SA ítreka áhyggjur af afleiðingum peningamálastefnu Seðlabankans

Samtök atvinnulífsins telja nauðsynlegt að endurskoða verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands eins og það var upphaflega sett fram með samkomulagi bankans og ríkisstjórnarinnar 27. mars 2001. Við þessa endurskoðun þarf að taka tillit til þess að stjórntæki bankans, stýrivextirnir, hafa takmörkuð samdráttaráhrif á eftirspurn og verðbólgu, en leiða til verulegra sveiflna á gengi íslensku krónunnar. Viðvarandi hátt gengi krónunnar hefur átt drjúgan þátt í miklum halla á vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd og gert útflutnings- og samkeppnisatvinnuvegunum mjög erfitt fyrir. Í bréfi SA til forsætisráðherra ítreka samtökin áhyggjur sínar af afleiðingum peningamálastefnu Seðlabankans og þeim óstöðugleika sem hún veldur. Bréfið er sent í framhaldi af bréfi SA til forsætisráðherra 4. júní sl. Í því segir m.a. að sveiflur á gengi krónunnar frá þeim tíma gefi enn brýnt tilefni til þess að hefja nú þegar vinnu við að undirbúa stefnubreytingar.

 

Verðhækkanir á íbúðahúsnæði megin drifkraftur verðbólgunnar 

Í bréfi SA til Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, er bent á að verðhækkanir á íbúðahúsnæði hafi verið megin drifkraftur verðbólgunnar á undanförnum árum en vaxtahækkanir Seðlabankans hafa ekki haft nein áhrif á síhækkandi fasteignaverð. Í bréfinu segir: „Frá janúar 2004 hefur Seðlabankinn hækkað stýrivexti úr 5,3% í 14,25% (13,3% miðað við breytta skilgreiningu). Fasteignaverðsliðurinn í vísitölu neysluverðs (reiknuð húsaleiga) hækkaði um tæp 73% frá janúar 2004 til ágúst 2007 og er bersýnilegt að vaxta­hækkanir Seðlabankans hafa engin áhrif haft á verð íbúðarhúsnæðis. Á þessum tíma urðu breytingar á íbúðalánamarkaðnum sem hófust með hækkun lánshlutfalls og hámarksláns Íbúðalánasjóðs og innkomu bankanna inn á þennan markað í framhaldi af því. Má segja að aðgerðir ríkisins í gegnum Íbúðalánasjóð hafi beinlínis unnið gegn viðleitni Seðlabankans til þess að ná niður verðbólgu.”

 

Seðlabankinn kominn í sjálfheldu

Fram kemur í bréfinu að óverðtryggð lán í íslenskum krónum séu hvergi nærri sá hluti af útlánum í hagkerfinu sem þurfi til að vaxtahækkanir Seðlabankans hafi afgerandi áhrif á eftirspurn innanlands. Hærri stýrivextir hafa leitt til hærra gengis krónunnar og lægra verðs á innfluttum vörum og þar með ýtt undir aukna einkaneyslu á meðan útflutnings- og samkeppnisgreinarnar hafa verið leiknar grátt. SA telja nauðsynlegt að draga lærdóm af þessari þróun mála. Gengissveiflur vegna vaxtahækkana Seðlabankans hafa verið afar skaðlegar fyrir atvinnulífið og þjóðarbúið í heild. Þær skapa mikla og ónauðsynlega óvissu fyrir rekstur fyrirtækja, og valda jafnframt miklum sveiflum í afkomu þeirra og stuðla að ójafnvægi í viðskiptum við útlönd.

 

SA telja Seðlabankann vera kominn í algjöra sjálfheldu í vaxtaákvörðunum sínum. „Markaðurinn virðist enn og aftur grípa inn í og gengi krónunnar lækkar og það löngu áður en eftirspurn dregst saman vegna tekjusamdráttar í útflutnings- og samkeppnisgreinum. Bankinn virðist ekki sjá möguleika til þess að lækka vexti heldur virðast ávallt öll rök hníga til þess hjá bankanum að hækka þurfi vextina eða í besta falli að halda þeim óbreyttum. Á meðan bankinn er fastur í þessari sjálfheldu leita lántakendur leiða til þess að hagnýta sér ódýrara erlent lánsfé og nú hafa lán til íbúðakaupa, bílalán og ýmis neyslulán í auknum mæli leitað inn í þennan farveg sem gerir vaxtastefnu bankans ennþá áhrifaminni.”

 

Umræður um verðbólgumarkmið hefjist nú þegar

Í niðurlagi bréfsins segir að endurskoða þurfi samkomulag ríkisstjórnarinnar við Seðlabankann um verðbólgumarkmið þar sem vaxtastefna bankans hafi reynst vanmáttugt tæki gegn verðbólgu og reynst skaðleg fyrir efnahagslífið. „Samtök atvinnulífsins hvetja til opinna umræðna um breytingar á markmiðum um verðlagsþróun og benda á ýmsar leiðir sem koma til álita. Meðal þeirra má nefna hvort miða eigi við vísitölu neysluverðs án húsnæðisliðarins eða með öðrum hætti en nú er, hvort hverfa eigi frá einu ákveðnu tölugildi um verðbólgumarkmið, hvort líta eigi til  fleiri þátta í þróun hagkerfsins og hvort eigi að setja takmörk á mun á stýrivöxtum milli Íslands og annarra landa.

 

Samtök atvinnulífsins lýsa sig reiðubúin til þátttöku í slíkum umræðum og hvetja forsætisráðherra til að hefja þær nú þegar. Er afar brýnt að niðurstaða úr þeim fáist sem allra fyrst.”

 

Sjá bréf SA til forsætisráðherra í heild (PDF-skjal)

 

Sjá einnig frétt SA frá 4. júní