Nýjar aðferðir nauðsynlegar við verðlagseftirlit

Samtök atvinnulífsins vilja að teknar verði upp nýjar aðferðir við kannanir á verðlagi á matvörumarkaði og miðlun verðupplýsinga til almennings. Í bréfi til forsætisráðherra Geirs H. Haarde er bent á að um nokkurra ára skeið hafi verið safnað rafrænum upplýsingum um sölu í matvöruverslunum og þær notaðar til þess að vinna talnaefni um markaðshlutdeild einstakra vörutegunda. Þessar upplýsingar væri einnig hægt að nýta til þess að gera kannanir á verðlagi einstakra vörutegunda í einstökum verslunum. Samtökin telja að með því að hagnýta slíkar upplýsingar fengist nákvæmari og betri mynd af verðlagi á þessum markaði. Það er skoðun samtakanna að Hagstofa Íslands væri eðlilegur aðili til þess að vinna úr þessum upplýsingum í eðlilegu samráði við alla viðeigandi hagsmunaaðila en nauðsynlegt er að Hagstofan fái nægar fjárveitingar til verksins.

 

Í bréfi Vilhjálms Egilssonar, framkvæmdastjóra SA, til Geirs H. Haarde forsætisráðherra segir: „Alþýðusamband Íslands hefur um nokkurra ára skeið fengið sérstakar fjárveitingar úr ríkissjóði til þess að annast verðlagseftirlit. (Á fjárlögum 2007 30 m.kr. á fjárlagaliðnum 01-190-1.19 Efnahagsrannsóknir). Megináherslan hefur verið lögð á matvörumarkaðinn. Á þeim tíma sem Alþýðusambandið hefur fengist við verðlagseftirlitið hefur margt breyst í samsetningu útgjalda heimilanna. Þannig voru matur og drykkjarvörur 17,1% af útgjöldum í grunni vísitölu neysluverðs í mars 1997 en aðeins 12,3% nú. Á sama tíma hafa til dæmis útgjöld vegna eigin húsnæðis, þ.e. reiknuð og greidd húsaleiga vaxið úr 10,5% útgjalda í 20,7%. Megináhersla verðlagseftirlits Alþýðusambandsins hefur hins vegar ekkert breyst. Verðlagseftirlit Alþýðu­sambandsins hefur sætt mikilli gagnrýni frá Samtökum verslunar og þjónustu og einstökum fyrirtækjum á matvörumarkaðnum sem hafa kvartað undan óvönduðum vinnubrögðum í vinnslu gagna og framsetningu á niðurstöðum. Segja má að ekkert traust ríki af hálfu þessara aðila á vinnu Alþýðusambandsins að verðlagseftirliti. Samtök atvinnulífsins telja þess meiri ástæðu að þróa nýjar og betri aðferðir til að gera samanburðarrannsóknir á verðlagi og koma þeim upplýsingum á framfæri.

 

Samtök atvinnulífsins telja ennfremur ástæðu til þess að taka til umræðu hlutverk verðlagseftirlits Alþýðusambandsins í ljósi þess styrks sem sambandið fær úr ríkissjóði. Eigi slík starfsemi að þjóna tilgangi sínum hlýtur að þurfa að skoða fleiri en einn markað ekki síst þegar áherslan hefur verið á 12% af útgjaldagrunni neysluvísitölunnar meðan hinum 88% hefur lítt verið sinnt,” segir Vilhjálmur Egilsson