Störfum fjölgar í Hafnarfirði

Störfum í Hafnarfirði mun fjölga verulega komi til stækkunar álvers Alcan í Straumsvík. Starfsmönnum Alcan mun fjölga um rúmlega þrjú hundruð en fyrir hvert eitt starf sem skapast í álverinu verða til 2,4 afleidd störf annars staðar. Bein afleidd störf í Hafnarfirði verða eftir stækkun um fimm hundruð og áhrif á fyrirtæki í Hafnarfirði sem skipta við álverið munu verða mikil. Áætlað er að viðskipti Alcan við birgja í Hafnarfirði muni rúmlega tvöfaldast og nema um þremur og hálfum milljarði króna á ári eftir stækkun álversins. 

 

Hannes G. Sigurðsson

 

Kaup á aðföngum aukast verulega

Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SA, fjallaði nýverið um áhrif stækkunar álversins í Straumsvík á fundi SA og Alcan. Einkum fjallaði Hannes um áhrif stækkunarinnar á atvinnulíf í Hafnarfirði en einnig á íslenskt efnahagslíf almennt. Ljóst er að áhrifa stækkunarinnar mun gæta víða en ekki síst í Hafnarfirði. Í máli Hannesar kom t.a.m. fram að á síðasta ári hefði Alcan keypt aðföng af fyrirtækjum í Hafnarfirði fyrir rúmar 1.400 milljónir króna en búast mætti við að sú upphæð yrði um 3.600 milljónir króna eftir stækkun. Kaup á aðföngum hjá fyrirtækum utan Hafnarfjarðar munu einnig aukast umtalsvert og nema í heildina um átta og hálfum milljarði króna á ári.

 

Heildaráhrif á innlendan vinnumarkað

Í máli sínu vísaði Hannes G. Sigurðsson til úttektar Nýsis frá 2002 en Nýsir komst að þeirri niðurstöðu að fyrir hvert starf sem yrði til í álverinu í Sraumsvík  yrðu til 2,4 afleidd störf annars staðar og myndi því ársverkum fjölga um tæplega tólf hundruð á íslenskum vinnumarkaði kæmi til stækkunar. Margfeldisáhrifin yrðu veruleg og myndi heildarstarfsemi Alcan á Íslandi standa á bak við u.þ.b. 2.800-3.400 ársverk á höfuðborgarsvæðinu og allt að 5.600-6.800 manns hafa framfæri sitt af starfsemi álversins með beinum, óbeinum og afleiddum hætti. Hannes sagði að eftir stækkun álversins yrðu áætluð bein afleidd störf vegna starfseminnar 886, þar af um 500 í Hafnarfirði. Þar við bætast óbein áhrif vegna aukinna viðskipta og neyslu í Hafnarfirði sem ekki er lagt mat á.

 

Áætluð afleidd störf í Hafnarfirði vegna starfsemi Alcan

 

 

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, var fundarstjóri á fundinum og hvatti hann Hafnfirðinga til að samþykkja fyrirliggjandi tillögu að deiliskipulagi við álverið í Straumvík svo að stækkun gæti orðið að veruleika, því góð og vel launuð störf eins og Hafnfirðingum standi nú til boða ”detti ekki af himnum ofan.”

  

Vilhjálmur Egilsson 

 

Glærur Hannesar G. Sigurðssonar

 

Sjá einnig umfjöllun um tekjur Hafnarfjarðar vegna starfsemi Alcan