Skattpíndir Svíar flykkjast til Danmerkur

Umferð um Eyrarsundsbrúnna milli Svíþjóðar og Danmerkur hefur aukist um nærri 30% á þessu ári og er búist við því að umferðin muni aukast enn frekar á næsta ári. Ástæðan er einföld og hefur lítið að gera með dálæti Svía á frændum sínum. Skattar á laun í Danmörku eru lægri en í Svíþjóð og um áramótin verða skattar lækkaðir enn frekar í Danmörku. Það borgar sig því fyrir Svía sem búa á Skáni að keyra yfir til Danmerkur og vinna þar en eftir sitja sænskir atvinnurekendur  í erfiðleikum með að manna fyrirtækin sín. Þeir eru að verða undir í skattasamkeppni við nágranna sína og samkeppnisstaða þeirra fer versnandi þar sem laun í Danmörku eru að jafnaði hærri en í Svíþjóð, en tekjuskattur lægri.

 

Hærri laun og lægri tekjuskattur lokka Svía yfir Eyrarsundsbrúnna

 

Umdeilt fyrirkomulag

Fjallað er um málið á vef sænsku samtaka atvinnulífsins en þar kemur fram að umfang skattalækkana Dana um áramótin nemi um 12 milljörðum sænskra króna og eru margir sænskir launamenn staðráðnir í að njóta þessara lækkana. Svíar sem búa á Skáni en vinna í Danmörku greiða skatta sína í Danmörku og finnst sumum Svíum það umdeilanlegt. Áætlað er að skattalækkunin muni skapa um 7.300 ný störf í Danmörku.

 

Skattarnir stýra umferðinni

Ljóst er að skattabreytingar Dana munu hafa áhrif í Svíþjóð en atvinnurekendur á Skáni sjá fram á að þurfa að hækka laun til að mæta samkeppninni frá vinnumarkaðnum í Kaupmannahöfn.. Samkeppnisstaða þeirra versnar verulega um áramótin og jafnvel er búist við því að sum fyrirtæki þurfi að hætta rekstri. Veitingahúseigandi í Malmö segist gera ráð fyrir því að Svíum sem vinna í Danmörku verði gert að greiða sænska skatta í Svíþjóð og það muni draga úr umferðinni yfir sundið í kjölfarið. Lægri skattar í Svíþjóð myndu þó jafna samkeppnisstöðuna að hans mati. Nýtt umferðarmet yfir Eyrarsundsbrú á næsta ári fær Svía kannski til að hugleiða hvort það sé orðið tímabært að lækka tekjuskatt.