Skiptir aldur máli?

Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, spurði þessarar spurningar í erindi á ráðstefnu SA o.fl. um stöðu miðaldra fólks á vinnumarkaði. Hann fjallaði um hvernig umræðan um veikari stöðu miðaldra og eldra fólks kemur gjarnan upp þegar harðnar í ári á vinnumarkaði. Hann sagði allmarga telja eldra starfsfólki mismunað og þörf vera á sérstakri vernd fyrir það. Hins vegar benti Hannes á að eldra starfsfólk býr við lengri uppsagnarfresti en það yngra en slík ákvæði gætu reynst viðkomandi hópum bjarnargreiði ef þau gengju of langt. Þá sagði hann hugmyndir um lög- eða samningsbundin ákvæði um einhvers konar forgang háðan aldri augljóslega fela í sér íhlutun í stjórnun fyrirtækja og stjórnunarrétt stjórnenda og þannig vera í eðli sínu íþyngjandi fyrir atvinnureksturinn.

 

Könnun SA á viðhorfi til eldra fólks á vinnumarkaði

Í máli Hannesar kom fram að Samtök atvinnulífsins hafa tekið þessa umræðu mjög alvarlega. Í desember 2002 gerðu SA könnun meðal aðildarfyrirtækja og bárust svör frá rúmlega sex hundruð þeirra. Spurt var hvort eldra starfsfólk væri talið verðmætara, jafn verðmætt eða ekki eins verðmætt og það yngra. Svarendum var látið eftir að skilgreina við hvaða aldur þeir miða þegar talað er um „eldra“ og „yngra“ fólk. Niðurstaðan var sú að flestir töldu eldra starfsfólkið jafn verðmætt og það yngra, eða tæp 62%, en rúm 35% töldu það verðmætara. Tæp 3% töldu eldra starfsfólk hins vegar ekki jafn verðmætt og það yngra.

 

Mikil atvinnuþátttaka eldra fólks hérlendis

Þá hafa SA einnig ítrekað vakið athygli á þeim eiginleika íslenska vinnumarkaðarins að atvinnuþátttaka eldra fólks er mest hérlendis af öllum ríkjum OECD (sjá meðf. glærur). Lækkandi eftirlaunaaldur er víða áhyggjuefni, en hérlendis a.m.k. er mikil eftirspurn eftir eldra fólki á vinnumarkaði. Hannes sagði mikilvægt að standa vörð um þennan dýrmæta eiginleika íslensks vinnumarkaðar og umbuna fólki með auknum lífeyrisréttindum ef unnið væri lengur en til 67 ára aldurs, ætti það þess kost og kysi það. Hann sagði óvenju mikla atvinnuþátttöku eldra fólks á Íslandi sýna mikla spurn eftir því á vinnumarkaði. Gjarnan væri haft á orði að eldra starfsfólkið væri áreiðanlegt, samviskusamt og hefði ríka ábyrgðartilfinningu, auk þess að búa að mikilli þekkingu og reynslu.

 

Aukið atvinnuleysi yngra fólks

Þá fór Hannes yfir það hvernig aukning atvinnuleysis á árunum 2000 til 2003 (nýjustu aldursgreindu tölur) hefur einkum komið fram hjá yngra fólki. Þessi mismunandi aukning atvinnuleysis eftir aldri varð til þess að innbyrðis skipting eftir aldri breyttist verulega á milli áranna 2000 og 2003. Þannig var aðeins 12% atvinnulausra á aldrinum 16-24 ára árið 2000 en hlutfallið hækkaði í 21% árið 2003. Hlutfall atvinnulausra í næst yngsta hópnum (25-39) hækkaði einnig, eða úr 36% í 40%. Hlutfallið stóð nokkurn veginn í stað í aldurshópnum 40-59 ára en lækkaði verulega í elsta hópnum, úr 23% í 10% (sjá tölur í meðf. glærum).

 

Yngra fólkið sækir meira í starfsmenntun

Þá fjallaði Hannes meðal annars um nýlega norræna könnun, sem því miður náði ekki til Íslands, þar sem meðal annars kemur fram að kostnaður fyrirtækjanna vegna fjarveru eða veikinda er mun minni vegna eldri starfsmanna en þeirra sem yngri eru. Kostnaður vegna veikindafjarvista 55 ára og eldri var 30% minni en hjá 25-34 ára starfsmönnum og skýrist munurinn einkum af fjarvistum vegna fæðingarorlofs og veikinda barna. Hannes greindi einnig frá erindum einkarekinna vinnumiðlana við spurningum nefndar á vegum félagsmálaráðherra sem kannar stöðu miðaldra fólks á vinnumarkaði. Í svörunum kemur fram aukin áhersla atvinnurekenda á starfsreynslu undanfarin misseri og að miðlanirnar verði ekki varar við mismunun eftir aldri. Hins vegar greindi Hannes frá því að samkvæmt tölum frá starfsmenntasjóðum atvinnulífsins þá sækti yngra fólk meira í starfsmenntun en eldra fólkið (sjá tölur í meðf. glærum).

 

Lítil tengsl milli aldurs og stöðu á vinnumarkaði

Niðurstaða Hannesar af umfjöllun um fyrirliggjandi gögn um atvinnustig og atvinnuleysi eftir aldri var sú að ekki væri unnt að greina þá sem komnir væru á eða yfir miðjan aldur sem sérstakan áhættuhóp út frá aldrinum eingöngu. „Vissulega eiga margir einstaklingar í þessum aldurhópum við erfiðleika að etja en svo er einnig um marga sem yngri eru. Niðurstaðan er sú að lítil fylgni er á milli vanda á vinnumarkaði og aldurs og að aldurinn skipti máli, en þá almennt séð fremur til hagsbóta viðkomandi fremur en hitt.“

 

Að ráðstefnunni stóð áhugahópur um stöðu miðaldra fólks á vinnumarkaði, í samstarfi við SA, félagsmálaráðuneytið, Vinnumálastofnun, BSRB, VR, Félag bókagerðarmanna, Efling, Samband íslenskra bankamanna, Rafiðnaðarsambandið og Landssamtök lífeyrissjóða.

 

Sjá glærur Hannesar.