Skaðlegar og íþyngjandi reglur í jafnréttisfrumvarpi

Samtök atvinnulífsins gera alvarlegar athugasemdir við fjölmörg atriði stjórnarfrumvarps til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Samtök atvinnulífsins taka hins vegar skýrt fram að þau eru sammála því markmiði frumvarpsins að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna. Samstaða er um það í atvinnulífinu að vinna skuli gegn kynbundinni mismunun. Samtökin eru hins vegar ósammála þeim aðferðum sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu og birtast í afar íþyngjandi kröfum um skýrslugerð, rökstuðning ráðninga og afhendingu gagna auk viðurlaga í formi dagsekta. Áhersla er þannig lögð á eftirlit og þvingunaraðgerðir frekar en samstarf, leiðbeiningar og hvatningu sem samtökin telja vænlegri leið til árangurs.

 

Þvingandi áhrif á vinnumarkað

Samtök atvinnulífsins telja mörg ákvæði frumvarpsins til þess fallin að auka réttaróvissu, draga úr sveigjanleika í atvinnulífi og möguleikum fyrirtækja á að tryggja hagsmuni sína við ráðningar, launasetningu og uppsagnir starfsmanna. Allt leiði þetta til verulega aukinnar umsýslu og kostnaðar fyrir fyrirtækin án sýnilegs ávinnings. Framkvæmdin muni auk þess verða minni fyrirtækjum afar erfið.

 

SA telja reglur og þvingunaraðgerðir frumvarpsins ganga jafnvel lengra en leiðir af jafnréttissjónarmiðum. Til dæmis ákvæði frumvarpsins um að umsækjandi um starf geti krafist rökstuðnings atvinnurekanda fyrir ráðningu annars umsækjanda af gagnstæðu kyni. Reglur af þessu tagi gilda ekki um ráðningar á almennum vinnumarkaði. Atvinnurekendum er heldur ekki skylt að auglýsa störf enda óbundnir af stjórnsýslurétti og öðrum kvöðum sem gilda um opinberar stofnanir. Hér er því um verulega breytingu að ræða sem gengur þvert á allar venjur og framkvæmd á almennum vinnumarkaði. Að auki er kveðið á um það í frumvarpinu að í rökstuðningi skuli telja upp hver hafi verið menntun þess sem var ráðinn, starfsreynsla, sérþekking eða aðrir sérstakir hæfileikar sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu.

 

Hvorki lög né reglugerðir gilda almennt um ráðningar á almennum vinnumarkaði. Ákvæðið tekur því alfarið mið af reglum um opinbera starfsmenn en ekki aðstæðum á almennum vinnumarkaði þar sem ráðningar eru almennt ekki eins formbundnar. SA leggjast alfarið gegn því að ósveigjanlegum reglum hins opinbera sé með þessum hætti lætt inn í vinnurétt á almennum vinnumarkaði, sveigjanleiki hans takmarkaður og samkeppnishæfni atvinnulífsins þar með sköðuð. Það leiðir heldur ekki til annars en auglýsingum um störf mun fækka.

 

Ákvæði frumvarpsins þrengja líka möguleika fyrirtækja til að leggja þá þætti sem þau telja mikilvæga fyrir starfsemina til grundvallar við ráðningar starfsmanna án tillits til þess hvort þeir fela í sér  kynbundna mismunun.

 

Opin heimild til gagnasöfnunar

Jafnréttisstofu er veitt opin heimild til gagnasöfnunar og fyrirtæki geta af minnsta tilefni verið skylduð til að leggja fram mikið magn af þýðingarlausum gögnum með tilheyrandi fyrirhöfn og kostnaði. Vandséð er hvernig Jafnréttisstofa á að geta metið og unnið úr þeim gögnum sem safnað er með þessum hætti, einkanlega þegar tekið er tillit til þess að ráðningar manna og laun ráðast að stórum hluta af markaðsaðstæðum, umfangi starfs, frammistöðu og öðrum persónulegum eiginleikum. Engin hefð er fyrir því í íslenskum fyrirtækjum að halda nákvæmar skrár yfir alla slíka þætti enda ekki tilgangur eða rök fyrir slíkri pappírsvinnu. Það er skaðlegt ef framkvæmd jafnréttislaga byggist á því að skylda fyrirtæki til óhóflegrar skriffinnsku. Það er ekki inntak jafnréttislaga, heldur að starfsmenn njóti jafnra tækifæra en í því felst að laun séu ákveðin á sama hátt fyrir konur og karla.

 

Óljós ávinningur

Frumvarpið er nú til umfjöllunar í félags- og tryggingarmálanefnd Alþingis. Í ítarlegri umsögn SA hér að neðan kemur fram að verulegur áhugi sé meðal fyrirtækja á að komið verði á fót vottunarkerfi sem feli í sér að viðurkenndum aðferðum sé beitt við launaákvarðanir. SA hafa því lýst sig reiðubúin til þess að styrkja tilraunaverkefni um jafnlaunavottun sem hefur verið í undirbúningi. Slíkar leiðir, sem byggja á samstarfi og jákvæðri nálgun, eru að mati SA mun líklegri til árangurs en að leggja sektir á fyrirtæki sem ekki skila eftirlitsaðilum skýrslum eða gögnum.

