Löng leið erlends starfsfólks

Gústaf Adolf Skúlason, forstöðumaður stefnumótunar- og samskiptasvið Samtaka atvinnulífsins, flutti erindi á málþingin Alþjóðahúss um mannauð innflytjenda. Málþingið var haldið í samstarfi við SA, ASÍ og félagsmálaráðuneytið.

 

Fjölmenningarsamfélag – allra hagur

Í erindi sínu fjallaði Gústaf m.a. um það hvernig SA hafa reynt að leggja sitt af mörkum til jákvæðrar umræðu um framlag innflytjenda til okkar samfélags. Rifjaði hann í því sambandi upp sérblað sem dreift var með Morgunblaðinu fyrir um tveimur árum síðan, sem ber heitið Fjölmenningarsamfélag – allra hagur. Blaðið var gefið út í samvinnu SA, félagsmálaráðuneytis, Reykjavíkurborgar, Rauða kross Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Í blaðinu er áhersla lögð á þann feng sem í því er fólginn fyrir Íslendinga að fólk kjósi að flytjast hingað, að samfélagið styrkist og eflist, og að við kynnumst nýjum hugmyndum og siðum og fáum notið krafta innflytjenda.

 

Í blaðinu er meðal annars rætt við innflytjendur úr ýmsum starfsgreinum: hjúkrunarfræðing, rafmagnstæknifræðing, fiskvinnslufólk, veitingafólk, tónlistarfólk, íþróttaþjálfara, arkitekt og líftæknifræðing, svo nokkur dæmi séu tekin. Gústaf sagði þessa upptalningu í raun segja meira en mörg orð, um mannauð innflytjenda. Þetta fólk flytti með sér verðmæta þekkingu inn í landið, svaraði ákveðinni eftirspurn á vinnumarkaði sem ekki hefði verið mætt af Íslendingum hverju sinni og yki þannig samkeppnishæfni atvinnulífsins.

 

Löng leið inn í landið

Gústaf fjallaði jafnframt um þá löngu leið sem fara þarf til að fá hingað til lands starfsfólk frá löndum utan EES, en það ferli tekur oft um þrjá mánuði. Sækja þarf um dvalarleyfi hjá Útlendingastofnun og atvinnuleyfi hjá Vinnumálastofnun. Á hinum Norðurlöndunum er veiting dvalar- og atvinnuleyfa útlendinga á hendi þess aðila sem fer með málefni útlendinga og hafa SA lagt til að sama fyrirkomulag verði tekið upp hérlendis. Gústaf rakti líka hvernig umsagnarréttur stéttarfélaga, sem hafa tvær vikur til að gefa umsögn, á rætur að rekja til gamals tíma þegar þau gegndu að hluta til þeim hlutverkum sem Vinnumálastofnun og svæðisvinnumiðlanir gegna í dag, og sagði hægt að hagræða verulega í þessu ferli.

 

Loks sagði Gústaf frá þeirri sýn SA að óeðlilegt sé að atvinnuleyfi séu veitt fyrirtækjum, en ekki viðkomandi einstaklingum. Eðlilegra væri að einstaklingurinn hlyti atvinnuleyfið, en áfram væri hægt að binda gildi leyfisins við starf hjá ákveðnu fyrirtæki eða um ákveðið tímabil, eins og gert er í norsku útlendingalögunum.

 

Gegn ofþenslu

Þá fjallaði Gústaf um það mikilivæga hlutverk sem erlent hefur meðal annars gegnt varðandi það að hamla gegn ofþenslu á vinnumarkaði, með tilheyrandi verðbólgu, hækkun íbúðalána o.s.frv., og verri samkeppnisstöðu atvinnulífsins. Hann vitnaði í nýlegar hálffimmfréttir KB banka, þar sem fjallað var um hærra hlutfall erlends starfsfólks við stóriðjuframkvæmdir hér á landi en upphaflegar spár höfðu gert ráð fyrir. Þar segir m.a.: „Verða þetta að teljast góðar fréttir fyrir efnahagslífið í heild þar sem minni líkur eru til þess að stóriðjuframkvæmdirnar trufli efnahagslífið með þenslu á vinnumarkaði og kalli á vaxtahækkanir af hálfu Seðlabankans.“

 

Gústaf sagði slík áhrif, gjarnan nefnd ruðningsáhrif, geta orðið til þess að ryðja burt annarri atvinnustarfsemi, t.d. þar sem væri bein samkeppni við erlend fyrirtæki, eða starfsemin með öðrum hætti háð hagstæðu gengi krónunnar. Hátt hlutfall erlends starfsfólks við slíkar tímabundnar stórframkvæmdir yrði þannig til þess að verja aðra atvinnustarfsemi og þar með önnur störf á íslenskum vinnumarkaði, sem tekið gæti langan tíma að endurheimta ef þeim yrði rutt burt vegna mikillar þenslu á vinnumarkaði. Þá fjallaði Gústaf um hvernig tölur um fjölda aðfluttra og brottfluttra, og um veitingu atvinnuleyfa, væru í öfugum takti við hagsveifluna hér á landi, þ.e. aðfluttum fækkaði á samdráttartímum en fjölgaði á tímum meiri hagvaxtar.

 

Stækkun EES

Loks fjallaði Gústaf um stækkun EES, en SA hefðu viljað sjá borgara þessara nýju aðildarríkja EES hljóta sömu réttindi og íbúar núverandi aðildarríkja njóta innan svæðisins strax við gildistöku stækkunarinnar, 1. maí næstkomandi. Í ljósi þess að nær öll núverandi aðildarríki EES hyggjast nýta heimild til að viðhafa aðlögunarfrest hefðu SA hins vegar kosið að setja sig ekki upp á móti því að íslensk stjórnvöld gerðu slíkt hið sama. Samtökin litu þó svo á að um yrði að ræða tímabundna aðgerð til tveggja ára og að við útfærslu þeirra reglna sem hér muni gilda næstu tvö árin yrði núverandi framkvæmd í það minnsta einfölduð að einhverju marki gagnvart borgurum þessara væntanlegu aðildarríkja EES.

 

Sjá glærur Gústafs.