SA mótmæla ákvörðun HÍ í máli rektors á Bifröst

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, hefur sent Kristínu Ingólfsdóttur, rektor Háskóla Íslands, bréf þar sem því er mótmælt að dr. Ágústi Einarssyni hafi ekki verið veitt launalaust leyfi í þrjú ár frá Háskóla Íslands vegna ráðningar í stöðu rektors Háskólans á Bifröst. Bréfið má lesa í heild sinni hér:

 

„Samtök atvinnulífsins vilja koma á framfæri óánægju sinni með þá ákvörðun Háskóla Íslands um að synja nýráðnum rektor Háskólans á Bifröst, dr. Ágústi Einarssyni um launalaust leyfi í þrjú ár.

 

Samtök atvinnulífsins eru meðal aðstandenda Háskólans á Bifröst, tilnefna tvo af fimm stjórnarmönnum hans og beittu sér fyrir ráðningu dr. Ágústs í rektorsstarfið. Ákvörðun Háskóla Íslands um synjun um launalaust leyfi kom samtökunum mjög á óvart og þau líta svo á að þessi synjun sé í algjöru ósamræmi við stöðu og metnað Háskóla Íslands, í andstöðu við hagsmuni atvinnulífsins vegna uppbyggingar háskólamenntunar í landinu og alls ekki í neinu samræmi við viðleitni til þess að rækta og efla samstarf Háskóla Íslands við atvinnulífið í landinu.

 

Samtök atvinnulífsins vekja athygli á þeirri stefnumörkun Háskóla Íslands að komast í hóp 100 bestu háskóla í heimi og stuðningi stjórnvalda við þá stefnumörkun sem felst í samningi um 600 milljóna króna árlega hækkun á rannsóknaframlagi til skólans næstu fimm árin.  Samtökin vilja óska Háskóla Íslands til hamingju með þennan stuðning og vona að aðrir háskólar fái líka að njóta aukins áhuga stjórnvalda á háskólarannsóknum. Í ljósi þessarar stefnumörkunar Háskóla Íslands þá kemur það afar einkennilega fyrir sjónir að skólinn skuli skilgreina Háskólann á Bifröst sem þannig keppinaut að það sé ástæða til þess að synja dr. Ágústi um launalaust leyfi í þrjú ár. Samtök atvinnulífsins telja að þeir keppinautar sem Háskóli Íslands ætti að reyna að bera sig saman við og líta til vegna ákvarðanatöku sinnar í samkeppnismálum séu erlendir háskólar í fremstu röð og að engir íslenskir háskólar séu þar á meðal. Í ljósi þessa vaknar einmitt líka sú spurning hvort Háskóli Íslands muni leggja steina í götu annarra prófessora eða starfsmanna skólans sem fá tækifæri til lengri eða skemmri dvalar við kennslu, rannsóknir eða stjórnun við virta erlenda háskóla, t.d. þeirra sem teljast í hópi 100 bestu háskólanna. Verða þeir háskólar kannski ekki skilgreindir sem keppinautar Háskóla Íslands heldur einungis Háskólinn á Bifröst?

 

Það má leiða rök að því að ákvörðun Háskóla Íslands komi illa við hann sjálfan þar sem hún gerir hugsanlega endurkomu þeirra, sem synjun hljóta, mun erfiðari til kennslu og rannsóknastarfa við skólann að loknum störfum á öðrum vettvangi og dregur úr aðdráttarafli skólans fyrir kennara og vísindamenn í fremstu röð. Virkt flæði bæði starfsmanna, nemenda og hugmynda milli íslenskra háskóla er í þágu hvers þeirra um sig og alls samfélagsins. Sama gildir um flæði milli íslenskra og erlendra háskóla.

 

Samtök atvinnulífsins vilja líta á háskólasamfélagið á Íslandi sem eina heild sem þarf að eflast í því skyni að auðga íslenskt atvinnulíf og samfélag og bæta lífskjörin í landinu.  Hver einasta háskólastofnun þarf að líta á það að starfsemin sé í þágu samfélagsins alls en háskólar eru ekki fyrirtæki sem leitast við að hámarka hagnað sinn. Arðurinn af starfsemi Háskóla Íslands felst í framlagi hans til samfélagsins alls og það sama gildir um aðra íslenska háskóla. Á þessum forsendum er mikill velvilji hjá Samtökum atvinnulífsins og aðildarfyrirtækjum þess gagnvart Háskóla Íslands og háskólastarfi í landinu og því hefur atvinnulífið stutt við háskólana og átt við þá margvíslegt samstarf. Mikilvægur hluti af þróun íslenskra háskóla og framlagi þeirra til atvinnulífsins og samfélagsins er margvíslegt samstarf á milli þeirra í kennslu, rannsóknum og öðru sem tengist háskólastarfinu. Synjun Háskóla Íslands á launalausu leyfi fyrir dr. Ágúst Einarsson er því yfirlýsing um að Háskóli Íslands muni einungis taka takmarkaðan þátt í samstarfi milli háskólanna í landinu og láta eigin óskilgreinda þrönga hagsmuni sitja í fyrirrúmi í stað þess að líta á sig sem forystuafl í háskólasamfélaginu á Íslandi sem starfar í þágu alls samfélagsins. Þessi synjun vekur líka spurningar um hvernig og á hvaða forsendum Háskóli Íslands hyggst eiga samstarf við íslenskt atvinnulíf. Ætlast Háskóli til Íslands að slíkt samstarf byggi alfarið á þröngum hagsmunum skólans og einstakra fyrirtækja eða vill skólinn byggja samstarfið á víðtækari grunni í þágu alls samfélagsins?

 

Samtök atvinnulífsins eru aðstandendur bæði Háskólans á Bifröst og Háskólans í Reykjavík. Samtökin hafa engu að síður lagt mikla áherslu á gott samstarf við Háskóla Íslands og framþróun hans og telja að allir íslenskir háskólar hafi hlutverki að gegna og að efling eins háskóla sé hagsmunamál allra hinna sem og samfélagsins í heild. Samtök atvinnulífsins hvetja því Háskóla Íslands eindregið til þess að endurskoða þá ákvörðun sína að synja dr. Ágústi Einarssyni um þriggja ára launalaust leyfi vegna starfa hans sem rektor Háskólans á Bifröst.

 

Virðingarfyllst.

 

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri”

 

PDF- útgáfu af bréfinu má nálgast hér.