 

Samtök atvinnulífsins telja fjölmörg atriði í frumvarpinu beinlínis skaðleg og ekki hugsuð til enda. Ekki liggi heldur fyrir að þörf sé á þessum aðgerðum eða hvort markmiðum frumvarpsins verði náð með öðrum og minna íþyngjandi hætti eins og gert er ráð fyrir í handbók um undirbúning og gerð stjórnarfrumvarpa.

 

Staðan í atvinnulífinu

Í umsögn SA er vísað til rannsóknar sem Capacent Gallup vann fyrir félagsmálaráðuneytið í október 2006. Þar kemur fram að umtalsverðar jákvæðar breytingar hafi orði á starfsumhverfi og starfsháttum, vinnutíma og viðhorfi kynjanna. Þær gefi samkvæmt skýrslunni vísbendingar um að frekari breytingar séu í sjónmáli þótt það virðist ekki hafa skilað sér í launaumslag kvenna. Niðurstöður könnunarinnar gefi til kynna að kynbundinn launamunur sé tæplega 16% hér á landi, konum í óhag.

 

Í umsögn SA segir um þetta: „Rétt er að undirstrika að ítrekað er í skýrslu Capacent að ekki sé hægt að fullyrða að niðurstöður eigi við um vinnumarkaðinn í heild þar sem ekki er um tilviljunarúrtak að ræða heldur fáein fyrirtæki og stofnanir sem valin voru út, nánar tiltekið átta stofnanir og fyrirtæki. Þessi fyrirvari hefur þó að engu verið hafður hvort sem litið er til greinargerðarinnar, stefnumörkunar stjórnvalda eða almennrar umræðu um launamun kynjanna.

 

Sú túlkun niðurstaðna skýrslu Capacents að umræddur 16% launamunur í umræddum átta fyrirtækjum verði ekki rakinn til annars en kyns er fráleit. Laun ákvarðast af mun fleiri þáttum en rannsóknin tekur til (og aðrar sambærilegar) og verður seint hægt að gera tölfræðirannsóknir þannig úr garði að þær nái utan um alla þá þætti sem liggja til grundvallar launaákvörðunum.  Sem dæmi má nefna að varla stendur nokkur maður í þeirri trú að laun starfsstéttar skrifstofufólks ákvarðist einvörðungu af aldri og starfsaldri. Sé leiðrétt fyrir mismun á þessum aldursþáttum, og að því loknu standi enn eftir munur á meðallaunum karla og kvenna í þeirri starfsstétt, þá verði hann einvörðungu rakinn til kynferðis.”

 

Í umsögninni er ennfremur vísað til rannsóknar Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands á launagreiðslum fyrirtækja í launakönnun ParX árið 2006. Sú rannsókn byggði á gögnum úr launabókhaldi 102 fyrirtækja sem náðu til ríflega 6.300 starfsmanna sem flokkaðir voru í 44 störf og er því nákvæmari og mun umfangsmeiri en fyrri kannanir. Hún sýndi að óskýrður munur á föstum mánaðarlaunum karla og kvenna væri 10-12%, nokkru minni en í mörgum nýlegum rannsóknum hérlendis. Sérstaka athygli vakti að lítill launamunur er meðal yngra fólks en hann er meiri eftir því sem fólk er eldra. Minna má á að menntunarstig starfsmanna eldri en fertugra er hærra hjá körlum en konum.

 

Einfaldara Ísland?

Samtök atvinnulífsins telja að fjölmörg af íþyngjandi ákvæðum frumvarpsins séu í beinni andstöðu við stefnumörkun ríkisstjórnarinnar um „Einfaldara Ísland”. Má í því sambandi vitna til tilkynningar forsætisráðuneytisins þann 5. október síðastliðinn þar sem segir:  „Verður það [að auðvelda almenningi og fyrirtækjum samskipti við hið opinbera] gert með því að einfalda reglur og gera þær markvissari, sjá til þess að framkvæmd reglna verði sem minnst íþyngjandi, afnema óþarfa kröfur til fyrirtækja um leyfi og upplýsingagjöf, ...“.  Fyrrgreind ákvæði frumvarpsins, verði það að lögum, munu hins vegar gera samskipti fyrirtækja við hið opinbera erfiðari, flækja reglur og gera þær ómarkvissari, verða verulega íþyngjandi og kalla á upplýsingagjöf sem flestir munu telja óþarfa. Þá samræmast ákvæði frumvarpsins ekki reglum jafnréttistilskipana ESB sem teknar hafa verið upp í EES samninginn.

 

Grundvallarréttindi verði varin

SA leggja áherslu á að jafnréttislög séu einföld og skýr. Lögin verndi þau grundvallarréttindi starfsmanna að vera ekki mismunað vegna kynferðis og leggi ekki óþarfa byrðar á fyrirtækin. Fyrirliggjandi frumvarp uppfyllir ekki það skilyrði.  Það einkennist af miklu ójafnvægi milli þess meinta vanda sem ætlað er að leysa og hinna fjölmörgu íþyngjandi ákvæða þess fyrir fyrirtæki. Þar að auki er með öllu óljóst að þær kvaðir muni breyta einhverju um hlutfallslega stöðu karla og kvenna í atvinnulífinu.

 

Sjá nánar:

Umsögn um frumvarp til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, 142. mál