Ómálefnaleg viðbrögð starfsmanna Íbúðalánasjóðs

Samtök atvinnulífsins birtu í gær greinargerð um vanda Íbúðalánasjóðs þar sem m.a. var áætlað að uppgreiðslur eldri lána sjóðsins hefðu numið 140 milljörðum króna undanfarið ár og að tap sjóðsins næmi allt að 15 milljörðum króna vegna þeirra. Skýringin á tapinu væri sú að sjóðurinn hafi tekið þá fjármuni, sem nú hafa verið greiddir til baka, að láni á hærri vöxtum en hann á nú kost á að fá hjá lántakendum sínum. Sjóðurinn væri farinn að stunda aðra útlánastarfsemi en þá sem hann væri stofnaður til og það samræmdist vart tilgangi hans.

 

Nýr ríkisbanki?

Tjón ÍLS vegna uppgreiðslnanna er staðreynd sem sjóðurinn horfist ekki í augu við. Hann gæti horfst í augu við tapið með því að lána nýjum lántakendum þá fjármuni sem hann hefur undir höndum vegna uppgreiðslnanna. Þess í stað heldur hann hins vegar ótrauður áfram að efna til útboða í því skyni að afla sér enn meiri fjármuna sem síðan eru lánaðir út til fyrirtækja, einkum sparisjóða og í einhverjum mæli viðskiptabanka. Þessi nýi þáttur í starfsemi ÍLS er réttlættur af talsmönnum sjóðsins með vísan til áhættustýringar sem felur í sér að sjóðurinn hefur fært starfsemi sína yfir á áhættumeiri svið en íbúðalánin eru í leit að góðri ávöxtun. Þetta gerir sjóðurinn væntanlega til að vega upp tapið vegna uppgreiðslnanna.

 

Stjórnvöld einkavæddu ríkisbankana fyrir örfáum árum. Nú virðist kominn á sviðið nýr ríkisbanki sem aflar fjár með útboðum og endurlánar fé til fyrirtækja með ríkisábyrgð. Þetta er gert í skjóli langsóttra röksemda um áhættustýringu. Þetta hlýtur að ganga í berhögg við einkavæðingarstefnu stjórnvalda.

 

Viðbrögð starfsmanna sjóðsins

Viðbrögð starfsmanna Íbúðalánasjóðs við málefnalegri umræðu SA um stöðu sjóðsins hafa einkennst af skætingi. Forstjórinn segir „Ekkert hæft í fullyrðingum SA“ í Morgunblaðinu í dag og fullyrðir ranglega að forsendur útreikninga SA séu að sjóðurinn „sitji með peningana undir koddanum“. Hið rétta er að SA reikna í sinni greinargerð með því að sjóðurinn ávaxti uppgreidd lán með því að lána íbúðakaupendum á gildandi vöxtum, í samræmi við lögbundinn tilgang sinn. Sviðsstjóri hjá sjóðnum segir síðan í fréttatíma RÚV í hádeginu í dag að áætlun SA um 15 milljarða króna tap vegna 140 milljarða uppgreiðslna lána sjóðsins sé „gjörsamlega út í hött“ án þess að fyrir því séu færð nein rök. Aðdragandi þessarar ályktunar sviðsstjórans var að sjóðurinn hefði aldrei lánað út eins mikla peninga og í síðasta mánuði, sem ekki kemur  þessu umræðuefni við.

 

Niðurstöður SA standa óhaggaðar

Niðurstöður SA byggja á varfærnum forsendum sem skýrt koma fram í greinargerðinni og það hefur engin efnisleg gagnrýni hefur komið fram á þær. Sú útvíkkun á starfsemi Íbúðalánasjóðs og stóraukin notkun ríkisábyrgðar sem hún felur í sér getur vart verið í samræmi við stefnu stjórnvalda um þátttöku ríkisins í atvinnulífinu og ábyrga stjórn ríkisfjármála. Samtökin fagna þess vegna fréttum um að staða sjóðsins sé til skoðunar hjá ráðuneytum fjármála og félagsmála, fjármálaeftirlitinu og fleiri aðilum.