Lágmarkskröfur með lágmarkstilkostnaði

Mikið fjölmenni var á opnum fundi Samtaka atvinnulífsins um vernd skipa, farms og farþega. Á fundinum var fjallað um væntanlega löggjöf um siglingavernd og áhrif hennar, kostnað, eftirlit, umsýslu o.s.frv. Löggjöfinni er ætlað að innleiða í íslenskan rétt alþjóðlegar reglur og skuldbindingar á sviði siglingaverndar, sem aftur er ætlað að tryggja vernd skipa, áhafna, farþega, farms og hafnaraðstöðu fyrir hvers kyns ógn af hryðjuverkum og öðrum ólögmætum aðgerðum. Kveðið er á um gerð áhættumats og verndaráætlunar og skipun verndarfulltrúa fyrir skip og útgerðarfélög í alþjóðasiglingum og fyrir hafnir sem kjósa að þjóna slíkum skipum. Þá er kveðið á um öryggisleit, bakgrunnsskoðun, heimildir til gjaldheimtu o.fl.

 

Lágmarkskröfur með lágmarkstilkostnaði
Almennt má segja að á fundinum hafi komið fram áhyggjur af þeim kostnaði sem nýju lögin munu hafa í för með sér, kostnaði sem í upphafi mun einkum lenda á höfnum, skipafélögum og útflytjendum, en neytendur munu síðan á endanum bera. Almenn samstaða var um að nauðsynlegt væri að uppfylla alþjóðlegar lágmarkskröfur á trúverðugan hátt, en jafnframt að nauðsynlegt væri að framkvæmdin yrði sem hagkvæmust og hefði sem minnstan kostnað og umstang í för með sér.

 

Ari Edwald, framkvæmdastjóri SA, setti fundinn og stýrði honum, en eftirfarandi erindi voru flutt á fundinum (smellið á heiti erindanna til að sjá glærur framsögumanna):

 

   Ný alþjóðasamþykkt og innleiðing hennar
   Sigurbergur Björnsson, skrifstofustjóri, samgönguráðuneyti

 

   Farmvernd – Hlutverk tollgæslunnar
   Sigurður Skúli Bergsson, forstöðumaður, tollstjóranum í

   Reykjavík

 

   Hvernig geta hafnir brugðist við?
   Hörður Blöndal, framkvæmdastjóri, Hafnarsamlag

   Norðurlands

 

   Áhrif siglingaverndar á siglingar og sjóflutninga
   Ólafur J. Briem, framkvæmdastjóri, Samband íslenskra

   kaupskipaútgerða

 

Trúverðuga en hagkvæma framkvæmd
Við setningu fundarins fjallaði Ari um hvernig hryðjuverkaógnin væri okkur Íslendingum að sumu leyti framandi, en veruleikinn væri hins vegar sá að við yrðum að uppfylla alþjóðlegar lágmarkskröfur á trúverðugan hátt til þess að eiga sem greiðasta leið að mörkuðum erlendis, sem mikil samstaða var um á meðal fundarmanna. Í fundarlok benti hann jafnframt á að þar sem framkvæmdin heyrði undir marga aðila í stjórnsýslunni væri hætta á að hún yrði óþarflega flókin. Blessunarlega virtust þó allir sammála um mikilvægi þess að halda kostnaði í lágmarki.

 

Kostnaður óljós
Ekki komu fram skýrar upplýsingar um hver heildarkostnaðurinn verði af innleiðingu þessara reglna, enda liggja ekki fyrir áætlanir um verndaráætlanir og fjárfestingar í búnaði. Þó kom fram að Reykjavíkurhöfn gerir ráð fyrir árlegum kostnaði sem nemur 150 til 200 milljónum króna, að teknu tilliti til stofnkostnaðar, og að Hafnarfjarðarhöfn reiknar með 25-45 m.kr. stofnkostnaði og 20-30 m.kr. árlegum rekstrarkostnaði. Þá sýndi Hörður Blöndal dæmi um útreikning á mögulegum kostnaði Akureyrarhafnar. Nú þegar hafa 17 hafnarsjóðir, með hafnaraðstöðu á alls 40 stöðum, sótt um að uppfylla þessar kröfur um siglingavernd.

 

Sjá frumvarp til laga um siglingavernd, sem lagt var fram nokkrum dögum eftir fund SA.