Nýtt eftirlit án lagastoðar?

Aðfangaeftirlit ríkisins setti í ársbyrjun 2003 á fót nýtt eftirlit með útfluttu fiskmjöli og lýsi. Dæmi er um að eitt fyrirtæki sé krafið um á annan tug milljóna króna vegna þessa eftirlits á einu ári. Samtök atvinnulífsins og Félag íslenskra fiskmjölsframleiðenda hafa mótmælt þessu nýja eftirliti og telja samtökin það ekki eiga sér neina stoð í lögum. Sjávarútvegsráðuneytið hefur jafnframt sett fram þá afdráttarlausu afstöðu að eftirlit Aðfangaeftirlits sé bæði ónauðsynlegt og ólögmætt og hefur ráðuneytið ítrekað andmælt hinu nýja eftirliti. Um lögmæti þessa nýja eftirlits er nú rekið prófmál nú fyrir dómstólum og fara SA með málið fyrir hönd aðildarfyrirtækis.

 

Ný lagatúlkun ríkisstofnunar

Ákvörðun Aðfangaeftirlitsins um hið nýja eftirlit byggir á nýrri túlkun stofnunarinnar á lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru frá árinu 1994. Fiskmjöl og lýsi eru reyndar ekki seld til útlanda sem fóður, heldur sem hráefni í fóður. SA hafa mótmælt þessu nýja eftirliti þar sem þess er hvergi getið í umræddum lögum. Þá er ljóst  að nýja eftirlitið er í andstöðu við fyrri réttarframkvæmd og lagatúlkun um gildissvið laganna.

 

Gengur gegn öðrum lögum

Loks hafa SA bent á að ákvörðunin um hið nýja eftirlit er beinlínis í andstöðu við gildandi lög um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða, þar sem eftirlit með fiskmjöls- og lýsisframleiðslu er falið Fiskistofu,  sem og við lög um opinberar eftirlitsreglur. Lögin um opinberar eftirlitsreglur banna að nýtt opinbert eftirlit eða eftirlitsgjöld séu tekin upp og lögð á atvinnulífið án þess að farið sé eftir efnis- og verklagsreglum laganna og reglugerðar á grundvelli þeirra.

 

Samtök atvinnulífsins telja ljóst að opinber stofnun eins og Aðfangaeftirlitið geti ekki upp á sitt einsdæmi tekið upp nýtt eftirlit með atvinnustarfsemi og hafið gjaldtöku meðal fyrirtækja þess vegna. Með ólíkindum þykir að landbúnaðar-ráðuneytið, sem Aðfangaeftirlitið heyrir undir, skuli láta slíkt viðgangast, ekki síst í ljósi ítrekaðra andmæla sjávarútvegsráðuneytisins.