Óvenjuleg íbúafjölgun vegna mikilla byggingaframkvæmda

Íbúar á landinu voru 307.261 þann 1. desember sl. og fjölgaði um 7.370, eða sem nemur 2,5%, á fyrstu 11 mánuðum ársins samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands. Körlum fjölgaði um rúmlega 5.100 en konum um aðeins um rúmlega 2.200.  Íslendingum fjölgaði um rúmlega 2.700, eða sem nemur 0,91% af íbúafjölda, og skiptist fjölgunin jafnt milli kynja. Íbúum með erlent ríkisfang fjölgaði hins vegar umtalsvert meira, eða um rúm 4.600 sem nemur 1,54% af íbúafjölda, en þar var kynjaskiptingin mjög ójöfn þar sem körlum fjölgaði um tæplega 3.800 en komum um tæplega 900.

 

Fólksfjölgun 1

 

Þessi mikla fjölgun karla með erlent ríkisfang endurspeglar þá miklu þenslu sem ríkt hefur í byggingarframkvæmdum á árinu, bæði á Austurlandi og á höfuðborgarsvæðinu. 

 

Íbúar með erlent ríkisfang voru rúmlega 18.400 og bjó rúmur helmingur þeirra á höfuðborgarsvæðinu en þar á eftir komu Austfirðir með tæplega 4.000 íbúa með erlent ríkisfang.

 

Fólksfjölgun 2 

 

Íbúum fjölgaði langmest á höfuðborgarsvæðinu eða um tæp 4.200 en þar á eftir á Austurlandi, um tæp 1.500. Fjölgun var í öllum landshlutum nema Vestfjörðun þar sem fækkaði um 81 íbúa.  Ef einungis er litið til Íslendinga þá fækkaði þeim einnig á Norðurlandi og á Austurlandi. 

 

Fólksfjölgun3 litil

Smellið til að sjá stærri mynd

 

Fjölgun íbúa með erlent ríkisfang var mest frá Póllandi, eða tæplega 2.700 en þar á eftir komu Litháar, 369, Portúgalar 303, Tékkar og Slóvakar 185, Þjóðverjar 170, Lettar 157 og Kínverjar 151. Þegar fjölgun íbúa með erlent ríkisfang er skipt á landshluta kemur í ljós að fyrir utan höfuðborgarsvæðið standa Austfirðir upp úr með fjölgun sem nam rúmum 1.500. Þar eru Pólverjar enn fjölmennastir, eða rúmlega 700 en þar á eftirkoma Portúgalar og Kínverjar sem endurspeglar framkvæmdirnar við byggingu álvers Fjarðaáls annars vegar og byggingu Kárahnjúkavirkjunar hins vegar. Talsverður fjöldi Þjóðverja og Slóvaka hefur einnig starfað við byggingu Kárahnjúkavirkjunar.

 

Á Austurlandi bjuggu samtals um 2.800 menn frá Póllandi (1.610) , Kína (554), Portúgal (44), Þýskalandi (93) og Slóvakíu (90) og er fullvíst að allflestir þeirra hverfi af landi brott á næsta ári og því þarnæsta en það nemur fækkun íbúa um 0,9% miðað við stöðuna þann 1. desember sl.