Óviðunandi metnaðarleysi stjórnvalda

Á hverju ári fá Samtök atvinnulífsins til umsagnar tugi lagafrumvarpa, reglugerða og tilskipana. Í flestum tilvikum er um að ræða nýjar kröfur sem atvinnulífinu ber að fara eftir. Í einni reglugerð er takmarkaður sá tími sem flutningabifreiðum er heimilað að aka um Hvalfjarðargöngin, í annarri er verið að innleiða nýjar reglur um hámark þess titrings sem starfsmenn mega verða fyrir á vinnustöðum, í nýju lagafrumvarpi er verið að auka eftrlit með rannsóknum og víkka út eftirlit Orkustofnunar og þannig mætti lengi telja.

 

Hunsuð lagaskylda um kostnaðarmat

Það heyrir til algerra undantekninga ef frumvarpshöfundar, reglugerðasmiðir eða tilskipanaþýðendur reyna að meta kostnað og ávinning af hinum nýju eftirlitsreglum og kröfum sem verið er að leggja á fyrirtækin í landinu. Er það þó ótvíræð lagaskylda.

 

Með lögum um opinberar eftirlitsreglur sem samþykkt voru á Alþingi vorið 1999 er sú krafa lögð á stjórnvald sem semur eftirlitsreglur að meta þörf fyrir eftirlitið, gildi þess og kostnað þjóðfélagsins af því. Greinargerðir um þetta mat eiga að liggja fyrir í öllum tilvikum. Lagaákvæðin hafa svo verið nánar útfærð í reglugerð þar sem lagt er fyrir stjórnvald að meta þörf fyrir eftirlitið gildi þess og kostnað þjóðfélagsins af því. Skilgreina á þau markmið sem ná á með reglunum og meta áhættu af því að grípa ekki inn í athafnir einstaklinga og fyrirtækja. Meta á kostnað sem reglunum fylgir, bæði beinan kostnað hins opinbera og kostnað atvinnulífs og einstaklinga. Einnig á að meta þjóðhagslegt gildi reglna og eftirlits og bera saman kostnað við framkvæmd og áætlaðan árangur. Velja á eftirlitsaðferð sem hefur mestan þjóðfélagslegan ávinning í för með sér að teknu tilliti til heildarkostnaðar og velja eftirlitsaðferð sem takmarkar opinber afskipti eins mikið og unnt er.

 

Það er ekki ástæða til að rekja þessi ákvæði frekar hér en þau eru ítarleg og einnig er ætlast til að eftirlitsreglur séu endurskoðaðar á fimm ára fresti. Lítið hefur farið fyrir slíkri endurskoðun frá því lögin voru sett árið 1999.

 

Viðbrögð við athugasemdum oftast engin

Það er óviðunandi að Samtök atvinnulífsins verði að benda á það í hverri umsögninni á fætur annari að þessi lagaákvæði séu ekki uppfyllt. Að stjórnvöld sýni engan metnað í því að meta gildi þeirra reglna sem ætlunin er að setja. Ástæðan getur varla verið nema ein: Ótti við að matið leiði í ljós að reglurnar séu óþarfar, allt of umfangsmiklar og að ávinningurinn af þeim sé lítill sem enginn. Og þótt viðkomandi stjórnvaldi sé bent á lagaákvæðin eru viðbrögðin oftast engin. Reglugerðin er sett og lagafrumvarpið er lagt fram án þess að í nokkru sé gerð grein fyrir ávinningi eða kostnaði vegna hinna nýju reglna.

 

Allt of umfangsmikið opinbert eftirlit

Umfang eftirlits hins opinbera er allt of mikið, í mörgum tilvikum byggt á úreltum hugmyndum um forsjá ríkis og sveitarfélaga og tilgangurinn oft óljós og árangurinn enginn: Hvers vegna eiga starfsmenn Reykjavíkurborgar að skoða gistiaðstöðuna á gistihúsum í borginni? Hver er ávinningurinn af því að þessir sömu embættismenn heimsæki reglulega efnalaugar? Hvert er gildi þess að skrá og skoða á einum stað vörubíla en á allt öðrum stað kranann sem hangir fastur á bílnum?  Hvers vegna eru opinberir starfsmenn betur fallnir til þessara verka en starfsmenn faggiltra skoðunarstofa sem keppa á markaði?

 

Í öðrum tilvikum er um augljósa hagsmunaárekstra að ræða, til dæmis þegar starfsmenn sveitarfélaga hafa eftirlit með rekstri mötuneyta sveitarfélagsins sem eru í samkeppni við einkarekin mötuneyti. Ekki er nóg með þetta því sömu aðilar ákveða einnig hvaða gjald skuli innheimt fyrir eftirlitið.

 

Úrbætur brýnar

Mjög mikilvægt er að þessu verði breytt þannig að lagaákvæði um opinberar eftirlitsreglur verði virk en séu ekki bara stafir á blaði sem gulnar úti í horni. Hvernig er annars unnt að ætlast til þess að atvinnulíf og einstaklingar beri virðingu fyrir eftirlitsreglum þegar hið opinbera getur ekki sinnt einföldustu grundvallaratriðum, sem kveðið er á um í lögum, við setningu þeirra? Afleiðingar óbreytts ástands verða þær að eftirlitsreglurnar stuðla ekki að aukinni velferð, öryggi og heilbrigði eins og þeim er ætlað heldur valda óþarfa kostnaði, mismunun og takmörkun á athafnafrelsi. Allt þetta leiðir svo til verri lífskjara almennings en vera þyrfti ef farið væri að fullu að lögum um opinberar eftirlitsreglur.

 

Einfaldara Ísland

Forsætisráðuneytið hefur boðað átak undir heitinu „einfaldara Ísland, þar sem ráðuneytum er m.a. falið að fara í gegnum lög og reglur og koma með tillögur til einföldunar. Samtök atvinnulífsins fagna svo sannarlega fyrirhuguðu átaki, sem vonandi verður m.a. nýtt til þess að gera bragarbót á þessu sviði.