Leonardo verkefni undir stjórn Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins hefur fengið styrk frá Leonardo Da Vinci starfsmenntaáætlun Evrópusambandsins að upphæð 30 milljónir í tilraunverkefni sem ber titilinn “The Value of Work.”  Verkefnið miðar að því að þróa aðferðir til að meta raunverulega færni einstaklinga í atvinnulífinu. Fræðslumiðstöðin mun stýra verkefninu. Samstarfslönd eru Danmörk, England, Kýpur, Slóvenía og Svíþjóð.

 

Mat á raunfærni

Áherslan á þróun mats á raunverulegri færni fólks á vinnumarkaði hefur verið að aukast í nágrannalöndum okkar. Norðmenn fóru kröftuglega af stað rétt fyrir aldamót og hin Norðurlöndin fylgja fast á eftir. Í því skyni að auka gagnsæi er nú verið að kanna möguleikann á að þróa sameiginlegan grunn Evrópulanda til að meta raunverulega færni þeirra sem eru í vinnu. Þetta verkefni er liður í því. Mat á þeirri færni sem starfsmenn búa yfir getur ýtt undir aðsókn þeirra í símenntun og auðveldað val á námi við hæfi.

 

Mat á raunfærni er til þess að draga fram færni sem starfsmaður býr yfir, skrá hana og meta útfrá settum viðmiðum. Litið er á vinnustaðinn sem námsumhverfi þar sem þróuð er hagnýt færni; almenn, fagleg og persónuleg færni. Mikilvægt er að meta kunnáttu og þekkingu sem fullorðnir einstaklingar hafa byggt upp í gegnum starfsreynslu sína. Þar með hefur einstaklingurinn yfirlit færni sinnar sem getur nýst í áframhaldandi uppbyggingu færni í námi og starfi. Í fyrirtækjum eykur færniskráning möguleika á starfsþróun og auðveldar nýtingu mannauðs á árangursríkan hátt.

 

Á Íslandi verður tilraunaverkefnið unnið með starfsmönnum banka. Þróuð verða viðmið fyrir mat á færni fyrir störf almennra starfsmanna í bönkum. Útbúin verður handbók með lýsingu á færniþáttum og þróaðar aðferðir og tæki til að meta færni starfsmanna. Lögð verður áhersla á yfirfærslugildi verkefnisins á aðrar greinar. 

 

Samstarfsaðilar FA í verkefninu hér á landi eru Íslandsbanki, Landsbankinn, KB-banki, Menntaskólinn í Kópavogi, Samband Íslenskra Bankamanna, Verslunarmannafélag Reykjavíkur, Starfsgreinaráð fjármála- og verslunargreina og menntamálaráðuneytið. Fulltrúar þessara aðila mynda faghóp í verkefninu sem mun reglulega fara yfir framvindu mála. Samskonar faghópar hagsmunaaðila verða myndaðir í hverju landi. Verkefnið mun standa yfir í tvö ár og munu upplýsingar um framvindu þess ásamt afurðum birtast á heimasíðu verkefnisins sem opnuð verður í janúar 2006. Upplýsingar verður einnig að finna á heimsíðu Fræðslumiðstöðvar: www.frae.is

 

Það er ánægjulegt fyrir FA að fá tækifæri til að taka að sér alþjóðlegt verkefni á sviði raunfærnimats. Sú reynsla sem því fylgir mun vafalaust nýtast vel í þróun þessa málaflokks á Íslandi.

 

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins ehf. var stofnuð af Alþýðusambandi Íslands og Samtökum atvinnulífsins í desember 2002. Hlutverk hennar er að vera samstarfsvettvangur stofnaðilanna um fullorðinsfræðslu og starfsmenntun í samstarfi við aðrar fræðslustofnanir á vegum aðildarsamtaka ASÍ og SA. Starfsemin byggir á samþykktum félagsins og þjónustusamningi sem gerður hefur verið við menntamálaráðuneytið. Fræðslumiðstöðin mun í gegnum þann samning byggja upp aðferðir og leiðir fyrir mat á raunfærni.