Ógegnsæ launakjör þingmanna og ráðherra

Mikil umfjöllun hefur verið um launakjör þingmanna og ráðherra undanfarna mánuði enda liggur fyrir tillaga þess efnis að gera nokkrar breytingar á fyrirkomulagi við ákvörðun kjara þeirra með því að sameina kjaradóm og kjaranefnd í svonefnt kjararáð. Úrskurður Kjaradóms þann 19. desember 2005 um 8,16% hækkun launa þeirra sem undir hann heyra olli miklu fjaðrafoki sem leiddi til þess að Alþingi ógilti úrskurðinn með lögum þann 20. janúar 2006 og hækkaði laun þeirra um 2,5% í staðinn. Þá er skemmst að minnast almennrar óánægju með breytingu Alþingis á eftirlaunakjörum þingmanna og ráðherra með lögum þann 20. desember 2003. Þingfararkaup er nú skv. lögum 471.427 kr. á mánuði, almenn ráðherralaun 846.049 kr. og laun forsætisráðherra 938.049 kr.  En þessar fjárhæðir segja einungis hálfa söguna því stór hluti kjara þessara kjörnu fulltrúa ráðast af sérstökum lífeyrisréttindum og lögum um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað.

 

Álög og biðlaun

Í lögum um þingfararkaup segir m.a. að forseti Alþingis skuli hafa sömu laun og ráðherrar, varaforsetar fái 15% álag, formenn stjórnmálaflokka 50% álag og formenn þingnefnda og þingflokka 15% álag. Þá er þingmönnum búsettum utan Reykjavíkur og Suðvesturkjördæmis greiddur húsnæðis- og dvalarkostnaður, mánaðarleg framlög eru til ferðakostnaðar og ýmiss annar þingfararkostnaður er greiddur. Þegar þingmenn og ráðherrar láta af þingmennsku eða embætti eiga þeir rétt á biðlaunum í þrjá mánuði ef þeir hafa setið í eitt kjörtímabil, en annars í sex mánuði ef þeir hafa setið lengur.

 

Lífeyrir 70% af launum

Í lögum um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara segir að eftirlaunahlutfall fyrrverandi ráðherra sé 6% fyrir hvert ár í embætti en þó aldrei meiri en 70% af ráðherralaunum. Eftirlaunin fylgja ráðherralaunum eins og þau eru á hverjum tímaFyrrverandi forsætisráðherra á rétt á sama hlutfalli eftirlauna og forseti Íslands, sem er 60% af launum ef hann hefur setið í embætti í fjögur ár, 70% ef árin eru fjögur til átta en 80% ef árin eru fleiri en átta. Eftirlaunahlutfall fyrrverandi alþingismanns er 3% fyrir hvert heilt ár þingsetu en verður aldrei hærri en 70% af þingfararkaupi. Eftirlaunin fylgja þingfararkaupi eins og það er á hverjum tíma.

 

Fyrir hvert ár á þingi myndar þingfararkaup eftirlaunarétt sem nemur 14 þús. kr. á mánuði í ævilangan, mánaðarlegan lífeyri sem hækkar í takt við þingfararkaupið og hvert ár í embætti ráðherra skapar lífeyrisrétt sem nemur 61 þús. kr. í ævilangan, mánaðarlegan lífeyri. Álög á þingfararkaup mynda einnig viðbótarlífeyrisrétt. Það þarf vart að taka það fram að þessi lífeyriskjör myndast ekki með sjóðssöfnun, eins og gerist hjá flestum öðrum landsmönnum. Lífeyrisréttindin á almenna markaðnum, þar sem sjóðssöfunun og ávöxtun eigna ræður því hversu hár ellilífeyririnn getur orðið, eru mun lakari en þessi sérlög um lífeyrisréttindi kjörinna fulltrúa kveða á um. Sjóðsfélagi í Lífeyrissjóði verzlunarmanna með árslaun samsvarandi þingfararkaupi ávinnur sér helmingi minni lífeyrisrétt en þingmaðurinn, þ.e. sjö þús. kr. í ævilangan, mánaðarlegan lífeyri og fjórðung miðað við ráðherrann. 

 

592 þúsund í lífeyri eða 56?

Það tekur þingmann rúm 23 ár að komast í 70% hámark eftirlaunahlutfallsins og ráðherrann tæp 12 ár.  Sé miðað við að þingmaður hefji þingmennsku 41 árs þá nær hann hámarksrétti til lífeyris, 330 þús. kr. á mánuði, þegar hann verður 64 ára.  Sjóðsfélagi í Lífeyrissjóði verslunarmanna ávinnur sér rétt til 168 þús. kr. lífeyris á sama tíma miðað við nýjar reglur um aldursháða ávinnslu. Miðað við jafna ávinnslu óháð aldri ávinnur sjóðsfélaginn í Lífeyrissjóði verzlunarmanna sér 187 þús. kr. rétt til ævilangs, mánaðarlegs lífeyris.  Ráðherra sem hefur störf í embætti 53 ára og starfar í þrjú kjörtímabil ávinnur sér lífeyrisrétt sem nemur 592 þús. kr. á mánuði ævilangt. Sjóðsfélagi í Lífeyrissjóði verzlunarmanna, sem er jafngamall og með sömu laun, ávinnur sér ævilangan lífeyrisrétt sem nemur 56 þús. kr. á mánuði á sama tíma. 

