Pennastriksaðferð borgarstjóra

Grein Ara Edwald, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, í Morgunblaðinu:

 

Talsverðar umræður hafa orðið um nýgerðan kjarasamning Reykjavíkurborgar við Starfsmannafélag borgarinnar, Eflingu og tæknifræðinga. Samtök atvinnulífsins hafa fram til þessa ekki tjáð sig um þann samning sérstaklega en gert að umtalsefni þá þróun að sveitarfélög í landinu leyfa sér að gera dýrari kjarasamninga en bæði ríkið og almenni markaðurinn. Spurt hefur verið hvaða viðmið og hvaða fjárhagslegu forsendur liggi til grundvallar í ljósi þess að sveitarfélög í heild eru rekin með tapi, þótt staða einstakra sveitarfélaga sé auðvitað mismunandi. Samkvæmt uppgjöri Hagstofunnar voru sveitarfélög í heild rekin með rúmlega 10 milljarða króna halla á síðasta ári, sem nemur 1,2%  af landsframleiðslu og hefur hallinn ekki verið meiri á þann kvarða síðan erfiðleikaárið 1994.  Raunhækkun gjalda milli áranna 2000 og 2004 var 30% en tekna 23%. Samkvæmt tölum Hagstofunnar hefur hallarekstur sveitarfélaganna í heild  verið samfelldur í einn og hálfan áratug og samkvæmt varfærnum forsendum í þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins mun hallareksturinn verða viðvarandi næstu ár.

 

Það verður að viðurkennast að viðbrögð borgarstjóra við þessari almennu framsetningu, að persónugera umræðuna og víkja t.d. að undirrituðum vegna skoðana sem hún gerir honum upp, koma á óvart og er dapurlegt að borgarstjóri treysti sér ekki í málefnalegar umræður um kjaraþróun og efnahagsmál, en heldur sig við gamalkunnar lýðskrumsaðferðir. 

 

Dýrir samningar sveitarfélaga

Í stuttu máli er staðan sú að kjarasamningar á almennum markaði fela almennt í sér kostnaðarhækkun upp á um 16-20% á fjórum árum. Lægri talan á við um almenna samninga þar sem markaðsaðstæður hafa áhrif á launin til viðbótar ákvæðum samninga, en seinni talan á við um samninga fyrir eitt eða fá fyrirtæki þar sem launin ákvarðast fyrst og fremst af samningnum. Samningar ríkisins hafa verið mjög nærri hærri tölunni en sveitarfélög verið hærri. Samningar Launanefndar sveitarfélaga við starfsmannafélög og ASÍ félög hafa verið um 21% í þriggja og hálfs árs samingum eða um 24% ef miðað er við full fjögur ár. Einstakir samningar hafa verið talsvert dýrari. Þar má nefna grunnskólakennara (30%), leikskólakennara (20% í tveggja ára samningi) og þennan nýja samning Reykjavíkurborgar, en samkvæmt upplýsingum á vef Eflingar er kostnaðurinn við þeirra hluta samningsins um 30% á þremur árum. Ýmsar skýringar eru nefndar á dýrri samningsgerð sem stundum hafa nokkuð til síns máls. Borgarstjóri hefur sagt að nýgerður samningur sé dýr vegna þess að verið sé að lyfta konum með lág laun og mætti helst ætla að samningurinn sé fyrst og fremst við svokallaðar umönnunarstéttir. SA gagnrýna í sjálfu sér ekki að tekið sé á launaröðun afmarkaðra hópa í kjarasamningum, en það verður ekki séð af þeim upplýsingum sem hægt er að nálgast um samninginn á vef Eflingar, að þessar áherslur séu ráðandi um þá kostnaðarhækkun sem í samningnum felst. Af heildarkostnaði upp á u.þ.b. 30% er 1,1% eða 3,6% samningskostnaðarins vegna nýrrar launatöflu, sem er sú breyting sem sérstaklega snýr að lægstu laununum. Helsta einkenni samningsins virðist því vera að allir eru að hækka að lágmarki um 6 launaflokka í upphafi, sem eru tæp 10%, óháð kyni og upphæð launa. Það vekur athygli að Reykjavík hefur ekki birt neitt haldbært kynningarefni um þessa samningsgerð, sem hlýtur að teljast gagnrýnivert ógegnsæi í starfsháttum opinbers aðila. Engar fréttir hafa borist af samningnum við tæknifræðinga. Eru þeir að hækka svipað og Efling og hluti af hvaða stefnumörkun myndi það vera?

 

Þessi samningsgerð hefur leitt til ótrúlega yfirborðskenndrar umræðu um hvenær sé eiginlega hægt að hækka „lægstu laun“ og hvort menn meini almennt ekkert með slíku tali. Þetta gerir ótrúlega lítið úr þeim gríðarlega árangri sem náðst hefur í þessum efnum á undanförnum árum á almennum vinnumarkaði, en frá ársbyrjun 1995 til þriðja ársfjórðungs þessa árs hækkaði kaupmáttur lágmarkslauna um 62,5%, samanborið við 29% kaupmáttaraukningu að meðaltali á almennum vinnumarkaði skv. launavísitölu Hagstofunnar.

 

Leiðir til lífskjarabóta

Til lengdar getur það auðvitað ekki staðist að þeir sem fara með skattlagningarvald leyfi sér að hækka laun meira en atvinnufyrirtæki rísa undir, sem þurfa að eiga fyrir laununum þegar búið er að greiða skatta. Launahækkanir verða að taka mið af þeim veruleika á endanum. Það er staðreynd að okkur myndi ganga betur að varðveita og auka kaupmátt á Íslandi ef árlegar launabreytingar (samningsbundnar og launaskrið) væru um 3-4% sem væri samrýmanlegt stöðugu verðlagi. Þangað hefur almenni markaðurinn verið að reyna að komast í sínum samningum en ekki tekist enn. Ef opinberir aðilar slá þann tón að laun eigi að hækka hér um 10% eða meira á ári og almennur vinnumarkaður neyðist til að fylgja því fordæmi, er ljóst að verðbólga verður miklu hærri og kaupmáttur minni. Þetta þekkjum við vel frá þar síðasta áratug þegar 1.400% launahækkanir skiluðu 4% rýrnun kaupmáttar!

 

Það er líka staðreynd, sem engin pennastrik stjórnmálamanna fá breytt, að launahlutföll á milli hópa eru mjög tregbreytanleg og þess vegna er varanlegasta aðferðin við uppbyggingu kaupmáttar að heildin hækki í samræmi við það sem framleiðniaukning í samfélaginu getur staðið undir. Þar hefur ótrúlegur árangur náðst á Íslandi á undanförnum árum. Við sjáum að verðmætari störfum hefur fjölgað á kostnað láglaunastarfa og áhersla á menntun og þjálfun tengist skuldbindingu vinnumarkaðarins gagnvart þeirri þróun. Stjórnvöld hafa stuðlað að þessum framförum með kerfisumbótum og þar geta ríki og sveitarfélög enn lagt mikið af mörkum. Það mun hafa miklu meiri og varanlegri áhrif á lífskjör almennings en innistæðulítil pennastrik stjórnmálamanna.