Mikilvægt að verja lífskjörin

Á síðasta einum og hálfa áratug hefur Íslendingum farnast vel. Á árunum 2000-2007 jókst kaupmáttur launa samkvæmt launavísitölu Hagstofunnar um 20% til viðbótar við 22% aukningu á árunum 1990-2000. Sé litið til umsaminna lágmarkslauna þá jókst kaupmáttur þeirra um 45%  frá 1990-2000 og um rúm 18% á árunum 2000-2007. Samtals jókst kaupmáttur umsaminna lágmarkslauna um 71% milli áranna 1990 og 2007. Launahækkanir á Íslandi hafa verið mun meiri undanfarin ár en gerist meðal nálægra þjóða. Það þarf öflugt atvinnulíf til að greiða há laun og ástæða til að óska Íslendingum til hamingju með árangur liðinna ára.

 

Nú eru hins vegar blikur á lofti. Verðbólga hefur verið allt of mikil undanfarið og mikilvægt að hemja hana sem fyrst þar sem hún hefur skaðleg áhrif á heimili og fyrirtæki. Reynslan sýnir að miklar launahækkanir leiða ekki til betri kjara. Á árunum 1980-1990 hækkuðu laun til að mynda um 1434% en kaupmáttur rýrnaði um 15% á sama tíma.

 

Samtök atvinnulífsins birtu í dag tölur um hækkun launa og verðlags frá 1980-2007 og kaupmáttaraukningu launa á árunum 1980-1990, 1990-2000 og 2000-2007. Þetta má m.a. sjá á meðfylgjandi mynd en tölurnar eru fengnar frá Hagstofu Íslands en útreikningar eru Samtaka atvinnulífsins.

 

Smellið á myndina til að sjá stærri útgáfu

Smellið á myndina til að sjá stærri útgáfu

 

Samtök atvinnulífsins telja mikilvægt að varðveita þann ávinning sem náðst hefur.