Nýjungar í kjarasamningum

Kjarasamningar SA við Starfsgreinasamband Íslands og Flóabandalagið gilda frá 1. mars sl. Auk nýrrar launatöflu var samið um lífeyrismál, fræðslumál, slysatryggingar, uppsagnarfrest, vinnufyrirkomlag og margt fleira. Þessum nýjungum er gerð skil í kynningarefni SA hér á vefsetri samtakanna.

 

3,25% almenn launahækkun

Nokkurs misskilnings hefur gætt hversu mikið laun hækka skv. samningum verkafólks og hefur þá verið blandað saman almennri hækkun launa og kostnaði við upptöku nýrrar launatöflu. Almenn launahækkun er 3,25% en heildarlaunabreyting getur þó verið meiri. Ný og breytt launatafla, þar sem kauptaxtar eru færðir nær greiddum launum í einstökum starfsgreinum, getur leitt til viðbótarhækkunar dagvinnulauna einstakra starfsmanna auk þess sem yfirvinnukaup getur hækkað vegna hærri grunnlauna. Samningsaðilar mátu kostnað af upptöku nýrrar launatöflu á 2%, þ.e. 1% við gildistöku og 1% þann 1. janúar 2006, en þessi kostnaður getur verið mismunandi milli fyrirtækja og starfsgreina. Mikilvægt er að atvinnurekendur kynni sér vel ákvæði samninganna um þessar taxtabreytingar og þau dæmi sem samningunum fylgja.

 

Breytingar á vinnutímaákvæðum

Viðamestu breytingar á vinnutíma- og vaktaákvæðum voru gerðar í sérkjarasamningum vegna einstakra fyrirtækja og starfshópa. Á móti taxtahækkunum komu ákvæði um sveigjanlegri vinnutíma og rýmri heimildir til upptöku vaktavinnu. Breytingar á vaktaákvæðum tækjastjórnenda og byggingaverkamanna eru einnig mjög mikilvægar í ljósi þeirra miklu og mannaflsfreku framkvæmda sem fyrirhugaðar eru. Í kjarasamningi SA og Eflingar og VSFK fyrir veitingastarfsemi og þjónustu voru gerðar miklar breytingar á vinnutímaákvæðum, sérstaklega hvað varðar tímakaupsfólk og heimildir til að vinna á vöktum.

 

Tilfærsla fimmtudagsfrídaga

Samtök atvinnulífsins stefna að því að ákvæði um tilfærslu frídags vegna sumardagsins fyrsta og uppstigningardags komi inn í flesta kjarasamninga. Til að hrinda slíkri tilfærslu í framkvæmd þarf atvinnurekandi að semja við hlutaðeigandi starfsmenn á grundvelli svokallaðs „fyrirtækjaþáttar kjarasamninga”, sbr. 5. kafla kjarasamninga SGS og Flóa. Samfelldari vinnuvika getur leitt til aukinnar framleiðni og bættrar nýtingar framleiðslutækjanna, fyrirtækjum og starfsmönnum til hagsbóta.

 

Uppsagnarfrestur

Miklar breytingar voru gerðar á ákvæðum um uppsagnarfrest. Um er að ræða eina einfalda reglu og miðast uppsagnarfrestur ávallt við vinnu innan sama fyrirtækis og óháð því hvort laun séu greidd út viku- eða mánaðarlega.