamræmi sé í refsiviðurlögum. Mun þyngri dómar falla vegna skattalagabrota en annarra brota og telja verður að 121 milljón króna sekt vegna 8,5 milljóna króna skuldar við ríkissjóð sé nokkuð yfir því sem eðlilegt má telja í réttarríki.

 

Hafa verður í huga að þeir einstaklingar sem dæmdir eru vegna skattalagabrota eru í mörgum tilvikum heiðarlegt og grandvart fólk í forsvari fyrir fyrirtæki sem lent hafa í greiðsluerfiðleikum. Þekkt er að þegar fyrirtæki lenda í rekstrarerfiðleikum fresta fyrirsvarsmenn að greiða birgjum og innheimtumanni ríkissjóðs. Laun þarf hins vegar að greiða því ella stöðvast reksturinn. Mörgum fyrirtækjum hefur tekist að komast yfir slíka erfiðleika og með því hefur störfum verið bjargað. Skuldir hafa verið greiddar og engar ákærur gefnar út. Enginn lítur á þessa fyrirsvarsmenn sem glæpamenn heldur oft á tíðum sem einstaklega hæfa stjórnendur sem náðu að rétta fyrirtæki við og koma í veg fyrir mikið tjón viðskipamanna og annarra kröfuhafa svo ekki sé minnst á starfsfólk og byggðalögin. Ef það markmið næst ekki þá eru þeir afbrotamenn og skulu gjalda fyrir með eignamissi og jafnvel frelsissviptingu.

 

Bannað að líta til sérstakra aðstæðna

Sá galli er á skattalögunum að þau banna dómurum að líta til sérstakra aðstæðna til sektarlækkunar ólíkt því sem almennt gildir samkvæmt almennum hegningarlögum. Ekki er heimilt að líta til þátta eins og fjárhags einstaklingsins, hvort hann hafi hagnast persónulega á vanskilum skatta, hafi sjálfur lagt eigur sínar í reksturinn og tapaði fjármunum, skilað skilagreinum með réttum fjárhæðum og upplýst þannig skattayfirvöld um skuldir, jafnvel greitt skattskuldina síðar að fullu eða verulegan hluta hennar. Þessir þættir hafa einungis áhrif á ákvörðun refsingar samkvæmt hegningarlögum en við ákvörðun sekta er ekki heimilt að fara niður fyrir tvöfalda skattfjárhæð.

 

Innleiðing lágmarkssekta árið 1995 hafði í för með sér fjórföldun sektarfjárhæða því fyrir gildistöku laganna hafði sú dómvenja myndast að sektir næmu hálfri fjárhæð vanskilanna. Dómstólar hafa allt frá setningu laganna gefið löggjafanum til kynna að þeim finnist þessar refsingar of þungar. Þrátt fyrir að einstaklingur eigi engar málsbætur, hafi reynt að leyna brotinu og jafnvel hagnast persónulega þá er dæmd lágmarkssekt. Þegar dómstólar dæma lágmarkssekt í alvarlegum málum þá verður að draga þá ályktun að þeir hefðu viljað fella vægari dóma þegar málsbætur eru.

 

Mismunun kröfuhafa

Þegar fyrirtæki lendir í greiðsluerfiðleikum myndast gríðarlegur þrýstingur á fyrirsvarsmenn að greiða skuldir við ríkissjóð. Greiddar eru virðisaukaskattsskuldir og staðgreiðsla opinberra gjalda áður en fyrirtæki er tekið til gjaldþrotaskipta. Forsvarsmenn mega ganga út frá því að nái þeir að greiða skuldina upp að fullu þá verði ekki ákært fyrir skattalagabrot. Eftir sitja hins vegar aðrir kröfuhafar og tjón þeirra verður meira en ella. Þessi sérstaða ríkisins sem kröfuhafa fyrirtækja sem leiðir af sérstakri vernd sem kröfur þess njóta í formi óvanalega strangra refsiviðurlaga samkvæmt skattalögum er óviðunandi.

 

Ragnar Árnason