Samningaleiðin skilar varanlegri árangri

Í erindi á hádegisfundi Frjálshyggjufélagsins um verkföll fjallaði Ari Edwald, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, m.a. um upphaflegu hugmyndina um eðli verkfalla annars vegar og um hins vegar um verkföll sem bitna einkum á þriðja aðila. Hann fjallaði um verkföll lítilla hópa í þvingunarstöðu og um nauðsyn virðingar við leikreglur verkfalla. Hnefaréttur gæti ekki verið markmiðið sagði Ari. Hann telur að stéttir á almennum vinnumarkaði hafi almennt verið að beita verkfalls-vopninu af mikilli varkárni, enda hafi þær lært af langri og oft allbiturri reynslu og viti að þegar upp er staðið skilar samningaleiðin varanlegri árangri.

 

Nauðvörn alsnauðrar alþýðu

Ari vitnaði til blaðagreinar eftir Þröst Ólafsson, fyrrverandi framkvæmdastjóra Dagsbrúnar, þar sem uppruni verkfalls-réttarins er rakinn til iðnaðarsamfélaga Vesturlanda á síðustu öld, sem nauðvörn alsnauðrar alþýðu. Þá var honum beitt gegn atvinnurekendum sem urðu fyrir skaða við að starfsemi þeirra var stöðvuð. Hliðaráhrif inn í samfélagið voru hverfandi. Það yrði hins vegar sífellt flóknara að beita þessu vopni, því það hentaði illa í opnu samfélagi sem byggðist á sveigjanlegum viðskiptasamböndum hins tæknivædda, hnattlæga markaðskerfis. Afleiðingar verkfalla væru m.a. að viðskiptasamningar yrðu ekki endurnýjaðir, framleiðslustöðum væri lokað og atvinnan flutt úr landi, verktakar gengju í störf verkfallsmanna o.s.frv. Þegar samningsaðilinn væri hið opinbera yrði verkfallsstaðan enn flóknari og andsnúnari því þar færi ekki saman ábyrgð og afleiðing. Það væru börnin og foreldrarnir, sjúklingarnir og fatlaðir sem yrðu að taka afleiðingum verkfallsaðgerða.

 

Ari sagði meðferð verkfallsvopnsins ekki verða eins ábyrga þegar hópurinn sem beitti verkfalli, óttaðist ekki að vinnuveitandinn færi á hausinn, eða að störfin færu annað. Augljóst væri að mögulegt verkfall og tjón skapaði ekki þann aga og ábyrgð á vettvangi hins opinbera, sem það gerði þar sem samningsaðilar þyrftu sjálfir að horfast í augu við það fjárhagstjón sem verkfallið veldur. Þetta sæist vel á því að verkföll heyrðu nú nánast sögunni til á almennum vinnumarkaði á meðan verkföll hjá hinu opinbera héldu Íslandi í efstu sætum í alþjóðlegum samanburði varðandi tapaða vinnudaga í verkföllum. Það væri helst í umhverfi fiskimanna að við hefðum upplifað verkföll á síðustu árum, sem leiddi hugann að því hvort það umhverfi líktist að sumu leiti frekar því sem gerist hjá hinu opinbera.

 

Þá sagði Ari upprunalegu hugmyndina um að verkfallsréttur væri neyðarbrauð í baráttu fyrir mannsæmandi kjörum snúast upp í andstæðu sína þegar jafnvel litlir hálaunahópar beittu til fulls þeim mikla þrýstingi sem þeir kunna að hafa. Nefndi hann dæmi um kröfu fyrir skipstjórnarmenn á fjölveiðiskipi í því sambandi.

 

Leikreglur verkfalla

Þá fjallaði Ari um leikreglur verkfalla og taldi menn ættu að geta verið sammála um að þau yrðu að lúta þeim reglum sem um þau giltu. Ef þær væru óljósar ættu menn að geta sameinast um að skýra línurnar, t.d. með því að bera prófmál undir dómstóla, þannig að óvissu hefði verið eytt þegar næst kæmi til vinnudeilna. Hnefaréttur gæti ekki verið markmiðið.

 

Samningaleiðin skilar varanlegri árangri

Loks sagðist Ari telja að stéttir á almennum vinnumarkaði hefðu almennt verið að beita verkfallsvopninu af mikilli varkárni, enda hefðu þær lært af langri og oft allbiturri reynslu og vissu að þegar upp væri staðið skilaði samningaleiðin varanlegri árangri.

 

 

Sjá erindi Ara (pdf-skjal).