Skattahækkanir sveitarfélaga á fyrirtæki

Ákvarðanir um álagningu fasteignaskatta 2006 eru nú til umfjöllunar hjá sveitarstjórnum og liggja ákvarðanir þegar fyrir sums staðar, þar á meðal hjá Reykjavíkurborg. Fréttir um þetta efni hafa einkum einkennst af því að álagningarhlutfall fasteignaskatts verði lækkað til þess að koma í veg fyrir að borgarsjóður og aðrir sveitarsjóðir fái óvenju mikla tekjuhækkun vegna mikillar hækkunar á húsnæðisverði. Þannig hefur því verið haldið á lofti að fasteignaskattur í borginni lækki um 22% og álagningarstuðlar fasteignaskatts lækki úr 0,32% í 0,25% í þessu skyni. Að sögn borgarstjóra er tilgangurinn sá að fasteignaskattar hækki aðeins um sem samsvarar hækkun byggingarvísitölu eða um 5% að jafnaði. Hér er átt við fasteignaskatta á íbúðarhúsnæði.

 

Minna hefur hins vegar farið fyrir umfjöllun um álagningu fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði. Þó liggur fyrir að atvinnuhúsnæði hefur hækkað mikið í verði eins og íbúðarhúsnæði og hefur yfirfasteignamatsnefnd ákveðið 20% hækkun fasteignamats í Reykjavík, Kópavogi og fleiri bæjarfélögum en um 10% í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Það liggur fyrir að álagningarstuðlar á atvinnuhúsnæði verða óbreyttir hjá Reykjavíkurborg sem og hjá öðrum sveitarfélögum sem kunngert hafa um ákvörðun sína, þannig að ákvarðanir um skattahækkanir á atvinnulífið hafa víða verið teknar.  Í ljósi þessa hlýtur atvinnulífið að gera kröfu um að forystumenn stærstu sveitarfélaganna láti sömu sjónarmið gilda um íbúðar- og atvinnuhúsnæði.

 

Margfalt hærri skattur á atvinnuhúsnæði

Sveitarstjórnarmenn virðast ætla að falla í þá gryfju að hækka skatta á fyrirtæki í skjóli þess að þau eru ekki stór kjósendahópur. Atvinnuhúsnæði er nú þegar skattlagt margfalt hærra en íbúðarhúsnæði. Álagningarprósentan verður þannig 1,65% hjá Reykjavíkurborg - þ.e. lögbundið 1,32% hámark að viðbættu 25% hámarksálagi - samanborið við 0,25% á íbúðarhúsnæði. Þá má geta þess að samkvæmt Árbók sveitarfélaga námu álagðir fasteignaskattar á íbúðarhúsnæði (A-flokkur) um 5,7 milljörðum króna á árinu 2005, en um 7,9 milljörðum króna á atvinnuhúsnæði (B-flokkur).

 

Áætluð raunhækkun 800 milljónir

En hver er afleiðing þess að ekki er gert ráð fyrir hliðstæðri lækkun álagningarstuðla á atvinnuhúsnæði til að mæta hækkun fasteignaverðs? Ekki liggur fyrir opinberlega nægjanleg sundurliðun á nýju fasteignamati til þess að reikna megi umrædda skattahækkun með nákvæmum hætti. Hækkunina má þó áætla á grundvelli fasteignamats síðasta árs og nýlegrar ákvörðunar yfirfasteignamatsnefndar um svonefnda framreiknistuðla. Samtök atvinnulífsins hafa áætlað hækkun á álagningu fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu með þessari aðferð. Niðurstaðan er sú að álagður fasteignaskattur á atvinnulífið hækkar úr um 5,8 milljörðum króna í um 6,9 milljarða króna, eða um 1,1 milljarð króna. Hækkunin samsvarar 18,4%. Ef aðferð borgarstjóra um að fasteignaskattar á íbúðarhúsnæði fylgdu byggingarvísitölu og hækkuðu um 5% yrði beitt á atvinnuhúsnæði, hækkuðu fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði um tæplega 300 milljónir króna. Raunhækkun fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði nemur því tæplega 800 milljónum króna eða um 13,4%.

 

Ígildi 1-2% hækkunar á tekjuskatthlutfalli fyrirtækja í Reykjavík

Fyrirhuguð hækkun fasteignaskatts á atvinnulífið í Reykjavík er áætluð um 850 m.kr. á þessu ári. Til samanburðar voru álagðir tekjuskattar fyrirtækja í Reykjavík 9 milljarðar króna árið 2004 og tæpir 16 milljarðar króna árið 2005.  Eins og kunnugt er þá er tekjuskattur fyrirtækja 18% og því skilaði hvert prósenta 504 m.kr. tekjum árið  2004 og 920 m.kr. árið 2005. Ákvörðunin um óbreytt álagningarhlutfall fasteignaskatts er því sambærileg við það að ríkið hækkaði tekjuskatt lögaðila í 19-20%.

 

Eignaskattar

Fasteignaskattar eru eignaskattar sem í raun fela í sér skattlagningu á eigin fé fyrirtækja, burtséð frá afkomu þeirra. Slíkir skattar samræmast ekki heilbrigðri stefnu um samkeppnisumhverfi íslenskra fyrirtækja. Minnt er á að eignarskattur til ríkissjóðs hefur nýlega verið felldur niður m.a. vegna galla þess skattforms. Stefna sveitarstjórna um stórhækkun fasteignaskatta á atvinnulífið er því í hróplegu ósamræmi við aðgerðir ríkisstjórnarinnar til umbóta á rekstrarskilyrðum atvinnulífsins.