Reglugerð um merkingu erfðabreyttra matvæla mótmælt

Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins og SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu, hafa skilað umsögn til umhverfisráðuneytis um drög að nýrri reglugerð um merkingu erfðabreyttra matvæla. Í henni er m.a. bent á að Evrópureglugerðirnar, sem nýja reglugerðin byggir á, hafi ekki verið teknar inn í EES samninginn og því beri Íslandi engin skylda til að taka þær upp að svo stöddu. Bent er á að ekkert mat sé lagt á áhrif reglugerðarinnar en hún muni hafa í för með sér aukinn kostnað fyrir fyrirtækin í landinu og stríði þar með gegn áformum um lækkun matarverðs. Skilgreining á erfðabreyttum matvælum í reglugerðardrögunum sé jafnframt önnur en hjá ESB sem samtökin telja fráleitt. Nauðsynlegt sé að efna til öfgalausrar og upplýsandi umræðu um erfðabreytt matvæli á Íslandi.

 

Skortur á þekkingu meðal neytenda

Í umsögn SA, SI og SVÞ kemur fram að það sé mat samtakanna að mikilvægt sé að stjórnvöld standi fyrir markvissri upplýsingagjöf um erfðabreytt matvæli á Íslandi til að tryggja að val neytenda byggist á þekkingu fremur en fordómum. Samtökin telja ekki nóg að upplýsa neytendur með merkingu matvæla á borð við erfðabreytt þar sem það virðist ríkja hrópandi þekkingarskortur í samfélaginu á þessum málum. Miklar rangfærslur séu í gangi, misskilningur og beinlínis villandi áróður sem komi reglulega fram í umræðum og fjölmiðlum. Það sé hlutverk stjórnvalda að gæta þess að reglugerðin veki ekki óþarfa ótta og stuðli að hræðsluáróðri sem byggi á rangfærslum.

 

Í umsögn samtakanna segir m.a.: „Ef stjórnvöld ætla að setja reglur um merkingar erfðabreyttra matvæla hér á landi er nauðsynlegt að með fylgi áætlun og fjármagn til að upplýsa og fræða almenning um erfðabreytingar, hvernig þær fara fram og hvort hættur séu fyrir hendi en ekki síður hvort hættur séu ekki fyrir hendi. Upplýsingarnar verða að vera réttar, greinargóðar og byggjast á vísindalegum staðreyndum.”

 

Lagst gegn nýjum reglum

SA, SI og SVÞ leggjast eindregið gegn því að teknar verði upp nýjar reglur um merkingu erfðabreyttra matvæla fyrr en nauðsyn krefur og að fengnum skýrum lagaheimildum í settum lögum. 

 

Sjá nánar umsögn SA, SI og SVÞ