 

Sé miðað við núverandi ævilíkur, sem eru tæp 84 ár hjá körlum sem ná 65 ára aldri, 1% kaupmáttaraukningu á ári, 3,5% ávöxtun eigna lífeyrissjóða og 3,5% vexti til núvirðingar lífeyrisgreiðslna, þá má umreikna umfram lífeyriskjör þingmanna og ráðherra yfir í ígildi starfslokagreiðslu eða sem ígildi launauppbótar. Niðurstaða slíks samanburðar er sýnd í meðfylgjandi töflu.

 

Umframkjör þingmanna og ráðherra í lífeyrisrétti miðað við aðra

     Þingmenn Ráðherrar

Umfram lífeyris-

réttur sem ígildi starfsloka-

greiðslu, m.kr

Samanburður við Lsj. verzlm., jafna ávinnslu

 

40 m.kr.

 

90 m.kr.

Samanburður við Lsj. verzlunarmanna,

aldurtengda vinnslu

 

 

51 m.kr.

 

 

102 m.kr.

Samanburur við SR

35 m.kr.

85 m.kr.

Umfram lífeyrisréttur

sem ígildi hærrimánaðarlauna, %

Samanburður við Lsj. verzlm., jafna ávinnslu

 

28%

 

70%

Samanburður við Lsj. verzlunarmanna,

aldurstengda ávinnslu

 

 

35%

 

 

79%

Samanburður við LSR

23%

66%

 

Í töflunni kemur fram að umframlífeyriskjör þingmanna eru ígildi 40 m.kr. starfslokagreiðslu miðað við sex kjörtímabil (23 ár) sé samanburður gerður við sjóðsfélaga í Lífeyrissjóði verzlunarmanna, sem ávinnur sér rétt til lífeyris óháð aldri, en 51 m.kr. ef samanburður er gerður við aldursháða ávinnslu lífeyrisréttinda.  Samanburður við réttindi í A-deild LSR er ekki ósvipaður, eða ígildi 35 m.kr. starfslokagreiðslu. Umframréttindin má leggja að jöfnu við 23-35% mánaðarlega launauppbót. 

 

Umframlífeyriskjör ráðherra sem gegnir embætti í þrjú kjörtímabil eru ígildi 85-102 m.kr. starfslokagreiðslu og 66-79% mánaðarlegrar launauppbótar samkvæmt ofangreindum forsendum. Umframlífeyriskjör forsætisráðherra sem situr í tvö kjörtímabil eru enn meiri, þar sem þau eru ígildi 113 m.kr. starfslokagreiðslu eða 122% launauppbótar.

 

Grundvöllur sáttar

Fyrirliggjandi frumvarp um kjararáð, í stað kjaradóms og kjaranefndar, er til bóta hvað það varðar að sú skörun sem var í umfjöllunarefnum þessara úrskurðaraðila mun heyra sögunni til, en hætt var við að þessir aðilar byggðu á úrskurðum hvors annars  á víxl. Það er hins vegar ólíklegt að stofnun kjararáðs muni skapa meiri frið um launakjör kjörinna fulltrúa þjóðarinnar og dómara. Ástæðan liggur í því ógegnsæi sem kjörin einkennast af, því pukri sem einkennir kjaraákvarðanir og þeim rausnarlegu lífeyriskjörum sem þingmenn hafa lögfest fyrir sig sjálfa, dómara og forseta. 

 

Varanleg sátt um launakjör þessara aðila mun ekki skapast nema að eftirlaunakjör þeirra verði færð til samræmis við það sem aðrir landsmenn búa við og umframkjör verði færð inn í grunnlaun þeirra. Við þá breytingu þarf að sjálfsögðu að gæta þess að fyrrverandi þingmenn og ráðherrar snarhækki ekki í eftirlaunum. Slík breyting skapaði grunvöll fyrir raunhæfum  samanburði á föstum mánaðarlaunum kjörinna fulltrúa við aðra hópa sem eðlilegt er talið að laun þeirra séu borin við. Það væri einnig til þess fallið að skapa aukna sátt um kjör þingmanna og ráðherra að heildarkjör þeirra yrðu ákveðin á einum stað, þannig að helstu  kjaraþættir sem ákvarðast í lögum um þingfararkaup verði færðir undir kjararáð.